Árið 2006 tók Íris Alma Vilbergsdóttir sitt fyrsta námslán. Lánið hækkaði með tímanum og segir Íris Alma að það geti verið erfitt að átta sig á raunverulegu umfangi lánsins mörgum árum síðar.
Sjá einnig: Íris hefur greitt af námsláni í 17 ár – Lánið er 800 þúsund hærra í dag: „Námslánið kæfir þig“
Íris Alma átti eftir að taka annað námslán þremur árum síðar fyrir masternámi sínu.
„Það sem er athyglisvert með mastersnámið mitt er að ég vann í fjölmiðlum í nokkur ár. Svo kemur hrunið og á sama tíma var ég alveg búin að átta mig á því að blaðamennskan var ekki alveg eins spennandi eins og hún virtist vera í bíómyndunum. Þetta var rosalega mikil fjöldaframleiðsla og er náttúrulega orðin ennþá meira þannig núna. Þetta var ekki mjög gefandi þannig að ég var svolítið fljót að missa áhugann. En ég ákvað eftir hrunið, þá var ég atvinnulaus, að fara í meistaranám. Fékk þá brilljant hugmynd að fara í almannatengsl.”
Íris Alma ræðir í hlaðvarpi sínu, Krónusögurnar mínar; sannar sögur úr veskinu, um kosti og galla þess að taka námslán út frá eigin reynslu og hvetur fólk til meðvitaðra ákvarðana.
Íris Alma sótti um í University of Stirling sem er í Stirling í Skotlandi, sem hún segir yndislega fallegan háskólabæ. Námið var þrjár annir, haustönn, vorönn og sumarönn og Íris Alma fékk lán fyrir framfærslu og skólagjöldunum af því sambærilegt nám var ekki í boði á Íslandi. Íris Alma fór í nám í Master of Science in Strategic Tourism Public Relations and Communication Management og tók eins og nafnið hendir til aukagrein í ferðaþjónustu.
„Ég tók áfanga bæði í markaðsfræðideildinni og í almannatengslum og markaðsfræði í túrismanum. Og náttúrulega í seinni tíð að þá er það þetta litla orð þarna inni sem veitti mér atvinnu, af því að almannatengsl gera það svo sannarlega ekki. Almannatengsl eru fag sem er ekki mjög langt komið á Íslandi. Og ég fékk aldrei vinnu við það. Ég fékk hins vegar vinnu við markaðsmál á hóteli út af því að þetta var túrismi og út frá því þá vann ég mig upp í að sjá um sölu og fjármál á hótelum.”
Íris Alma útskrifaðist í mars 2011, en átti að útskrifast haustið 2010.
„Það sem gerðist hjá mér er að það varð brot í lífi mínu, ég var rétt byrjuð að vinna lokaverkefnið þegar það verður banaslys í fjölskyldunni og ég þurfti að koma heim með hraði og þurfti að flytja heim og ég þurfti að breyta í rauninni öllum mínum plönum vegna þess að þetta var mjög náinn aðili sem lést og það hafði mikil áhrif á mín framtíðarplön.”
Íris Alma minnir á að bankinn er búinn að lána fyrirfram fyrir námslánum, og komi eitthvað upp á og nemandi lýkur ekki námi og fær þar af leiðandi ekki námslán, þá vill bankinn fá endurgreitt og LÍN sýnir enga linkind. Skólinn gaf Írisi Ölmu hins vegar frest á að ljúka náminu og tók hún sér mánaðarfrí. Segist hún hafa rétt slefað verkefnaskilin.
„Þetta var bara skítlélegt verkefni því ég var ekki í neinu ástandi til þess að vinna þetta, öll ástríðan og áhuginn og allt var farið og ég var náttúrlega komin heim. Ég var ekki lengur í skólanum, ég var ekki lengur í þessu umhverfi og þetta var bara rosalega erfitt. En engu að síður, ég varð, það voru mörg hundruð þúsund sem lágu undir að ég myndi klára þetta verkefni á réttum tíma, ná áfanganum og útskrifast. Þannig að ég gerði það. Henti saman einhverju drasli og og ég náði rétt fyrir áramót og fæ í janúar að ég sé búin með námið.”
Íris Alma sendi staðfestingu á námslokum til LÍN og fékk tilbaka að þar sem árinu 2010 væri lokið þá yrði ekki greitt út.
„Mörg hundruð þúsund. Og ég var í skítnum nú þegar út af þessu andláti og öllum breytingunum sem ég er að fara í gegnum og redda húsnæði í flýti og þetta var svo mikið áfall og tölvupósturinn frá þeim.”
