fbpx
Miðvikudagur 24.september 2025
Fréttir

Ekki stóð steinn yfir steini hjá bónda árum saman – Óþrifnaður, smithætta og léleg mjólkurgæði – Tók sig loks á

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 24. september 2025 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta ónefndan bónda starfsleyfi til framleiðslu á hrámjólk. Hafði óþrifnaðurinn á bæ bóndans verið svo mikill að Matvælastofnun taldi smithættu stafa af því og sagði mælanleg gæði mjólkurinnar á búinu svo slæm að hún uppfyllti ekki kröfur um matvælaöryggi. Mun stofnunin hafa haft aðstæður á bænum til sérstaks eftirlits í um áratug. Síðan ákvörðunin var tekin mun þó bóndinn hafa gert úrbætur.

Matvælastofnun hafði einnig lagt dagsektir á bóndann en hann kærði það ásamt banninu til ráðuneytisins sem felldi ákvörðunina um sektirnar úr gildi að hluta til. Sagði ráðuneytið ekki hafa verið tilefni til dagsekta hluta þess tíma sem þær voru lagðar á þar sem bóndinn hefði gert fullnægjandi úrbætur.

MAST beitti bónda of mikilli hörku – Tók sig loksins á eftir langan tíma

Óhreinindi og smithætta

Í nóvember 2024 fóru starfsmenn Matvælastofnunar í eftirlitsferð á búið í kjölfar ábendinga um slæmar aðstæður á bænum. Skráð voru fjögur frávik frá reglum um matvælaöryggi og átta frávik frá reglum um dýravelferð. Hvað fyrrnefnda liðinn varðar voru frávikin þau að mjólkurhús var mjög skítugt og þar inni alls konar drasl og dót. Fjós var óþrifalegt og mjaltaþjónn skítugur. Mikið dót og drasl var utan við hús sem stofnunin vildi meina að drægi að sér meindýr og ylli smithættu. Kindaskítur var um öll hlöð og inngang í mjólkurhús og loks voru mjólkurgæði mjög slæm. Frumu- og líftala var, samkvæmt Matvælastofnun, með því hæsta á landinu en þessar tölur segja til um, samkvæmt vef Auðhumlu, í síðarnefnda tilfellinu, magn örvera og því fyrrnefnda um fjölda hvítra blóðkorna og þekjufruma í hverjum millilítra mjólkur, sem segir til um hvort sýkingu sé að finna í júgri viðkomandi kúa eða ekki, en hvítum blóðkornum fjölgar verulega sé sýking til staðar.

Bóndinn var síðan í byrjun desember 2024 sviptur starfsleyfinu til framleiðslu á hrámjólk.

Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun um eftirlitsheimsóknir á búið á árunum 2013-2024 sé fjöldi þeirra langt yfir meðaltali. Að sögn stofnunarinnar stafi það af mörgum alvarlegum frávikum sem skráð hafi verið í skoðunarskýrslur. Þá hafi stofnunin tvisvar áður boðað sviptingu starfsleyfisins en fallið frá því í bæði skiptin vegna úrbóta bóndans.

Tekið er fram að það liggi fyrir að þegar ákvörðunin var tekin hafi átt sér stað endurbætur á fjósi bóndans en hann og Matvælastofnun greini hins vegar á um hvaða áhrif það hafi á niðurstöðu málsins.

Óhreinindi hafi ekki áhrif

Í kæru bóndans vegna sviptingarinnar kom meðal annars fram að skort hafi á rökstuðning og að málavextir væru raktir með fullnægjandi hætti í sjálfri ákvörðuninni um sviptingu. Sagði bóndinn að töluvert rask hefði orðið á bænum vegna yfirstandandi framkvæmda. Mjaltaþjónninn á bænum væri í raun lokað kerfi og því hafi meint drasl og óhreinindi ekki nein áhrif á gæði mjólkurinnar.  Hann mótmælti sömuleiðis athugasemdum Matvælastofnunar um óhreinindi í mjólkurhúsinu.

Gerði bóndinn athugasemd við að í ákvörðun um sviptingu starfsleyfis kæmi frumutala mjólkurinnar hvergi fram. Hann hafi verið að taka mjaltaþjóninn í notkun skömmu áður og það sé eðlilegt að frumutalan sveiflist og hækki á meðan það standi yfir.

Bóndinn sagðist lifa á framleiðslu og sölu á mjólk. Svipting á starfsleyfi hafi því haft íþyngjandi áhrif. Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd. Sagðist bóndinn sjá fram á að þurfa að bregða búi ef sviptingin yrði staðfest.

