Er þar byggt á gögnum frá Samtökum skattgreiðenda sem birta fjölda greiddra mánaða starfslauna hjá hverjum og einum höfundi, heildarritlaun yfir allt tímabilið, fjölda bóka og blaðsíðna og starfslaun á hverja útgefna blaðsíðu.
Sitt sýndist fólki um þessa umfjöllun og fóru fjörugar umræður fram um hana eins og fjallað var um á vef DV í gær. Margrét og Stefán Einar tókust á um þetta í Bítinu í morgun þar sem litlu munaði að upp úr sauð.
Sjá einnig: Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða
„Það þykir svo sérstakt að við skulum fá laun. Það gerist ekki á hverjum degi að rithöfundar fái eitthvað borgað,“ sagði Margrét um umræðuna sem fer reglulega af stað í kringum úthlutun listamannalaun.
Þegar Stefán var spurður að því hvort þjóðin skiptist í tvær fylkingar varðandi listamannalaun sagðist hann ekki vera svo viss um það.
„Ég átta mig ekki á því hvernig víglínan liggur í því. Ég blandast einfaldlega inn í þessa umræðu algjörlega að ósekju því að við fjölluðum einfaldlega um þessa samantekt Samtaka skattgreiðenda og birtum töflu sem samtökin höfðu sett saman yfir þá 10 rithöfunda sem hafa fengið mest úthlutað úr þessum góða sjóði á síðustu 25 árum og það er ýmislegt fréttnæmt á þeim lista að mínu mati og margra annarra, en það ærði óstöðugan og reyndar mjög marga óstöðuga að við skyldum leyfa okkur að birta þessar upplýsingar.“
Margrét tók fram í umræðunni að hún fagnaði því að Morgunblaðið hefði fjallað um málið.
„Þetta er mjög gott fyrir okkur í Rithöfundasambandinu að fá þetta til umfjöllunar núna þegar fjárlögin eru í þinginu. Ég fagna þessari umræðu og tíminn gæti ekki verið betri fyrir okkur. Það sem blasir við er að þetta eru fáránlega lág laun. Þetta eru ekki einu sinni laun, þetta eru verktakagreiðslur sem þýðir að fólk er að fá svona 60-70% af þessu,“ sagði hún.
Stefán Einar tók undir að það væri enginn ofalinn á launum af þessu tagi en hins vegar væri það ljóst að rithöfundar og listamenn væru einnig með aðrar tekjur. „Ef ég skil kerfið rétt er þetta hugsað til þess að létta undir, brúa bil og gera mönnum kleift að sinna listsköpun yfir tiltekinn tíma þar til tekjur myndast,“ bætti hann við en þá stoppaði Margrét hann af.
„Það er algjörlega rangur misskilningur hjá þér. Þetta kerfið er sett á 1992 og það verður til þess að það verður til þess að hópur fólks – og ég veit mest um rithöfunda og hjá þeim hefur þetta þau áhrif að hér varð til stétt atvinnurithöfunda sem hafði ekki verið áður,“ sagði hún og bætti við að Halldór Laxness hefði verið sá eini á sínum tíma sem var atvinnurithöfundur.
„Það sem gerðist var að íslenskir rithöfundar, það varð til ótrúleg sprengja og það er það sem gerist þegar kemur fjármagn inn í svona greinar, þetta verður svo dýnamískt og við erum með úttektir og skýrslur sem sýna það að hver einasta króna af opinberum stuðningi sem fer í menningu og skapandi greinar kemur þrefalt til baka.
Stefán Einar: „En bíddu, í hverju fólst misskilningurinn? Þú sakar mig um rangan misskilning sem er nú reyndar fyrirbæri sem er ekki til.“
Margrét: „Þegar þetta kerfi kom á þá er það bara alveg skýrt af framsöguræðum og gögnum að þarna átti að skapa fólki tíma og svigrúm, ekki bara til að koma sér af stað, heldur til þess að starfa við þessar listgreinar.“
Stefán Einar: „Þetta er bara rangt vegna þess að það er verið að úthluta þarna þremur mánuðum, sex mánuðum, níu mánuðum. Ef að hugmyndin væri sú að búa til kerfi sem héldi fólki algjörlega uppi gagnvart sinni listsköpun þá myndu menn bara úthluta tólf mánaða styrkjum en það er ekki málið.“
Margrét: „Í fyrstu lögunum, þar er heimild til þess að úthluta allt að þremur árum…“
Stefán Einar: „Ég er að tala um kerfið eins og það er núna, ég er ekki að tala um kerfið eins og það var fyrir 20 árum…“
Margrét: „Ég veit það, það sem gerðist svo er að það er svo mikil ásókn í þetta. Það eru um 20% árangurshlutfall, það eru allt of fáir mánuðir í kerfinu..“
Stefán Einar: „Það eru 1.720 mánuðir, þetta eru 143 ársverk.“
Margrét sagði það einnig útbreiddan misskilning að lokaafurð rithöfunda þyrfti að vera bók. „Fólk er að fá listamannalaun til að fá leikrit, þýða bækur, skrifa handrit, sjónvarpsþætti, kvikmyndir þannig að það er ekki hægt að horfa á blaðsíðufjöldann í því,“ sagði hún.
