fbpx
Þriðjudagur 27.janúar 2026
Fréttir

Eyjamenn ósáttir og sjá fram á skerta þjónustu

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 26. janúar 2026 19:00

Frá Vestmannaeyjum. Mynd: Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir óánægju með fyrirhugaðan niðurskurð á framlagi ríkisins til samgangna milli lands og eyja. Segir bæjarstjórnin að öllu óbreyttu muni sú þjónusta sem íbúum bæjarins stendur til boða, við að komast upp á fastalandið, skerðast og raunar hefur Vegagerðin farið fram á viðræður um að samningur um rekstur Herjólfs verði endurskoðaður í ljósi fyrirhugaðrar skerðingar á framlögum ríksins til ferjusamgangna á landsbyggðinni.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar fór Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri yfir fund sem bæjarfulltrúar áttu með þingmönnum Suðurkjördæmis. Farið var yfir samgönguáætlun og þá þætti sem snúa að Vestmannaeyjum. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur mælt fyrir áætluninni á alþingi og hún er nú til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.

Fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar að bæjarfulltrúar hafi lýst yfir áhyggjum af samgönguáætlun í heild sinni eins og hún snúi að Vestmannaeyjum og sett m.a. fram gagnrýni á áætlaða skerðingu fjármagns til reksturs ferja og þar með reksturs Herjólfs sem og dýpkunarmála í Landeyjahöfn. Einnig gagnrýndu bæjarfulltrúar fyrirhugaða frestun á nýrri ekjubrú fyrir Herjólf um mörg ár og ýmsa þætti er snúa að höfninni, svo sem að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í rannsóknir á stórskipakanti, framkvæmdum við Básaskersbryggju verði frestað, frestun framlaga til nýs lóðsbáts og að lagt sé til að framlag ríkisins til hafnarbótasjóðs verði skert verulega.

Bæjarfulltrúar gerðu einnig sérstaka athugasemd við það að Herjólfur væri í áætluninni skilgreindur sem almenningssamgöngur sem að þeirra mati getur engan veginn talist ásættanlegt enda sé um þjóðveg að ræða.

Misræmi

Bæjarráð Vestmannaeyja hafði áður fjallað um málið á sömu nótum en með fundargerð bæjarráðs fylgir minnisblað frá Írísi bæjarstjóra sem tekið var saman til undirbúnings fyrir áðurnefndan fund með þingmönnum Suðurkjördæmis.

Í minnisblaðinu segir meðal annars að fyrirhuguð skerðing framlaga ríkisins til reksturs ferja úr 1,7 milljarði króna árlega í 1,4 milljarða króna, á ári, á tímabilinu 2026–2030 sé óásættanleg; slíkt bitni á þjónustustigi Herjólfs, og er þá vísað til svara Vegagerðarinnar við beiðni bæjarins um framlengingu samnings um rekstur ferjunnar en eins og áður segir vill stofnunin endurskoða samninginn með tilliti til fyrirhugaðra skerðinga.

Fram kemur einnig að misræmi sé milli samgönguáætlunar og fjárlaga varðandi fjármagn til dýpkunar Landeyjahafnar sem sé í áætluninni 600 milljónir króna á ári en í fjárlögum þessa árs 350 milljónir. Raunþörf sé hins vegar nær 1 milljarði króna til að uppfylla kröfur um opnunardaga og þjónustustig.

Er einnig gerð athugasemd við að núverandi útboð vegna dýpkunar í Landeyjahöfn geri ekki ríkari kröfur um vægi afkasta. Skilmálar séu of þröngir og hamli þátttöku erlendra aðila, þrátt fyrir öfluga tæknilega getu af því að fjármagnið vegi svo þungt í mati tilboða. Fjármagn til straummælinga og áframhaldandi vinna við endurbætur hafnarinnar vanti sömuleiðis í þessa samgönguáætlun. Gerir bæjarstjórnin einnig athugasemd við frestun á nýrri ekjubrú Herjólfs til 2029 þrátt fyrir forgangsmat Vegagerðarinnar og segir þá ráðstöfun óskiljanlega með tilliti til öryggis, aðgengis og viðhaldskostnaðar.

Áhrif

Segir í minnisblaðinu að gangi samgönguáætlun óbreytt eftir, með skerðingu á framlagi ríkisins til siglinga Herjólfs og dýpkunar Landeyjahafnar, muni það meðal annars leiða til fækkunar ferða Herjólfs og aukinna tafa og útgjalda fyrir íbúa og fyrirtæki í bænum. Minni framlög til dýpkunar og frestun á nýrri ekjubrú muni síður tryggja aðgengi við erfiðar aðstæður og loks er minnt á að ríkisstjórnin hafi boðað að hækkun veiðigjalda ætti að styðja við innviða- og samgönguuppbyggingu á svæðum sem gjöldin leggist þyngst á.

