Matthías Björn Erlingsson er einn sakborninga í Gufunesmálinu og er hann ásamt tveimur öðrum sakborningum ákærður fyrir manndráp, frelsissviptingu, rán og tilraun til fjárkúgunar. Málið varðar lát Hjörleif Hauks Guðmundssonar, 65 ára gamals manns frá Þorlákshöfn, sem lést þann 11. mars eftir langvarandi misþyrmingar sem hófust kvöldið áður eftir að hann hafði verið lokkaður upp í bíl nálægt heimili sínu.
Matthías hefur lýst sig saklausan af öllum ákæruliðum og segist hafa verið leiksoppur annarra sakborninga í málinu á vettvangi. Hann segist engu að síður harma mjög atburðinn og það að hafa dregist inn í atburðarásina sem leiddi til hryllilegs dauða Hjörleifs.
Í ákæru kemur ekkert fram sem bendir til að hann hafi sjálfur misþyrmt Hjörleifi en lesa má út úr atburðalýsingu að saksóknari álítur hann hafa tekið virkan þátt í skipulagningu glæpsins. Matthías telur að það mat sé ekki í samræmi við sönnunargögn en það hafi haft áhrif á rannsókn lögreglu að hann er bendlaður við mál þar sem tálbeituaðgerðum hefur verið beitt til að koma upp um menn sem hafa sýnt áhuga á því í netsamskiptum að hitta ólögráða ungmenni.
Ber þar hæst mál manns á Akranesi sem misþyrmt var eftir að hann kom til fundar við manneskju sem hann taldi vera 14 ára stúlku. Matthías er grunaður um aðild að því máli en hann segir að atlagan að Hjörleifi heitnum hafi verið af allt öðru tagi og með annan aðdraganda. Tekið skal fram að Matthías telur Hjörleif ekki hafa gert neitt rangt, hann segist fordæma glæpinn og harma mjög þær þjáningar sem Hjörleifur heitinn og fjölskylda hans hafa þurft að ganga í gegnum.
Í ákæru segir að sakborningarnir Stefán Blackburn og Lúkas Geir hafi fengið Hjörleif út í bíl skammt frá heimili hans í Þorlákshöfn með aðstoð stúlku, sem er ákærð í málinu fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni. Stúlkan hafði sett sig í samband við Hjörleif á netinu og þóst vera 17 ára, samkvæmt því sem Matthías tjáir blaðamanni, og hefur upp úr lögregluskýrslum. Tvímenningarnir eru síðan sagðir hafa misþyrmt Hjörleifi í bílnum og reynt að þvinga hann til að gefa upp aðgangsorð hans að heimabanka hans. Samkvæmt ákæru settu þeir poka yfir höfuð Hjörleifs.
Matthías er síðan sagður hafa komið á vettvang á sínum bíl þegar hinir ákærðu og Hjörleifur voru hjá Hellisheiðarvirkjun. Var það meira en tveimur klukkustundum eftir að Hjörleifur hafði verið numinn á brott í Þorlákshöfn. Matthías segist ekki hafa vitað hvað var í gangi. „Ég fékk boð um að hjálpa þeim við að hlaða Tesluna. Þegar ég mætti á staðinn var maður með poka yfir hausnum,“ segir Matthías og aðspurður segir hann að honum hafi litist mjög illa á ástandið. „Þetta var sannarlega ekki eitthvað sem ég ætlaði að taka þátt í.“
Samkvæmt ákæru var Hjörleifur heitinn færður yfir í bíl Matthíasar, enn með pokann yfir höfðinu. Matthías ók síðan á eftir Stefáni Blackburn sem ók umræddri Teslu að iðnaðarbili að Koparsléttu á Kjalarnesi. Í ákæru segir að Stefán og Lúkas Geir hafi haldið þar áfram misþyrmingum gegn Hjörleifi.
Matthías segir að á meðan þessu gekk hafi hann setið úti í bíl og ekki orðið vitni að þessum misþyrmingum, hvað þá tekið þátt í þeim eða hvatt til þeirra. Aðspurður hvort hann hafi ekki vitað hvað var í gangi segir hann: „Ég var fyrir utan iðnaðarbilið. Ég vissi í rauninni ekkert. Mér var bara sagt að keyra og elta.“
Sp: Nú minnir málið að sumu leyti á tálbeitumál sem þú hefur verið bendlaður við. Þú segist ekkert hafa komið að skipulagningu þessar aðgerðar. Hver er munurinn á henni og tálbeituaðgerðum sem þú hefur tekið þátt í?
