Björn S. Lárusson sveitarstjóri Langanesbyggðar segist hafa orðið var við töluverðan áhuga hjá bæði fólki og fyrirtækjum á að flytja í sveitarfélagið. Segist hann meðal annars hafa fengið fyrirspurnir frá ungu fólki sem sé í leit að kyrrð og ró til að ala upp börn. Það sem hins vegar helst standi auknum flutningi fólks og fyrirtækja til sveitarfélagsins fyrir þrifum sé skortur á húsnæði.
Þetta er meðal þess sem kom fram í reglulegri skýrslu Björns á fundi sveitarstjórnar í gær. Björn sagði fjölmarga gesti sem sótt hefðu hann heim nú í sumar, bæði sem sveitarstjóra og í einkaerindum, alla hafa haft orð á því hve mikil umsvif, framkvæmdir og kraftur væri í Langanesbyggð. Alls væru 9 nýjar íbúðir í byggingu á öllum byggingastigum eða hafi verið teknar í notkun.
Björn sagðist kunna vel að meta heimsóknir arkitekta og eigenda byggingafélaga og fasteignasala sem hann þekki. Segir hann þessa aðila sjá tækifæri í hverju horni í sveitarfélaginu enda hafi hann verið óspar á hrósyrði um sveitarfélagið. Hann hafi einnig fengið heimsóknir og fyrirspurnir um iðnaðarhúsnæði og húsnæði undir hvers kyns starfsemi sem gott væri að hafa í Langanesbyggð og styrkja þar með innviði samfélagsins.
Björn segir það síðan vekja sérstaka ánægju að fá fyrirspurnir frá ungu fólki sem sé í leit að kyrrð og ró til að ala upp börn. Sumt af þessu fólki sé búið að fá vinnu á svæðinu eða sé í leit að vinnu og það eina sem vanti sé húsnæði.
Björn segir það markmið hafa verið sett í upphafi kjörtímabilsins að leysa þann mikla vanda sem var og sé enn á húsnæðismarkaði í Langanesbyggð, sérstaklega á leigumarkaði. En betur megi ef duga skal, því það líði vart sú vika að honum berist ekki fyrirspurn um leiguhúsnæði. Enn séu til lausar lóðir undir að minnsta kosti eitt raðhús og 4 einbýlishús við götur sem séu tilbúnar. Næsta skref sé væntanlega að ljúka við deiliskipulag í Pálmholti, en það sé eina hverfið sem ekki hafi verið deiliskipulagt og þar sé auðvelt að gera götur og svo sé skipulag Suðurbæjar tilbúið fyrir næstu lotu.
Björn bætir því síðan við að íbúum í sveitarfélaginu fari fjölgandi og miðað við áðurnefnd orð hans gæti fjölgunin orðið enn meiri ef tekst að efla uppbyggingu á húsnæði frekar. Hann segir að árið 2023 hafi Þjóðskrá afskráð hóp íbúa úr sveitarfélaginu sem ekki hafi búið þar lengi. Við það hafi íbúaafjöldinn farið niður undir 540 en hafi verið kominn upp í 560 1. janúar síðastliðinn og fjölgunin hafi haldið áfram á þessu ári og gera megi ráð fyrir að fjöldi íbúa fari að nálgast 600 í lok ársins.