Olíuleit á Drekasvæðinu gæti skilað ævintýralegum ávinningi án áhættutöku fyrir ríkissjóð. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs.
„Á Drekasvæðinu hefur fundist virkt kolvetniskerfi sem gæti innihaldið olíu í vinnanlegu magni. Íslensk stjórnvöld hafa ekki boðið út sérleyfi til olíurannsókna og -vinnslu frá 2012, þrátt fyrir að útboðin gæfu ríkissjóði tekjur óháð olíufundi. Bjóða ætti út sérleyfi að nýju, enda gæti olíufundur haft ævintýralegan ávinning í för með sér fyrir íbúa landsins,“ segir í úttektinni.
Segir ennfremur að rannsóknir bendi til þess að á bilinu 6 til 12 milljarðar olíutunna sé á finna á svæðinu. Ef slíkt magn fyndist gætu skatttekjur ríkissjóðs orðið á bilinu 51 til 102 milljónir á hvern íslenskan ríkisborgara. Sú fjárhæð er 10 til 20 sinnum hærri en heildartekjur ríkisins á hvern ríkisborgara á árinu 2025.
Einnig segir að jafnvel þó að engin olía fyndist á svæðinu myndu leyfisgjöld af sérleyfum til olíuleitar, ásamt öðrum gjöldum sem innheimtast á meðan rannsóknir standa yfir, skila 1,2 milljörum króna. Samkvæmt úttektinni mun það því ávallt skapa ávinning fyrir ríkissjóð að gefa út sérleyfi til olíuleitar á svæðinu og fjárhagsleg áhætta af því sé engin.
Sjá nánar hér.