Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hefur staðfest niðurstöðu ónefnds tryggingafélags sem synjaði eiganda bifreiðar um greiðslu úr kaskótryggingu hennar. Þótti tjónstilkynningin í óljósara lagi en eigandinn vildi meina að ökumaður óþekktrar bifreiðar hefði valdið tjóni á hans bifreið en var ekki talinn hafa tekist að sanna það. Var meðal annars litið til þess að lýsing hans á atvikinu breyttist eftir að hann lagði tjónstilkynninguna fram.
Eigandinn tilkynnti um tjónið sumarið 2024. Lýsti hann því þannig að „einhver svartur fólksbíll“ hafi verið fastur úti í kanti á þjóðvegi og manneskja hafi staðið við bílinn, sem hafi verið nokkrum metrum fyrir utan veginn. Þegar hann hafi ekið fram hjá hafi smásteinadrífa komið yfir bifreiðina, brotið framrúðu hennar og skilið eftir grjótkastför á vélarhlíf, frambretti og hliðarhurð. Þá kom fram í tjónstilkynningunni að eigandinn væri ekki viss um hvaðan þetta grjót hafi komið en vindasamt hafi verið á svæðinu. Í málskoti til nefndarinnar kom fram að þegar hinni óþekktu bifreið var ekið af stað hafi steinar eða grjót skotist undan dekki hennar og á bifreið eigandans. Krafðist hann bóta úr kaskótryggingu bifreiðarinnar vegna tjónsins.
Tryggingafélagið rökstuddi synjun sína meðal annars með því að í skilmálum kaskótryggingarinnar segi að tjón af völdum foks lausra jarðefna, svo sem sands, ösku, malar eða vikurs, bætist ekki. Í tjónstilkynningu hafi komið fram að eigandinn væri ekki viss um hvaðan grjótið hafi komið. Bótaskyldu hafi því verið hafnað með vísan til þess.
Í kjölfar synjunarinnar hafði eigandinn samband við tryggingafélagið og bað um endurskoðun ákvörðunarinnar. Vildi hann meina að misskilningur hefði orðið og fullyrti að í raun hafi steinar eða grjót skotist undan dekki óþekktu bifreiðarinnar. Óskaði félagið þá eftir tjónamati og fékk það frá verkstæði en þar kom fram að bifreiðin væri skemmd á framenda og báðum hliðum eftir steinkast.
Tryggingafélagið mat það sem svo að útilokað væri að skemmdirnar mætti rekja til eins tiltekins atviks heldur væri um að ræða hefðbundnar lakkskemmdir. Samkvæmt skilmálum kaskótryggingarinnar væru ekki greiddar bætur vegna skemmda eða slits á ökutæki vegna eðlilegrar notkunar, en þar undir falli eðlilegt slit á lakki vegna hefðbundins steinkasts af vegi. Tjónið á framrúðunni var þó bætt á þeim grundvelli að aðrir skilmálar giltu um rúðutryggingu.
Eigandinn hafnaði því alfarið að um hefðbundnar lakkskemmdir væri að ræða en sjá mætti á fyrirliggjandi ljósmyndum að skemmdir væru aðeins framan á bifreiðinni og á hægri hlið hennar, en ekki á henni allri eins og tryggingafélagið héldi fram. Raunar væri það aðallega framendi hennar sem væri skemmdur eftir steinadrífuna. Þá lægi fyrir að framrúðan hafi brotnað á fjórtán stöðum við atvikið. Hefði það ekki gerst hefði ekki komið til umrædds tjónsatviks. Tryggingafélagið andmælti því hins vegar að það lægi fyrir að framrúðan hefði brotnað á fjórtán stöðum.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar vátryggingamála segir að atvikið eins og því sé lýst í málskoti, að grjót hafi stafað frá óþekktri bifreið er hún tók af stað og valdið tjóni á bifreið eigandans, sé skyndilegt og óvænt utanaðkomandi atvik í skilningi skilmála kaskótryggingarinnar og sé því ekki bótaskylt. Engin frekari gögn liggi fyrir um atvikið og í tjónstilkynningu sé því lýst með talsvert öðrum hætti. Þrátt fyrir að af tjónstilkynningu megi ráða að eigandinn hafi ekki verið einn í bifreið sinni, enda skrifi hann þar „þegar við keyrum fram hjá“, liggi engar frekari upplýsingar fyrir um það hver hafi verið með honum í bifreiðinni eða vitnisburður þess eða þeirra aðila. Þá virðist sem bifreiðin sé af tegund sem alla jafna sé búin myndbandsupptökukerfi, en engar upplýsingar liggi fyrir varðandi það hvort myndband af atvikinu sé til staðar.
Þá segir nefndin að ekki séu fyrir hendi neinar upplýsingar um hina óþekktu bifreið, aðrar en að hún hafi verið svört, og liggi ekkert fyrir um hvort eigandinn hafi gert tilraun til að ná tali af ökumanni hennar. Hann heldur því fram að framrúðan hafi brotnað á fjórtán stöðum, en hafi sú verið raunin geti það stutt við aðrar röksemdir hans. Hins vegar liggi ekkert fyrir um það hvers eðlis tjón á framrúðunni hafi verið og því sé ósannað að fjórtán brot hafi verið í henni. Nefndin bætir því að samkvæmt fyrirliggjandi tjónamati virðist tjónið einnig að nokkru leyti taka til vinstri og hægri afturhurða og afturhluta bifreiðarinnar. Það bendi til að grjótkastskemmdir á bifreiðinni væru nokkuð víðfeðmari en svo að þær taki aðeins til framenda og hægri hliðar hennar.
Kröfu eigandans um greiðslu úr kaskótryggingu bifreiðarinnar var því hafnað á þeim grundvelli að honum hefði ekki tekist að sanna að tjónið væri af völdum annarrar bifreiðar.