fbpx
Mánudagur 29.september 2025
Fréttir

Misjöfn viðbrögð við falli Play – „Sorglegt að svona fór“ – „Fuck my life“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. september 2025 12:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og gefur að skilja er þessa stundina mikið rætt á samfélagsmiðlum um fall flugfélagsins Play. Umræðan er ekki bara bundin við Íslendinga og sitt sýnist hverjum. Sumir syrgja það að íslenskum flugfélögum hafi fækkað og segja að gott hafi verið að fljúga með Play. Aðrir sem áttu bókað flug með félaginu lýsa yfir hryggð sinni en nokkuð er um að fólk bendi á að þessi niðurstaða hafi einfaldlega verið fyrirsjáanleg. Enn aðrir benda á að nú sé aðeins eitt flugfélag á Íslandi sem muni hækka verð en þó eru einhverjir sem segja örlög starfsfólks Play það sorglegasta í þessu öllu.

Sumir útlendingar sem voru búnir að bóka flug til Íslands áttu bersýnilega ekki von á þessu:

„Guð minn góður við völdum Play fyrir viku síðan fyrir Íslandsferðina okkar.“

„Bíddu, bíddu, bíddu. Ég var á leiðinni til Íslands eftir tvær vikur og búinn að bóka. En ég býst við að ég sé ekki að fara fet núna.“ Síðan bætir viðkomandi við engilsaxnesku orðatiltæki sem flestir lesendur ættu að skilja:

„Fuck my life.“

Viðkomandi er bent á að líklega sé hægt að fá endurgreiðslu ef flugið var greitt með kreditkorti eða fá endurgreitt úr ferðatryggingu. Hann svarar því hins vegar til að fyrir sér snúist þetta ekki um peningana heldur ferðina:

„Ég hlakkaði svo til að heimsækja þetta fallega land og aftengja. Ég þurfti á fríi að halda. Ég er viss um að ég get endurheimt megnið af peningunum en það er ekki það sem ég vil. Ég vil fljúga til Íslands.“

Bætir hinn afar vonsvikni og áður tilvonandi Íslandsvinur því við að hann hafi þegar fengið frí í vinnunni á þeim dögum sem Íslandsferðin átti að standa og sjái ekki fram á að finna nýtt flug sem passi við nákvæmlega sömu dagsetningar.

Svekkelsi

Fleiri útlendingar segjast hafa átt bókað flug með Play. Einn er nú staddur á Íslandi og átti bókað flug heim með Play á fimmtudaginn:

„Jæja, þessi ferð er orðin dýrari.“

Einn aðili var kominn á flugvöllinn í Keflavík í morgun þegar Play aflýsti fluginu sem hann átti bókað:

„Algjört kjaftæði og nú erum við að berjast við að bóka flug með öðru félagi og það fer ekki fyrr en á morgun svo að við þurfum líka að bóka hótel. Grrr.“

Betra en Icelandair

Sumir, bæði Íslendingar og útlendingar, sjá á eftir Play og segja að það hafi verið betra að fljúga með félaginu en Icelandair:

„Það var gott að fljúga með Play, sorglegt að svona fór.“

Annar sem tekur undir það bætir hins vegar við að reksturinn hafi augljóslega ekki verið sjálfbær og margir taka undir það og segja hafa verið augljóst að svona myndi fara.

Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur skrifar til að mynda:

„Fyrir ekki löngu síðan sögðu fulltrúar Play flugfélagsins frá gangi mála á Rotary-fundi. Ég spurði hvaða mistök Wow Play ætli ekki að endurtaka. „Að vaxa of hratt“ var svarið og það hitti í mark.“

„Forstjórar verða að þekkja muninn á alvöru vexti og skaðlegri þenslu. Alla aukningu þarf að skoða svona: Vöxtur uppfyllir ávöxtunarkröfu markaðarins, ásamt áhættuálagi greinarinnar, á það eigið fé sem aukningin bindur. Aukning sem nær þessu ekki er bara þensla.Áráttan um stærð á sér rætur í því að hún er svo sýnileg. Velta, fjöldi flugvéla og áfangastaða sést betur en afkoma. Fjölmiðlar ýta undir hégómaskapinn með umfjöllun sinni. Þetta vandamál hefur orðið mörgum forstjóranum að falli. Þetta var banamein Wow og nú Play.“

Auglýstu

Einn aðili bendir á að fyrir nokkrum dögum hafi Play verið að auglýsa tilboð:

„Keypti mér sem betur fer ekki miða. Hugsið ykkur að Play sé að auglýsa tilboð bara fyrir örfáum dögum sem fullt af fólki nýtir sér og forsvarsmenn vitandi að félagið væri að fara á hausinn!! Þetta var ekki skyndiákvörðun hjá forstjóra það er deginum ljósara. Kallast þetta ekki að ræna fólk um hábjartan dag?“

Fleiri færslur og athugasemdir má lesa víða á samfélagsmiðlum um að Play hafi augljóslega verið dauðadæmt og er þá vísað ekki síst í sögu annarra flugfélaga á Íslandi sem stofnuð hafa verið og ætlað að halda uppi virkri samkeppni við Icelandair. Ýmsir benda á að Icelandair muni líklega hækka verðin hjá sér og nú þegar hafa borist fregnir af því.

Hildur Eir Bolladóttir prestur á Akureyri segir hins vegar að allt það starfsfólk Play sem nú hefur misst vinnuna sé henni efst í huga:

„Fjögurhundruð manns missa vinnuna við gjaldþrot Play, það eru verstu tíðindin í þessum tíðindum og síðan auðvitað fákeppnin eða raunar engin á íslenskum flugmarkaði og í þriðja lagi er vont vesen að vera fastur í útlöndum og jafnvel dýrt en nokkuð sem hægt er að leysa. Ég hef akkúrat núna mestu samúðina með þeim sem eru að missa vinnuna því það er alvöru streituvaldur með tilheyrandi afkomuótta, söknuði og í einhverjum tilfellum depurð vegna breyttrar sjálfsmyndar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða

Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Magga Frikka þróar umhverfisvænar umbúðir og hlýtur alþjóðleg verðlaun

Magga Frikka þróar umhverfisvænar umbúðir og hlýtur alþjóðleg verðlaun