fbpx
Fimmtudagur 22.janúar 2026
Fréttir

Fær bætur eftir örlagaríka ferð úr hádegisverði

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 21. janúar 2026 21:00

Starfsmenn Reykjavíkurborgar voru á leið úr hádegisverði á stöð N1 við Ártúnshöfða þegar slys átti sér stað á bílastæðinu við stöðina. Mynd: Skjáskot-Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu starfsmanns Reykjavíkurborgar um að hann eigi að fá bætur frá tryggingafélaginu Verði úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sem borgin var með á leigu. Hlaut starfsmaðurinn meðal annars tognun á baki í kjölfar slyss sem hann varð fyrir á meðan hann og vinnufélagar hans voru á leið úr hádegisverði.

Slysið átti sér stað í febrúar árið 2024 en starfsmaðurinn var þá á ferð um borgina ásamt þremur vinnufélögum sínum en þeir voru að sinna vetrarþjónustu á götum borgarinnar. Þeir voru á pallbíl, sem var í eigu bílaleigu, sem var með saltkassa á pallinum.

Fóru þeir í hádegisverð á stöð N1 á Ártúnshöfða. Þegar félagarnir voru að leggja af stað að loknum hádegisverðinum átti sá þeirra sem ók bílnum erfitt með að snúa honum vegna stórs vörubíls sem hafði verið lagt á stæðinu sem pallbílnum hafði verið lagt á. Var ökumaðurinn að reyna sitt ýtrasta til að fara ekki utan í vörubílinn en það gekk ekki betur en svo að hann bakkaði á stólpa sem var fyrir aftan pallbílinn.

Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð stólpann vegna saltkassans og áætlaði að hann hefði verið á 1–4 kílómetra hraða þegar bifreiðin lenti á stólpanum. Misvísandi upplýsingar voru í gögnum málsins um hvort skemmdir hefðu orðið á búnaði á pallbílnum en ökumaðurinn bar fyrir dómi að búnaður á saltkassanum hefði beyglast en honum tekist að laga það. Segir í dómnum að skemmdir hafi orðið á stólpanum.

Var ekki að grínast

Starfsmaðurinn sem krafðist bóta var annar tveggja farþega í aftursæti pallbílsins. Eftir að pallbílnum var ekið af stað eftir slysið tjáði hann vinnufélögum sínum að hann þyrfti að komast á slysadeild. Töldu þeir í fyrstu að hann væri að grínast en svo gerðu þeir sér grein fyrir að svo var ekki.

Starfsmaðurinn sagðist hafa strax fundið til einkenna eftir slysið og leitaði á heilsugæsluna í Salahverfi þar sem hann var greindur með verki og tognun í baki eftir læknisskoðun. Þangað leitaði hann svo aftur nokkrum dögum síðar og var vísað í sjúkraþjálfun. Fyrir lá vottorð bæklunarlæknis sem greindi starfsmanninn með tognun á lendhrygg sem fæli í sér versnun á fyrri einkennum en starfsmaðurinn hafði áður lent í umferðarslysi, seint á árinu 2018, og verið metinn til miska og fimm prósent varanlegrar örorku af þeim sökum.

Starfsmaðurinn var frá vinnu í um vikutíma vegna slyssins. Í kjölfarið var samin matsgerð um áverkana en þar kom fram að maðurinn hefði tognað á hálsi og lendhrygg í slysinu sem leitt hefði til þess að einkenni vegna slyssins frá 2018 hefðu versnað og hann orðið fyrir varanlegum miska.

Vörður hafnaði bótaskyldu á þeim grundvelli að um mjög vægan árekstur hefði verið að ræða. Lagði félagið fram útreikninga sem sýna áttu að áreksturinn hafi ekki getað valdið líkamstjóni starfsmannsins vegna þess um hversu lítið högg hafi verið að ræða. Lögmaður starfsmannsins taldi útreikningana ekki marktæka þar sem Vörður hefði aflað þeirra einhliða. Vísaði lögmaðurinn einkum til þess að matsgerðin og vottorð lækna og sjúkraþjálfara sönnuðu það líkamstjón sem starfsmaðurinn hefði orðið fyrir. Stóð Vörður fast á því að ekki hefðu verið færðar sönnur á atvikið hefði orsakað líkamstjón starfsmannsins og það gæti ekki hafa gert það vegna þess hversu lítilvægt það hefði verið.

Misjafnt

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur er bent á að Vörður hafi ekki nýtt sér rétt sinn til að koma að gerð matsgerðarinnar um líkamstjón starfsmannsins. Með matsgerðinni og öðrum gögnum sé sannað að starfsmaðurinn hafi orðið fyrir líkamstjóni í slysinu. Dómurinn segir að áðurnefndir útreikningar sem Vörður aflaði hafi takmarkað sönnunargildi þar sem þeirra hafi verið aflað einhliða af hálfu félagsins. Fyrir liggi að mat á afleiðingum slyss séu einstaklingsbundnar og taka verði einnig með einnig með í reikninginn hvort viðkomandi hafi verið viðbúinn höggi. Í þessu tilviki hafi virst augljóst að starfsmaðurinn hafi ekki verið viðbúinn högginu enda hafi bílnum verið ekið afturábak. Bæði hann og ökumaðurinn hafi getið þess fyrir dómi að höggið hefði komið á óvart.

Útreikningarnir sem Vörður lagði fram byggi hins vegar á líkindum og þar hafi ekkert tillit verið tekið til líkamlegs ástands starfsmannsins eftir slysið. Starfsmaðurinn hafi leitað sér læknishjálpar strax í kjölfar slyssins og fyrirliggjandi gögn frá læknum og sjúkraþjálfara sem og matsgerðin gefi til kynna að hann hafi hlotið tognunaráverka vegna slyssins.

Var því bótaskylda Varðar viðurkennd en starfsmaðurinn gerði ekki kröfu um tiltekna upphæð þar sem hann kynni að afla sér sönnunar um frekara tjón en komist var að niðurstöðu um í matsgerðinni.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur er hægt að nálgast hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Borgarstjórn biður börn sem voru vistuð á Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins afsökunar

Borgarstjórn biður börn sem voru vistuð á Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins afsökunar
Fréttir
Í gær

Ragnar Þór urðar yfir Ingu Sæland og líkir henni við Donald Trump – „Hverjum dettur í hug að tala svona?“

Ragnar Þór urðar yfir Ingu Sæland og líkir henni við Donald Trump – „Hverjum dettur í hug að tala svona?“
Fréttir
Í gær

„Þessi mál standa mér afar nærri. Þau hafa haft bein og óbein áhrif á líf mitt“

„Þessi mál standa mér afar nærri. Þau hafa haft bein og óbein áhrif á líf mitt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendur til Íslands gagngert til þess að selja fíkniefni – Sagði „einhvern mann“ í miðbænum hafa gefið sér bíl

Sendur til Íslands gagngert til þess að selja fíkniefni – Sagði „einhvern mann“ í miðbænum hafa gefið sér bíl