Myndir

Matvælastofnun benti meðal annars á í sínum andsvörum að myndir hefðu verið teknar á bænum sem sýndu vel ástandið. Stofnunin viðurkenndi að rökstuðningur hefði ekki komið fram í sjálfri ákvörðuninni en hefði verið rakinn með ítarlegum hætti í skoðunarskýrslu og boðunarbréfi. Stofnunin fullyrti að hún hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni. Andmælum bóndans var vísað að öllu leyti á bug meðal annars með því að það væri ekki rétt að mjaltaþjóninn á bænum væri fullkomlega lokað kerfi og hann væri því ekki algerlega óhultur fyrir óhreinindum. Bóndinn hafi ekki uppfyllt kröfur í reglugerðum um hreinlæti við frumframleiðslu matvæla og hann einn beri ábyrgð á ástandinu og þeim farvegi sem málið hafi farið í.

Í viðbótarathugasemdum bóndans kom meðal annars fram að ástandið á bænum færi batnandi eftir því sem framkvæmdir héldu áfram. Frumutalan færi lækkandi og engin júgurbólga hefði fundist á kúunum á bænum.

Óviðunandi

Atvinnuvegaráðuneytið segir í sinni niðurstöðu að í skýrslu úr eftirlitsheimsókn Matvælastofnunar á bæinn í nóvember 2024 megi finna ljósmyndir og á þeim megi sjá að mikill óþrifnaður hafi verið í mjólkurhúsi og fjósi. Frágangur utanhúss hafi verið með þeim hætti að smithætta hafi verið töluverð. Með vísan til þessa og mælinga sem fyrir lágu um háa frumu- og líftölu í mjólkinni af bænum verði að taka undir það mat Matvælastofnunar að aðstæður við mjólkurframleiðslu bóndans hafi verið óviðunandi með tilliti til matvælaöryggis.

Ráðuneytið segir einnig að í gögnum málsins komi fram að bóndinn hafi síðastliðin ár ítrekað gerst sekur um alvarleg frávik frá reglum um matvælaöryggi við mjólkurframleiðslu. Þannig bendi fyrirliggjandi skoðunarskýrslur frá síðustu árum til þess að athugasemdir hafi ítrekað verið gerðar án viðunandi árangurs til lengri tíma litið. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að bóndinn hafi gerst sekur um bæði alvarleg og ítrekuð brot gegn reglum um matvælaöryggi. Svipting á starfsleyfi hans til framleiðslu á hrámjólk hafi því verið óhjákvæmileg og fái því að standa.

Ráðuneytið tekur hins vegar undir það með bóndanum að verulega hafi skort á rökstuðning í sjálfri ákvörðuninni um sviptingu starfsleyfisins en það dugi þó ekki til að ógilda hana þar sem fullnægjandi rökstuðningur komi fram í skoðunarskýrslu. Því er beint til Matvælastofnunar að bæta úr þessu í sams konar málum í framtíðinni.

Svipting starfsleyfis bóndans til framleiðslu á hrámjólk heldur því gildi sínu en ekkert kemur fram um það í úrskurði ráðuneytisins hvort að hann hafi fengið það aftur, eftir þær úrbætur sem hann gerði, en í ljósi þess að dagsektir voru felldar niður virðist líklegt að starfsleyfið hafi fengist aftur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Lá í blóði sínu á hjólastíg og hjálmurinn mölbrotinn – „Hættulegustu farartækin í umferðinni“

Lá í blóði sínu á hjólastíg og hjálmurinn mölbrotinn – „Hættulegustu farartækin í umferðinni“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Líkur á eldingaveðri á sunnanverðu landinu í dag

Líkur á eldingaveðri á sunnanverðu landinu í dag
Fréttir
Í gær

Íslendingar græða minnst á að mennta sig – Launin hækka um þetta mikið við háskólagráðuna

Íslendingar græða minnst á að mennta sig – Launin hækka um þetta mikið við háskólagráðuna
Fréttir
Í gær

Sitja í súpunni eftir að fyrirtæki föðurins keypti íbúðina

Sitja í súpunni eftir að fyrirtæki föðurins keypti íbúðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfrungar nota kúlufiska til að komast í vímu

Höfrungar nota kúlufiska til að komast í vímu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jimmy Kimmell aftur á dagskrá hjá ABC

Jimmy Kimmell aftur á dagskrá hjá ABC