Stefán sagði svo síðar í umræðunni að það hljóti að vera misbrestur á því hvernig úthlutunum er stýrt. „Dæmið sem við tökum í fréttinni okkar á laugardag er af Andra Snæ Magnasyni sem hefur fengið um 140 milljónir – ef ég man rétt – á síðustu 25 árum. Og hann hefur á þeim tíma skilað af sér 5 bókum.“
Margrét: „Það eru allskonar önnur verk sem þarna liggja líka að baki en mér finnst…“
Stefán Einar: „Ef ég má klára…“
Margrét: „Helst ekki en ég skal leyfa þér það að þessu sinni…“
Stefán Einar: „Gott að við fáum leyfi til þess. En það sem ég hef gert og reyndar gert tilraun til þess áður að fá í hendur þessar framvinduskýrslur til að átta sig á því hvort stjórnir þessara sjóða séu að fylgja því eftir að menn skili af sér því sem þeir heita. Staðreyndin er sú að þessir sjóðir eru verkefnatengdir, þú kemur til stjórnar og segir: „Ég er að vinna að þessu verkefni, til þess þarf ég svona mikinn tíma og svo ætla ég að skila þessu af mér.“ Ég verð að segja fyrir mitt leyti, ég er að horfa á ákveðna listamenn sem skora hátt á þessum listum og þeir virðast hafa alveg gríðarlega mikinn tíma til að standa í einhverju allt öðru heldur en einmitt því sem þeir segjast vera að gera…“
Margrét: „Ég verð að fá að grípa þennan bolta…“
Stefán Einar: „Bíddu aðeins. Dæmið af Andra Snæ Magnasyni finnst mér vera mjög áhugavert vegna þess að hann hefur verið mjög aktífur í baráttunni gegn því að hér sé virkjað, að hér séu lífsgæði aukin með því að beisla raforkuna í landinu. Getur verið – og þetta er bara spurning og tilraun til að veita þessum sjóði aðhald – að það sé verið að úthluta fjármunum til fólks til þess að það geti sinnt einhverju öðru, pólitískum aktívisma af ýmsu tagi…“
Margrét sagði þetta fáránlegt og það skipti miklu máli að „róterandi“ nefndir sjái um úthlutanirnar eins og staðan er í dag. Hún sagði svo að það sem gerðist eftir 1992 þegar kerfinu var komið á var að íslenskir rithöfundar voru í auknum mæli þýddir í útlöndum.
Stefán Einar: „Þú ert bara að tala um allt annað mál. Þú ert bara að snúa umræðunni norður og niður eða út og suður, ég veit ekki hvert þú ert að fara með þetta. Við verðum að geta átt efnislegar umræður um úthlutanirnar en ekki þýðingar erlendis.“
Margrét sagði að það væri kerfinu að þakka að höfundar sem hafa aldrei fengið úthlutun hafi verið þýddir í útlöndum. „Það er algjörlega þessu kerfi að þakka,“ sagði hún.
Margrét og Stefán Einar héldu svo áfram að rökræða og skapaði Margrét sér ekki miklar vinsældir í settinu þegar hún líkti úthlutun listamannalauna við fjölmiðlastyrki. „Þið eruð ekkert minni afætur á skattfé en rithöfundar…,“ sagði hún meðal annars.
Stefán Einar: „Eina manneskjan sem hefur notað orðið afæta í þessari umræðu ert þú, svo því sé haldið til haga.“
Margrét: „Þú ert að gefa það í skyn að höfundar og listamenn séu að ota sínum tota…
Stefán Einar: „Nei, ég er að segja…“
Margrét: „Það er ekki þannig…“
Heimir Karlsson greip inn í og sagði Margréti að leyfa Stefáni að klára.
Stefán Einar: „Ef afköstin í skrifunum væru eins og hér í þessu vélbyssutali hér þá væri það auðvitað gott. Það sem er verið að benda á er að það eru ákveðnir höfundar sem fá alltaf úthlutun upp á 12 mánuði.“
Margrét: „Ekki alltaf, alls ekki.“
Stefán Einar: „Það eru aðrir höfundar sem aldrei komast að og kvarta undan því að þeir hafa aldrei fengið úthlutun…“
Margrét: „Þetta er ekki happdrætti. Fólk leggur inn eins og þú lýstir áðan lýsingu á ákveðnum verkefnum…“
Stefán Einar: Þessi viðbrögð hér og þessi geðshræring sem fólk virðist komast í þegar reynt er að ræða um þetta efnislega og við verðum vitni að hérna…“
Margrét: Vitni að hérna? Heyrðu, hættu nú alveg elsku vinur. Við erum bara í sama báti, styrkþegar frá ríkinu…“
Stefán Einar hélt áfram að tala um meinta geðshræringu í umræðunni sem Margrét sagði að væri ódýrt bragð. Stefán sagði að ýmis yfirgengileg ummæli hefðu fallið í umræðunni um hann og Morgunblaðið – fyrir það eitt að eiga samtalið um þetta kerfi.
Margrét reyndi ítrekað að stoppa Stefán af og skaut inn í að ummæli hans væru út í hött. Þá fékk Stefán Einar nóg sem og þáttastjórnandinn Heimir. „Margrét, slaka þú nú á,“ sagði Stefán og skaut Heimir inn í að hún yrði að leyfa honum að tala.
„Í svona þáttum verður einn að tala í einu,“ sagði Stefán Einar og sagði að Morgunblaðið myndi halda áfram að fjalla um málið. Hann sagði svo að lokum að það væri öllum misboðið að sjá dæmi um höfunda sem hafa hafa skilið af sér 5 bókum og fengið tugi milljóna í laun.
Margrét: Þetta er ekki bara bækur. Ég veit ekki hvað ég er búin að leiðrétta þetta oft…“
Stefán Einar: „Leyfðu mér bara að klára svo leiðréttirðu bara þegar ég er búinn að tala. Þetta virkar þannig hér.“
Margrét: „Ahh, nei, þetta virkar ekki þannig. Þú ert ekki að stjórna þessum þætti, Stefán Einar.“
Bæði Stefán og Margrét fengu svo tækifæri til að segja sín lokaorð án þess að gripið væri fram, en hlusta má á alla umræðuna í spilaranum hér að neðan.