fbpx
Sunnudagur 28.september 2025
Fréttir

Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 28. september 2025 19:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Spursmála á mbl.is og blaðamaður á Morgunblaðinu, hikar ekki við að taka kröftuglega málstað fjölmiðilsins þegar honum þykir að honum vegið. Um helgina hefur hann átt í feikilega hvössum orðaskiptum við margt landsþekkt fólk í tengslum við umræðu um starfslaun rithöfunda.

Aðdragandinn er sá að Morgunblaðið birti frétt um þá rithöfunda sem hafa samanlagt borið mest úr býtum hvað varðar starfslaun síðustu 25 ár. Er þar byggt á gögnum frá Samtökum skattgreiðenda sem birta fjölda greiddra mánaða starfslauna hjá hverjum og einum höfundi, heildarritlaun yfir allt tímabilið, fjölda bóka og blaðsíðna og starfslaun á hverja útgefna blaðsíðu. Undirfyrirsögn fréttar Morgunblaðsins er: „Nokkrir listamenn svo að segja með áskrift að ritlaunum“.

Þetta verður rithöfundinum Sverri Norland tilefni til skrifa á Facebook-síðu sinni þar sem hann gagnrýnir Morgunblaðið fyrir neikvæða framsetningu og þykir það skjóta skökku við á sama tíma og Morgunblaðið hleypir af stokkunum nýjum menningarvef. Sverrir segir meðal annars (en lesa má færsluna alla með því að smella á tengilinn neðst í fréttinni):

„Þarna eru sem sagt tíndir til tíu af þekktustu og öflugustu rithöfundum þjóðarinnar í seinni tíð og talað um að þau séu í „áskrift að ritlaunum“ eins og það sé einhvers konar glæpur. Allt er þetta fólk sem blómstrað hefur við skrifborðið í krafti þess að ritlaunin (sem ekki eru nú há) hafa tryggt þeim örlítinn stöðugleika í lífinu og gert þeim kleift að rita sínar fínu bækur (sem þau hefðu eflaust annars ekki gert nema þá kannski að mjög takmörkuðu leyti). Við værum reyndar að sóa listamannakrónunum ef það væri ekki samfella í launagreiðslum til sama fagfólksins.“

Sverrir segir einnig:

„Að meta framlag rithöfunda út frá eintómum afköstum er líka stórfurðulegt. Er ekki betra að skrifa eina góða bók á fimm ára fresti en fimm sæmilegar á jafn mörgum árum? Að reikna svo niður kostnað per blaðsíðu, eins og þarna er gert, bendir nú bara til þess að fólk vanti eitthvað að gera. (Tímanum kannski betur varið bara í að lesa fleiri hugvíkkandi bækur?)“

„Hvers konar jólasvein ert þú farinn að leika?“

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur segir í ummælum undir pistli Sverris að þetta virki á sig eins og „innanhússvaldabarátta. Verið að grafa undan menningardeildinni.“ – Stefán Einar hreytir þá í Guðmund Andra: „Hvers konar jólasvein ert þú farinn að leika?“ – „Alltaf jafnhittinn í skítkastinu,“ svarar Guðmundur Andri og þá skrifar Stefán Einar:

„Þetta er bara svo átakanlega heimskulegt hjá þér. Egill Helgason vinur þinn gæti haldið að þú værir húsvörður. Þegar við flytjum fréttir af því hvernig listamannalaunum er varið þá felst engin valdabarátta við frábæra menningardeild Morgunblaðsins í því. Það felur einungis í sér fréttaflutning, heilbrigðan og yfirvegaðan. En það er fyrirbæri sem þú gætir ekki greint með þrískipt gleraugu beint fyrir fótunum á þér.“

Þessu svarar Guðmundur Andri svo:

„Jólasveinn … húsvörður … þrískipt gleraugu … þetta er eins og að ræða við súrrealista á þriðja absinth-glasi. Skil listræna viðleitnina í skrifum þínum enda ertu sjálfur á nokkurs konar listamannalaunum, sem virðist hafa farið fram hjá Skafta – fyrirgefðu „Samtökum skattgreiðenda“; Mogginn nýtur stórfelldra styrkja frá almenningi. Hvað sem kann að líða yfirlýstu dálæti á menningardeild Morgunblaðsins, þá er þetta núna umræðuefni dagsins, þessi árás, ekki menningarviðleitnin sem þú ferð fögrum og ef til vill súrrealískum orðum um. Þér tókst að ná sviðinu. Þú ert núna andlit menningarstefnu Morgunblaðsins.“