„Þetta var mjög rangt á allan hátt og bara skelfilegt. Þær aðgerðir sem við vorum í voru meira professional. Við könnuðum mennina, til dæmis hvort þeir væru þannig að þeir skildu hvað þeir voru að gera. En það var ekki gert þarna. Hjörleifur var heilabilaður. Hann vissi ekki hvað hann var að gera. Hann var líka að tala við stelpu sem hann hélt að væri 17 ára, það er meira á línunni en að spjalla við 14 ára stelpu. Svo fór hann ekki til að hitta hana heldur var hann plataður út í bíl.“
Aðspurður segir Matthías að ekkert bendi til að Hjörleifur hafi girnst börn eða unglinga og hann segir slæmt að mannorð hans hafi verið svert með slíku tali þó enn verra sé auðvitað hvernig honum var misþyrmt svo hann hlaut bana af.
Matthías segir að framganga meðákærðu í málinu hafi bara snúist um að komast yfir peninga en hafi ekkert með baráttu gegn barnaníð að gera. „Stefán vildi bara græða peninga á þessu og sá þarna tækifæri.“
Þeir Matthías, Stefán og Lúkas Geir eru auk ákæru um manndráp, frelsissviptingu og rán ákærðir fyrir tilraun til fjárkúgunar með því að hafa hringt í eiginkonu Hjörleifs og hótað henni að beita Hjörleif ofbeldi ef hún millifærði ekki á þá þrjár milljónir króna, og skömmu síðar hringt aftur með sömu hótanir ef hún gæfi ekki upp aðgangsorð að heimabanka hans.
Hringt var í eiginkonuna úr síma Matthíasar.
Sp: Tókst þú ekki þátt í þessu símtali?
„Nei, ég var ekki á staðnum þegar þetta símtal var hringt. Ég var úti í mínum bíl. Stefán tók af mér símann til að nota hann og ég fékk ekkert að segja um það. Hann hringdi úr honum.“
Sp: Hann hringdi úr þínum síma?
„Já.“
„Saksóknari hefur sagt við mig að ég hafi verið ákærður til að láta dómara ákveða hvort ég sé sekur. Ég var ekki ákærður út af sönnunargögnunum og það finnst mér óréttlátt,“ segir Matthías og á þar við að saksóknari láti dómara það eftir að ákveða hvort sé sekur um þessa ákæruliði sem nefndir eru, án þess að fyrir því séu fullar sannanir.
Auk þessara þriggja sakborninga eru tvö ungmenni ákærð fyrir hlutdeild í málinu. Piltur er ákærður fyrir peningaþvætti vegna þess að hann tók við greiðslu frá reikningi Hjörleifs og millifærði áfram.
Hins vegar er tvítug stúlka ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni með því að hafa sett sig í samband við Hjörleif, fengið hann til að yfirgefa heimili sitt og setjast upp í bíl þar sem Stefán og Lúkas Geir biðu hans.
Matthías er þeirrar skoðunar að þessi stúlka ætti fremur að fá á sig ákæru fyrir manndráp en hann. „Hún er með meiri þátttöku í þessu en ég. Hún er grundvöllurinn að því að þetta gerðist. Hún leiðir gæjann út og allt það. Mér finnst skrýtið að hún sé ekki ákærð fyrir manndráp fyrst ég er það. Hún vissi hvað var að fara að gerast.“
Sp: En þú vissir það ekki?
„Nei.“
Sp: Ef við endurtökum það… hvers vegna vissir þú það ekki?
„Út af því að ég var plataður á staðinn. Ég fékk símtal frá Stebba um að hjálpa til við að hlaða Teslu. Svo þegar ég kem á staðinn er þetta í gangi.“
Sp: Finnst þér að hún ætti frekar að vera ákærð fyrir manndráp en þú?
„Í raun og veru, já. Af því hún hefur meiri þátttöku í þessu en ég.“
Þrátt fyrir að telja sig saklausan af öllum ákæruliðum segist Matthías samt skulda fólki afsökunarbeiðni. Blaðamaður heggur eftir þessari mótsögn og spyr hvers vegna hann sé að biðjast afsökunar ef hann er saklaus. Hann segist gera það vegna þess að þó að hann sé saklaus hafi hann dregist inn í málið og orðið hluti af atburðarásinni. „En það var gegn mínum vilja,“ segir hann.
