Rush, Buzz, Pops og margar fleiri tegundir alkílnítrats eða amílnítrats urðu skyndilega vinsæl partílyf á tíunda áratug síðustu aldar. Regnhlífaheitið yfir þetta er Poppers, efni skyld víagra sem víkka æðarnar og lækka blóðþrýstinginn. Þau gefa örskammt af vellíðan og slökun en geta verið stórhættuleg, bæði til skamms og lengri tíma.
Á tíunda áratugnum var ekki óalgengt að einhver kæmi með litla flösku af Poppers í partí. Þetta var í litríkum umbúðum, leit ekki ósvipað út og umbúðir veipvökva. Það mátti alls ekki drekka þetta heldur átti að þefa af þessu. Áhrifin komu strax, viðkomandi varð eldrauður í framan og leið eins og hausinn væri að springa. Svo voru áhrifin horfin jafn hratt og þau komu. Allt var þetta svolítið kjánalegt.
„Hvar var þetta keypt?“ spurði einhver. „Á kynlífsklúbbi í Amsterdam“ var svarið.
En Poppers æðið rann sitt skeið á álíka stuttum tíma og víman varði. En hvað í ósköpunum var þetta Poppers?
Amílnítrat var uppgötvað um miðja nítjándu öld af frönskum efnafræðingi, Antoine Jerome Balard að nafni. Seinna á öldinni hóf skoskur læknir, Thomas Lauder Brunton að nafni, að nota efnið til að meðhöndla hjartaverki og kransæðasjúkdóm. Það er efnið víkkaði út æðarnar þannig að blóðið átti auðveldara með að renna um þær og blóðþrýstingurinn lækkaði.
Efnið var upphaflega gefið í formi lítilla perla sem voru kreistar á milli fingranna þannig að þær „poppuðu“. Þaðan er heitið Poppers upprunalega komið.
Seinna komu fleiri efni svo sem ísóbútíl nítrat, bútíl nítrat og própíl nítrat fram á sjónarsviðið sem höfðu sömu eða svipaða virkni.
Framan af tuttugustu öldinni var Poppers ávísað til hjartasjúklinga og er víða gert enn þá. En fyrstu fregnir af misnotkun efnisins bárust um miðjan sjöunda áratuginn og á áttunda áratugnum var efnið orðið vinsælt partílyf hjá samkynhneigðum karlmönnum. Á börum og í kynlífsklúbbum.
Ástæðan er sú að efnið veitir ekki aðeins skammvinna vímu og doða heldur slaknar einnig á helstu hringvöðvunum, svo sem í hálsi og endaþarmi. Því var í auknum mæli farið að nota Poppers sem kynlífshjálpartæki eða „kynlífsvímuefni“.
Um þetta leyti var Poppers komið í litlar flöskur eða ambúlur sem voru brotnar inni í klúti og andað að sér. Rétt eins og perlurnar þá poppuðu ambúlurnar en vökvinn sem var seldur í flöskum fékk sama heiti.
Það var svo á níunda áratugnum sem fór að bera á vinsældum Poppers hjá gagnkynhneigðum og þá einkum í tengslum við partí. Hápunktur vinsældanna var seint á tíunda áratugnum og jafnvel aðeins fram yfir aldramót, einkum í tengslum við reif og teknó senuna.
En er þetta hættulaust? Svo aldeilis ekki. Í þættinum Isiah Factor Uncensored á sjónvarpsstöðinni Fox var fjallað um Poppers árið 2024. Þar var meðal annars rætt við lækninn Marcel Thompson sem lýsti hættunni sem notendum stafar af þessu.
„Þetta er mikill æðavíkkari. Sem virkar eins og víagra sem menn nota einnig sem æðavíkkara. Það sem gerist er að blóðþrýstingurinn lækkar skarpt og hluti af vímunni tengist því. Þú færð svima og verður örlítið ringlaður,“ sagði Thompson. „Allt sem breytir huganum á þennan hátt dregur úr hömlum hjá okkur. Þú hugsar ekki um að passa upp á þig, til að mynda þegar kemur að kynsjúkdómum.“
Þá bendir hann á að áhrifin séu mjög skammvinn og notandinn byggir upp þol. Það er að ef notað er mikið af efninu þarf hann sífellt meira til þess að fá áhrifin.
„Þetta hefur langtímaáhrif. Stundum getur þetta valdið skaða á augunum eða óafturkræfum heilaskaða. Þá skaðar þetta öndunina líka,“ sagði Thompson.
Eins og áður er sagt þá er efnið ætlað til innöndunar en það er af því að efnið er mjög skaðlegt í beinni snertingu við líkamann. Til að mynda ef það kemst í snertingu við húð getur hún byrjað að flagna fljótt af. Ef notandinn innbyrðir efnið þarf að leita strax á spítala því efnið getur valdið öndunarerfiðleikum, blóðeitrun, dái eða jafn vel dauða.
Þá bera að nefna að efnin eru mjög sterk og eru meðal annars notuð til að hreinsa leður og leysa upp naglalakk.
En er þetta löglegt? Löggjöf varðandi Poppers er mjög mismunandi á milli landa og hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Oft hefur verið reynt að banna Poppers en stjórnvöld gerð afturreka með það því að í raun er Poppers ekki eins og flest eiturlyf.
Til að mynda mistókst tilraun til þess að gera Poppers ólöglegt í Bretlandi árið 2016 þar sem efnið hefur ekki bein áhrif á miðtaugakerfið og þar af leiðandi getur ekki fallið undir breska fíkniefnalöggjöf samkvæmt skilgreiningu.
Víða í Evrópu, svo sem í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss, Austurríki og Svíþjóð eru Poppers lögleg efni, svo lengi sem seljandinn hafi leyfi. En sums staðar, svo sem á Spáni og í Bandaríkjunum, er ekki leyft að selja efnin til neyslu.
Þá getur verið mismunandi hvaða tegund sé bönnuð, svo sem bútíl nítrat eða ísóprópíl nítrat. Þá reyna seljendur oft að komast hjá bönnum með því að selja efnin sem „loftfrískara“ eða „segulbandshreinsi“ þegar langflestir kaupa þau til neyslu.
Á Íslandi er efnið ekki á lista yfir ávana og fíkniefni í lögum. En afar lítið ef nokkuð hefur farið fyrir umræðu um Poppers á Íslandi.
Þá hefur lögleiðing Poppers verið talin réttindamál fyrir samkynhneigða menn sums staðar. Meðal annars í Kanada, þar sem samkynhneigðir hafa kallað eftir því að Poppers banni þar í landi verði hnekkt en bannið var sett á árið 2013.
„Skaðinn af Poppers hefur verið ýktur og jákvæð áhrif þeirra eru raunveruleg,“ sagði Len Tooley, yfirmaður hjá samtökunum CBRC. „Það er mjög lítil hætta á fíkn því að efnið hefur ekki áhrif á miðtaugakerfið. Þetta veitir einnig leið til þess að njóta endaþarmsmaka með því að minnka sársauka og meiðsli.“
Samkvæmt kanadískum rannsóknum hefur bannið í Kanada ekki virkað. Um 30 prósent samkynhneigðra karla þar í landi notuðu Poppers fyrir bannið og hlutfallið er svipað í dag.