„Gömul fyllibytta með ódýra snúninga á fólk“

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, segir að skrifin (þ.e. umrædd frétt Morgunblaðsins) séu styrkt af ríkissjóði í gegnum fjölmiðlastyrk. Stefán Einar er nú rétt farinn að hitna eftir átökin við Guðmund Andra og segir:

„Segir dýrasti maður Íslandssögunnar. Sá sem aldrei getur staðið skil á launagreiðslum og opinberum gjöldum gagnvart starfsfólki og hinu opinbera.“

Gunnar Smári segir þá: „Ekki vera fullur á Facebook.“ – Ekki stendur á svari hjá Stefáni Einari: „Gömul fyllibytta með ódýra snúninga á fólk. Ættir nú að bera meiri virðingu fyrir því fólki sem berst við áfengisfíkn en að reyna svona aulabragð á mér. En þetta kemur ekkert á óvart. Þú berð ekki virðingu fyrir neinu nema þínum eigin hagsmunum.“

Sakar Hallgrím um barsmíðar á Geir Haarde

Umræður undir pistli Sverris eru mjög viðamiklar en Stefán Einar segir þær umræður bera vitni um skilningsskort á hlutverki fjölmiðla. Í fréttinni hafi verið framreiddar upplýsingar sem eigi erindi til almennings.

Hinn landskunni rithöfundur Hallgrímur Helgason blandar sé hæversklega inn í umræðurnar og segir að það vanti eina bók eftir sig í samantekt Samtaka skattgreiðenda. Þessi svarar Stefán Einar þannig:

„Ömurleg meðferð á skattfé að halda mönnum eins og þér uppi við að grafa undan samfélaginu.“

Bræður Hallgríms, rithöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason, og bókaútgefandinn Ásmundur Helgason, blanda sér í umræðuna sem verður til þess að Stefán Einar kallar tvo þeirra bræðra hrotta. Það sem brennur þarna á Stefáni Einarssyni er framferði Hallgríms í búsáhaldabyltingunni er hann sló á ráðherrabíl Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra.

Ásmundur segir: „Alltaf skaltu fara í manninn Stefán minn. Gangi þér vel.“

Stefán Einar: „Svona eins og þegar maðurinn réðist á Geir H. Haarde forsætisráðherra á sínum tíma með barsmíðun? Af hverju fyrirgerði hann sér ekki opinberum greiðslum með því?“

Ásmundur: „Þetta er í fyrsta sinn sem orðið barsmíðar er notað um bíl. Gangi þér vel.“

Stefán Einar: „Gerðu endilega lítið úr þessu. Þú ert augljóslega sami hrottinn og hinn.“

Bubbi og samviska hans

„Það eru geldingar sem skrifa og birta svona lágkúru,“ skrifar Bubbi Morthens. Það er upphafið að fjörugum orðaskiptum hans og Stefáns Einars þar sem Stefán Einar segir í lokin:

„Þú ert ágætur. En hérna hefur þú einfaldlega rangt fyrir þér. Og sennilega veistu það. Að því sögðu vil ég komá á framfæri kærum þökkum fyrir það sem þú hefur fært íslensku þjóðinni og þar með undirrituðum með þínu sköpunarstarfi. Það verður seint fullþakkað. Það breytir ekki því að það má ræða kosti og galla styrkjakerfisins, meðal annars glórulaus heiðurslaunin sem eru barn síns tíma. Og að þú ærist yfir því þegar bent er á þvæluna staðfestir bara eitt. Beygða og beyglaða samvisku yfir öllu drullumallinu.“

Hér hafa aðeins verið nefnd brot af umræðunni en meira má lesa með því að smella hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Heilt yfir er um að ræða hvassasta vindinn sem komið hefur í marga mánuði“

„Heilt yfir er um að ræða hvassasta vindinn sem komið hefur í marga mánuði“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Rottukeisari“ New York borgar hoppar frá borði

„Rottukeisari“ New York borgar hoppar frá borði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Úthúðar Guðmundi Inga og segir hann ekki ráða við verkefnið – „Gerum við ekki meiri kröfur en þetta?“

Úthúðar Guðmundi Inga og segir hann ekki ráða við verkefnið – „Gerum við ekki meiri kröfur en þetta?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vestmannaeyjabæ neitað um endurgreiðslu vegna skemmda á einu neysluvatnslögn bæjarins

Vestmannaeyjabæ neitað um endurgreiðslu vegna skemmda á einu neysluvatnslögn bæjarins