Karlmaður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir rán með því að ráðast á annan karlmann í Veiðivötnum og neyða manninn til að afhenda lyklana að bíl hans. Ók hinn brotlegi síðan hinum stolna bíl þar til hann akstur hans var stöðvaður af lögreglu en hann var bæði undir áhrifum áfengis og kannabis.
Atvikið átti sér stað í Veiðivötnum nánar tiltekið við Stóra Fossvatn í Rangárþingi Ytra, í ágúst árið 2023. Maðurinn þvingaði hinn manninn með ofbeldi til að afhenda sér bíllyklana með því að taka með hægri hendi í hálskraga á jakka mannsins, hrinda honum, kreppa vinstri hnefann og hóta manninum ítrekað barsmíðum ef hann myndi ekki afhenda lyklana. Það gerði þolandinn og ók maðurinn þá bílnum á brott.
Það er ekki tekið sérstaklega fram að mennirnir hafi verið þarna staddir til að veiða fisk en það er ekki ólíklegt.
Lögregla stöðvaði akstur mannsins á Þjórsárdalsvegi suður af Hrauneyjum í Rangárþingi ytra. Reyndist maðurinn undir áhrifum kannabis og áfengis. Auk ákæru fyrir rán var maðurinn því ákærður fyrir akstur undir áhrifum.
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust. Hann hafði tvisvar áður sætt refsingu, í bæði skiptin fyrir umferðarlagabrot, árið 2015, en maðurinn var sektaður í tvígang fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Fyrir dómi iðraðist maðurinn gjörða sinna og fullyrti að um einstakt tilvik væri að ræða og hann legði það ekki í vana sinn að viðhafa slíka háttsemi.
Héraðsdómi Suðurlands þótti við hæfi að dæma manninn í sex mánaða fangelsi en með vísan til játningar hans og þess að hann hefði ekki áður gerst brotlegur við hegningarlög var refsingin skilorðsbundin, til næstu tveggja ára. Sömuleiðis þarf maðurinn að greiða 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og er sviptur ökurétti í 18 mánuði.