Félagarnir Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson ræða veiðigjöldin og átökin um þau. Segja þeir að umræðan um veiðgjöldin hafi gengið út á að sjávarútvegurinn nyti sérstöðu og væri með umfram arðsemi. Uppgjör Síldarvinnslunnar og forstjóra hennar, Gunnþórs Ingvarssonar, bendi til annars.
„Mér fannst mjög athyglisvert það sem maðurinn var að segja. Hann segir bara hreint og beint að arðsemi eigin fjár í sjávarútvegi sé ekki ásættanleg í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Og þetta er auðvitað þvert á það sem umræðan um veiðigjöldin gekk út á, að sjávarútvegurinn nyti einhverrar sérstakrar aðstöðu og væri með einhverja umfram arðsemi. Að það ætti að skattleggja sjávarútveginn á þeim forsendum að hann nyti einhverrar sérstakrar arðsemi umfram annað atvinnulíf í landinu. Það er ekki það sem Gunnþór er að segja núna og það er heldur ekki í samræmi við það sem að ýmsar tölulegar upplýsingar hafa sýnt fram á. Það var bara enginn að hlusta,“ segir Sigurður.
Í þætti þeirra í Hluthafaspjallinu tekur Jón undir og segir það hárrétt að sjávarútvegurinn hefur bent á að arðsemi í sjávarútvegi er ekki meiri, hefur ekki verið meiri almennt, heldur en er í öðrum atvinnugreinum á Íslandi og útgreiðslur á arði hafa verið mjög sambærilegar og í öðrum atvinnugreinum.
„Umræðan hefur hins vegar snúist um það og menn einblína bara á eitt, að þeir þurfi ekki að borga fyrir nein veiðileyfi. Auðvitað er það rangt. Þeir eru að borga tíu milljarða í veiðigjöld og þeir tíu milljarðar eiga að fara í tuttugu. Og menn hafa sagt, ja, þjóðin er alveg búin að fá nóg af þessu, að það sé verið að afhenda auðlindina endalaust. Það er sama platan spiluð aftur og aftur og aftur.“
Segir Jón Viðreisn hafa sagt að gefa eigi veiðileyfið frjálst og hafa á markaði. Segir hann að ef það væri gert myndu þrjú stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eiga allan kvóta á Íslandi. Þá myndu stjórnvöld grípa inn í hér og þar að hjálpa byggðarlögum.
Ræða þeir strandveiðikvótann sem varð ekki að veruleika og Flokkur fólksins hafði lofað.
„Það var allt í einu vilji fyrir að fara að setja fleiri pólitíska fiska í sjóinn.“
„Meginniðurstaðan er þá sú og höggið í veiðigjaldinu, það liggur í því að þetta smitar út frá sér í hvert byggðarlag. Það er eiginlega það sem þetta gerir. Kristrún Frostadóttir sagði, og við höfum áður sagt það, að það sé verið að eltast við þrjár, fjórar fjölskyldur í landinu sem séu ofurríkar vegna þessa kvótakerfis sem allir hafa spilað eftir. Og þetta er kvótakerfi sem ríkið sjálft lagði til og bara þátttakendur í atvinnulífinu fara eftir þeim reglum. Svo allt í einu, þegar þið eruð búin að byggja upp sjávarútveginn, gjörnýta hvern fisk, sem sagt sporðinn og bara nánast allt. Það er búið að vera að sækja fram á erlendum mörkuðum með alveg ótrúlega flottu sölustarfi þar sem kokkurinn hringir og segir mig vantar fisk. Og þá er haft samband við söluskrifstofuna sem aftur er farin jafnvel að stýra veiðunum og hvenær báturinn kemur, þetta er alveg ótrúlega flott og fallegt kerfi.“
Jón segir virðiskeðjuna í sjávarútveginum ekki bara vera fiskinn í sjónum, þó keðjan byrji þar.
„Þú þarft að draga fiskinn upp og verðmætin, það hefur verið talað um það að 35-40% af verðmæti fisksins, það sé sölumaðurinn. Ekki að framleiða, heldur að selja. Þar verði til svo mikið virði vegna þess að þá ertu að ná upp verðinu.“
„Menn gleyma því alltaf, hér voru settir talsvert miklir peningar í að reyna að selja íslenskt lambakjöt í sérstökum verslunum í Bandaríkjunum, virðingarverðar tilraunir en þetta bara gekk ekki. Þetta er svo erfitt, þessi markaður er svo erfiður. Menn hafa ekki skilning á því hvað er ofboðsleg samkeppni á þessum matvörumarkaði og erfitt að halda uppi viðskiptasamböndum,“ segir Sigurður.
Jón bætir við: „Starf sölumannsins skiptir mjög miklu máli, auk þess að hafa nýjustu tæki, besta flotann, fara eftir ráðleggingum fiskifræðinga og það hafa menn svo sannarlega gert. Þannig að þetta er athyglisvert sem Gunnþór segir.“