„Ég hef fengið að koma skilaboðum til fjölskyldu mannsins. Þar bið ég þau afsökunar. Ég hef heyrt að eitt þeirra trúi því að ég sé saklaus en ég get ekki staðfest að það sé rétt.“
Sp: Hvað með þína eigin fjölskyldu?
„Ég er með góð samskipti við þau og þau eru öll á minni hlið. Þau trúa því að ég sé saklaus. Þau heimsækja mig hingað reglulega.“
Matthías er 19 ára gamall og ólíkt þeim Lúkasi Geir og Stefáni hefur hann hreina sakaskrá. Hann hefur setið í fangelsi síðan málið kom upp í mars. Hann situr í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði en þeir Lúkas Geir og Stefán eru á Litla-Hrauni. Aðspurður segir hann að ekki hafi verið samskipti á milli þeirra. Hins vegar veit hann af handskrifuðu bréfi sem Lúkas Geir er talinn hafa skrifað til hans en bréfið komst aldrei til skila. Málið var í fréttum í vikunni, en í bréfinu, sem fangavörður komst yfir áður en það rataði í hendur Matthíasar, er þrýst á Matthías um að hann taki á sig alla sök í málinu þar sem hann sé svo ungur að árum, hann muni þess vegna fá svo vægan dóm. Vísir birti búta úr bréfinu, meðal annars þennan:
„En núna er mjög mikilvægt. Þú ert yngstur, ég er orðinn 21 búinn að tala við lögfræðinginn minn að þú verður taka þetta á þig, þú færð varla dóm. Verður kominn út eftir 1 og hálft ár max og ég lofa því. Kæmir út sem legend en þetta er staðan og við auðvitað gerum þetta.“
„Þá myndi ég verða svokallað legend. Ég veit ekki hvað það þýðir í þeirra augum,“ segir Matthías um þetta og lætur sér fátt um finnast.
Aðspurður segist hann hafa verið fjórar vikur af gæsluvarðhaldstímanum í einangrun. „Ég var í viku vegna rannsóknarhagsmuna, tvær vikur fyrir að neita að tjá mig og svo viku eftir að ég tjáði mig, því þeir sögðu dómaranum að þeir þyrftu að fá staðfest það sem ég hefði sagt.“
Sp: Hefurðu ekki setið í fangelsi áður?
„Nei, fyrsta skipti sem ég kem inn í fangaklefa er í þessu máli. Fyrsta gæsluvarðhaldið, fyrsta einangrunin, fyrsta ákæran, fyrsta allt…“
Hann segist hafa átt 19 ára afmæli í einangrun og það hafi verið sérkennileg upplifun. Hvernig lætur hann af einangrunarvistinni?
„Það er ekki góð reynsla. Þú færð sjálfskaðahugsanir, þér finnst allt ómögulegt, og svo var dælt í mig lyfjum, geðlyfjum, kvíðalyfjum, svefnlyfjum. En þeir þurftu að hafa mig í einangrun og þetta var gert til að hafa mig rólegan. En einangrun er eitthvað sem engin manneskja ætti að þurfa að upplifa.“ – Hann hefur samt skilning á því að einangrun geti verið nauðsynleg þegar mál eru í rannsókn.
Blaðamaður spyr hvernig hann sjái fyrir sér framtíðina og Matthías segist ætla að snúa við lífi sínu, hvort sem það verður innan eða utan fangelsisveggjanna.
„Ég vil slíta samskiptum við þennan slæma vinahóp sem ég er í. Og ég er byrjaður í námi hérna í fangelsinu, ég er að halda áfram í rafvirkjun eftir hlé. En ég er bara að bíða og sjá. Það besta sem ég get gert núna er bara að bíða og vona.“
Matthías hljómar í þessu samtali nokkuð æðrulaus um hlutskipti sitt. Hann ætlar að taka því sem að höndum ber og reyna að gera það besta úr því. Hann telur sig saklausan en reiknar alveg eins með því að fá fangelsisdóm enda ákæran gegn honum grafalvarleg.
Fyrirtaka verður í Gufunesmálinu í Héraðsdómi Suðurlands á mánudag, þann 11. ágúst. Þar leggja verjendur sakborninga fram greinargerðir þeirra í málinu. Jafnframt verður þá ákveðin dagsetning á aðalmeðferð, sem er hin eiginlegu réttarhöld. Líkur eru á því að aðalmeðferð verði í lok þessa mánaðar.