fbpx
Mánudagur 29.september 2025
Fréttir

Sænski herinn grautfúll – Löngu búinn að biðja stjórnvöld um auknar drónavarnir en engin svör fengið

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. september 2025 21:30

Sænskir hermenn að störfum. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum hafa nágrannaríki Íslands á Norðurlöndum þurft undanfarna viku að eiga við ítrekuð flug dróna frá aðilum sem enn eru óþekktir en grunurinn hefur beinst að Rússum. Drónarnir hafa meðal annars truflað starfsemi flugvalla. Töluverð óánægja er innan sænska hersins sem óskaði eftir því í sumar við stjórnvöld að hluti fjármagns í aukafjárlögum, sem ætlað var til varnarmála, yrði sett í að stórefla varnir gegn drónum en hins vegar bólar enn ekkert á svörum.

Aftonbladet greinir frá þessu. Í aukafjárlögum sem samþykkt voru á þingi í júní síðastliðnum voru útgjöld til varnarmála hækkuð um 25 milljarða sænskra króna ( um 320 milljarða íslenskra króna). Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að þetta væri meðal annars ætlað til þess að auðveldara yrði fyrir stjórnvöld að taka ákvarðanir um varnir Svíþjóðar með skjótum hætti. Eftir að þessi auknu útgjöld voru samþykkt óskaði herinn eftir því að það fyrsta sem yrði gert væri að festa kaup á nýjum varnarkerfum til að verjast drónum. Lagði herinn áherslu á að þetta yrði gert sem allra fyrst.

Enn engin svör

Beiðnin var síðan ítrekuð í júlí með enn ítarlegri rökstuðningi en enn hafa stjórnvöld ekki svarað beiðninni.

Æðstu yfirmenn sænska hersins munu hafa reynt að fá svör frá varnarmálaráðuneytinu en án árangurs.

Herinn segir að til að fá varnarkerfin á þessu ári verði að leggja fram pöntun í seinasta lagi þann 30. september, þ.e.a.s. á morgun.

Ulf Kristersson forsætisráðherra og Pål Jonson varnarmálaráðherra hafa báðir áður sagt að það þurfi að hafa hraðar hendur við að styrkja varnir Svíþjóðar og efla herinn. Varnarmálaráðherran segir í svari við fyrirspurn Aftonbladet að beiðni hersins um að ný varnarkerfi gegn drónum yrðu keypt ekki hafa verið fullkláraða. Stjórnvöld séu sammála hernum um að kaupa þurfi ný loftvarnarkerfi og varnarkerfi sem beinist að drónum. Ráðuneytið eigi í samskiptum við herinn um þetta og stefnt sé að því að kaupa fljótlega ný varnarkerfi til að verjast drónum.

Hjálpa Dönum

Danir hafa þó orðið töluvert meira fyrir umferð hinna óþekktu dróna en Svíar. Kristersson forsætisráðherra sakar Rússa um að standa á bak við þetta og segir svona nokkuð vel geta gerst í Svíþjóð eins og Danmörku.

Ákveðið hefur verið að veita Dönum afnot af þeim dróna-varnarkerfum sem Svíar hafa nú þegar yfir að ráða til að efla öryggisgæslu fyrir leiðtogafund Evrópusambandsríkjanna sem fram fer í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn en þar verður rætt um sameiginlegar varnir ríkjanna og stuðning við Úkraínu.

Ljóst er að þau innkaup sem sænski herinn vill gera til efla frekar viðbúnað gegn drónum eru tölverð. Herinn hefur heimild til að eyða allt að 700 milljónum sænskra króna (um 9 milljörðum íslenskra króna) í einstakar pantanir en þær sem fara yfir þessa upphæð þarf að samþykkja í ríkisstjórn. Fáist það samþykki leggur herinn síðan inn pöntun hjá sérstakri stofnun sem sér um innkaupin. Munu yfirmenn hersins vera óánægðir með hversu hægvirkt þetta kerfi sé í ljósi þess að á víðsjárverðum tímum eins og nú eru uppi þurfi að hafa hraðar hendur við að styrkja og efla varnir Svíþjóðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Play gefur út leiðbeiningar til farþega nú þegar fyrirtækið er farið á hausinn

Play gefur út leiðbeiningar til farþega nú þegar fyrirtækið er farið á hausinn
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Play hættir starfsemi og 400 manns missa vinnuna

Play hættir starfsemi og 400 manns missa vinnuna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hafði ekki erindi sem erfiði eftir óljósa tjónstilkynningu – „Einhver svartur fólksbíll“

Hafði ekki erindi sem erfiði eftir óljósa tjónstilkynningu – „Einhver svartur fólksbíll“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Halla segist ekki hafa öll svörin – „En ég veit að það skiptir máli að hlusta“

Halla segist ekki hafa öll svörin – „En ég veit að það skiptir máli að hlusta“