Í hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi greinir kona frá því að eiginmaður hennar hafi sótt dóttur þeirra á Keflavíkurflugvöll. Reyndist það dýrt spaug þar sem reikningur að upphæð 29 þúsund krónur kom í heimabankann.
„Við vorum að borga 29 þúsund fyrir að sækja stelpuna okkar á Keflavíkurflugvöll. Maðurinn minn beið eftir henni við innganginn. Komumst að því að þú borgar 500 krónur mínútuna fyrir að stoppa þar. Hann fór aldrei út úr bílnum.“
Ekki tók betra við í höfuðborginni því þegar hjónin fóru á Landspítalann gleymdu þau að skrá bílinn úr stæðinu og þar kom reikningur upp á 30 þúsund krónur fyrir 30 mínútna stopp.
„Jæja núna fórum við með strákinn á Eiríksgötu í röntgen í gær. Tók 30 mín. Vorum að fatta að það gleymdist að skrá bílinn úr stæðinu. Það kostaði okkur 30 þúsund.
Hvaða sturlun er komin í gang í þessum bílastæðamálum?? Er engin að stoppa þetta?
Ps. það virðist sem öppin núllstilli sig við update. Við vorum með allskonar reminder-stillingar og sjálfkrafa útskráningar áður.“
Fjölmargar athugasemdir eru við færslu konunnar þar sem margir segja að ný gjaldtaka við brottfararrennuna hafi verið rækilega auglýst og skilti séu sem benda á gjaldtökuna, og einnig hafi mikið verið fjallað um gjaldtökuna á samfélagsmiðlum og í fréttum.
„Gjaldið var sett á akkúrat út af því sem maðurinn þinn gerði, hann hefur setið þar í 20 mín ef þið þurftuð að borga 500 kr fyrir mínútuna. Fyrstu 15 mínúturnar eru fríar ef þú sækir á komustæðinu. Þetta kemur líka allt fram áður en þú keyrir inná stæðin.“
Segir færsluhafi að maðurinn hennar hefði alltaf fært sig ef vantaði pláss fyrir aðra bíla í rennunni.
„Það er ástæða fyrir þessu á Keflavíkurflugvelli fólk á ekki að hanga þarna fyrir öðrum. Þetta eru 60 mín gott á þig,“ segir karlmaður. Konan svarar honum einfaldlega með: „Það var reyndar engin umferð og hann hefði alltaf fært sig um leið. En ég sé að þetta er þér greinilega hjartans mál og við augljóslega fengið okkar maklegu málagjöld.“
Á vef Keflavíkurflugvallar kemur fram að fyrstu fimm mínúturnar séu fríar, hverja mínútu eftir það er gjaldið 500 krónur, sólarhringurinn er 50.000 krónur. Ef ekki er greitt innan 48 klukkustunda þá er rukkað 1.490 krónur þjónustugjald.
Einnig kemur fram að gjaldtaka hefst eftir að fríu fimm mínúturnar eru liðnar og gjaldtaka hefst við tíma innaksturs, greitt er fyrir hverja hafna klukkustund frá því að ekið er inn á bílastæðið.
Miðað við það hefur maðurinn stoppað 1 klst. Í stæðinu. 5 mínútur fríar, 55 mínútur á 500 krónur hver og 1.490 krónur þjónustugjald.
Á mynd hér fyrir neðan má sjá hvar gjaldtaka byrjar.
Margir sem fengið hafa rukkun eftir að gjaldtakan hófst segjast alls ekki hafa stöðvað í stæði lengur en fimm mínútur. Gjaldtakan hefst hins vegar aðeins fyrr eins og ein kona bendir á:
„Ég lagði þarna um daginn og nánast henti farþegunum út . Vissi ekki af því að ég þurfti að borga á staðnum ef ég færi fram yfir tímann. Sá ekki þessi skilti. En ég stoppaði engar 5 mínútur en þeir byrja að telja framar og þá er mynd tekin . Ég lenti í röð og bar allt í allt 6 mín og 37 sek. Þetta átti að kosta mig tæpan 2000 kall og þar var það innheimtugjaldið. Ég var ekki sátt og hringdi í þá og spurði hvort ég ætti að henda farþegum út á ferð. Þeir skoðuðu upptökuna og drógu þetta til baka. Þegar það er röð þá gætir þú þurft að bíða áður en þú kemur að stæðunum svo það væri gott ef það væri sýnilegra, ég sá ekki þessa myndavél , þegar tekin er mynd þá veistu hvernær byrjar að telja. Mér finnst þetta samt ferlega dýrt en skil líka að það er ekki hægt að blokkera stæðin og í raun er þetta ömurlegt þegar fólk á erfitt með gang eða i hjólastól sem þarf aðstoð því þetta mun helst bitna á þeim.“
Margir segja allt vel merkt og furða sig á að fólk geti komið að brottfararrennunni án þess að sjá fleiri en eitt skilti sem bendir á gjaldskylduna.
„Það stendur skýrum stöfum brottfaramegin að það séu 5 mín fríar og svo 500kr hver mín eftir það enda er þetta ekki pick up stæði. Það er aftur á móti P2 sem er komumegin og 30 mín fríar þar.“
„Ég skil alls ekki þessar kvartanir,bý útá landi en kem oft til Reykjavíkur og legg í stæði ,skrái mig inn og út og aldrei vandamál.“
Netverjar eru hins vegar á því að konan eigi að kvarta við bæði Neytendasamtökin og þann sem sér um rukkun á bílastæðunum við Landspítalann vegna 30 þúsund króna reikningsins. Green parking ehf. sér um rekstur þeirra bílastæða fyrir hönd Landspítalans. Öll stæðin, 1200 talsins, gjaldskyld virka daga frá kl. 8-16. Greiðsluvélar eru innandyra á átta stöðum í húsum Landspítala og Háskóla Íslands. Einnig er hægt að greiða með bílastæðaöppum EasyPark og Parka.
Bílastæði kostar 220 krónur á klst. Og ef greitt er með appi leggst færslugjald upp á 86 krónur ofan á greiðslu. Ef ekki er greitt þá er vangreiðslugjald upp á 4.500 kr. Rukkað auk færslugjalds vegna rafræns reiknings upp á 250 kr.
L-ið utan um lóð Landspítala, það er Eiríksgata frá Þorfinnsgata upp að Barónsstíg og niður Barónsstíg að Laufásvegi er P2-stæði. Þar kostar 230 krónur á klst. að leggja bílnum. Gjaldskylda er frá kl. 9-21 virka daga og kl. 10-21 laugardaga og sunnudaga.
Ómögulegt er að átta sig á af hverju konan er rukkuð svo háa upphæð fyrir að leggja þó hún hafi gleymt að skrá bílinn úr stæðinu í sólarhring.
Neytendasamtökin telja vangreiðslugjöldin ólögmæt og hafa hvatt bíleigendur sem greitt hafa slík vangreiðslugjöld til að setja sig í samband við fyrirtækin sem þau innheimta og óska eftir endurgreiðslum.
Neytendastofa gaf í júní í sumar út fjóra úrskurði um að að fyrirtækin EasyPark, Green Parking ehf., Isavia Innanlandsflugvellir og Parka Lausnir ehf., hafi brotið gegn lögum um góða viðskiptahætti sem og reglum um verðmerkingar með því að veita ekki upplýsingar um öll gjöld tengd bílastæðum. Var fyrirtækjunum gert að greiða stjórnvaldssektir.
Sjá einnig: Segja vangreiðslugjöld ólögmæt – Kalla eftir skýrum reglum til að koma böndum á bílastæðabraskið