Í sameiginlegri bókun allra fulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja kom fram að bæjarstjórnin taki undir áhyggjur bæjarráðs af samgönguáætlun sem óbreytt muni þýða skerðingar á framlögum og seinkun framkvæmda sem komi niður á Vestmannaeyingum, meðal annars með skertri þjónustu.

Bæjarstjórnin skorar á ráðherra og þingmenn að tryggja það að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem komið hafi verið á framfæri og verði áfram fylgt eftir.

Á bæjarstjórnarfundinum var einnig ræddur fundur bæjarráðs með Vegagerðinni vegna framlengingar á samningi um rekstur Herjólfs en það er opinbert hlutafélag, sem samnefnt er ferjunni, sem hefur séð um reksturinn á grundvelli samningsins við Vegagerðina. Vestmannaeyjabær hafði óskað eftir framlengingu á samningnum í samræmi við 9. grein hans. Segir í fundargerð bæjarstjórnar að Vegagerðin telji sig ekki geta orðið við því að framlengja óbreyttan samning og hafi óskað eftir því að hann verði tekinn upp og yfirfarinn. Bæjarstjórn þurfi að skipta samninganefnd fyrir hönd sveitarfélagsins til þess að fara í þessa yfirferð með Vegagerðinni.

Með bréfi hafði Írís Róbertsdóttir óskað eftir að samningurinn yrði framlengdur til ársloka 2028. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar svaraði bréfinu hins vegar með ósk um endurskoðun á samningnum með vísan til breyttra forsenda. Segir Bergþóra að þessar breyttu forsendur séu fjárheimildir til almenningssamgangna í fjárlögum þessa árs og fyrirliggjandi skerðingar í Samgönguáætlun. Leita þurfi þeiða til að hagræða í rekstri ferjunnar svo að útgjöld Vegagerðarinnar vegna reksturs Herjólfs rúmist innan fjárheimilda stofnunarinnar.

Skipun saminganefndar bæjarins var samþykkt á fundi bæjarstjórnar en í henni sitja stjórnarformaður og forstjóri Herjólfs ohf. auk eins annars stjórnarmanns. Í sameiginlegri bókun allra bæjarfulltrúa er lögð rík áhersla á að óbreyttu þjónustustigi Herjólfs verði haldið.

Hvort það mun takast þrátt fyrir að niðurskurður á framlögum ríkisins vofi yfir á hins vegar eftir að koma í ljós.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bjarni Ben nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Bjarni Ben nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Fréttir
Í gær

Allt á suðupunkti í Minnesota: Mótmælendur sátu fyrir ICE-liðum fyrir utan hótel í gærkvöldi

Allt á suðupunkti í Minnesota: Mótmælendur sátu fyrir ICE-liðum fyrir utan hótel í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Kona í Hafnarfirði krefst skilnaðar en eiginmaðurinn finnst ekki

Kona í Hafnarfirði krefst skilnaðar en eiginmaðurinn finnst ekki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Biðu endanlegan ósigur fyrir ríkislögreglustjóra

Biðu endanlegan ósigur fyrir ríkislögreglustjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Pétur lagði Heiðu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hundaeigandi vísar hörðum ásökunum í garð hundsins hans á bug – Sveitarstjórinn bannaði hundahaldið án tilskilinnar heimildar

Hundaeigandi vísar hörðum ásökunum í garð hundsins hans á bug – Sveitarstjórinn bannaði hundahaldið án tilskilinnar heimildar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir RÚV hafa tekið íslenska sjónvarpsþáttaröð úr birtingu og muni ekki birta hana aftur fyrr en að uppfylltum skilyrðum

Segir RÚV hafa tekið íslenska sjónvarpsþáttaröð úr birtingu og muni ekki birta hana aftur fyrr en að uppfylltum skilyrðum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Spyr hvort stjórnvöld séu reiðubúin að spyrja þjóðina um verðtrygginguna

Spyr hvort stjórnvöld séu reiðubúin að spyrja þjóðina um verðtrygginguna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bílastæðastríð á Grensásvegi – „Því miður höfum við því ekki annan kost en að ráðast í lögfræðilegar aðgerðir“

Bílastæðastríð á Grensásvegi – „Því miður höfum við því ekki annan kost en að ráðast í lögfræðilegar aðgerðir“