Íris Alma segir að ábyrgðin hafi vissulega legið hjá henni að hafa samband tímanlega við LÍN, fá leiðbeiningar og skila öllum gögnum fyrir lok árs. Skuldin var um 700 hundruð þúsund og Íris Alma var ekki með neina vinnu.
„Ég sendi tölvupóst þar sem ég útskýrði hvað gerðist. Ég sagði þeim frá banaslysinu og að þetta var bara erfitt tímabil og ég á dóttur og við erum bara hérna í ruglinu. Ég var mjög kurteis en ég útskýrði bara alla söguna. Og ég sendi þennan póst á menntamálaráðherra og í CC voru stjórnarmenn hjá LÍN og sennilega framkvæmdastjóri LÍN.”
Tölvupósturinn skilaði árangri og Íris Alma fékk greitt út.
„Ég var svo þakklát og ég er ennþá þakklát vegna þess að þau þurftu ekki að gera þetta. Þetta er lexía sem ég vil að þið takið með ykkur, ef eitthvað svona kemur upp í lífinu. Ekki kannski hrynja saman alveg strax. Reyna að finna lausnir, reyna að stoppa og hugsa hvað getur gerst. Og bara allavegana prófa að ræða málin. Ekki með reiði. Ég held að það hefði ekki virkað, það hefði ekkert hjálpað mér ef ég hefði svarað þessum pósti frá LÍN og hraunað yfir þá. Þetta leystist vegna þess að ég dró djúpt andann og og fór í málið. Og ég er mjög ánægð með það.”
Þarna var Íris Alma komin með mastersgráðu í Tourism Public Relations, BA-gráðu í fjölmiðlafræði, en fékk enga vinnu í eitt ár og segir áfallið hafa átt sinn þátt, en einnig að mastersverkefni hennar var svo lélegt að hún gat ekki nýtt sér það til að komast inn í ferðaþjónustuna. Hrunið var einnig nýbúið og margir áttu í basli.
„Ég er ekki byrjuð að borga þetta lán, það er borgað af einu láni í einu og ég er enn að borga fyrra lánið. Árið 2011 er gengið frá láni sem er upp á 5.762.870 krónur. Þetta er fyrir þrjár annir og töluvert meira heldur en ég fékk fyrir þrjú ár í Háskólanum á Akureyri. Og það er vegna þess að það voru skólagjöld í Skotlandi, sem eru mjög dýr. Bresk skólagjöld eru mjög dýr og svo var líka gengismunur og slíkt. Þannig að ég þurfti miklu meiri pening í framfærslu. Þannig að þetta er það sem ég fékk lánað fyrir masterinn minn. Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð? Það er bara grín miðað við þetta.
Eftirstöðvarnar í dag eru 11.569.349 krónur. Þetta er sirka tvöfalt það sem ég fékk upphaflega. Þannig að BA-lánið mitt er sirka 800 þúsund krónum hærra heldur en það var þegar ég tók það og ég er búin að greiða af því í sautján ár. Og svo lán númer tvö, það var tæplega 5,8 milljónir og stendur núna í 11,5. Þetta er bara lífið með námslán.
Eins og ég sagði, námið er það sem er búið að veita mér þau tækifæri sem ég hef haft í lífinu. Ekki ókeypis, að því leyti bæði að kosta þig helling af peningum en líka bara vegna þess að ég valdi mér ekki nám sem veitti mikla atvinnumöguleika og hvað þá atvinnumöguleika þar sem voru einhver laun að ráði. Þetta er dæmi um að mér fannst námið athyglisverðara heldur en starfið sem fylgir því. Og það var svolítið vandamálið. En hins vegar fannst mér hótelbransinn mjög athyglisverður og þetta tourism og marketing nám, það kom mér inn í hótelbransann þar sem ég var mjög hamingjusöm í hátt í tíu ár. Og lærði mjög mikið.”
Íris Alma segir lexíuna vera þá og það sem hún myndi ráðleggja að ef einstaklingur ætlar í nám og taka námsán, að þá verði viðkomandi að taka námið alvarlega og vita hvað hann ætli að læra.
„Ef þú ætlar að læra fjölmiðlafræði í háskólanámi þá ætlarðu bara að læra fjölmiðlafræði, og þú þarft bara að fíla fjölmiðlafræði til þess að geta klárað námið. Þú getur ekki á sama hátt og þú getur oft þegar þú ert í framhaldsskóla svona einhvern veginn bara rúllað í gegnum leiðinlegu áfangana. Þetta er allt saman eitt stórt það sama og þú verður bara að hafa áhuga á þessu.”
Íris Alma segir enga námsbraut í boði sem veiti manni örugglega starf sem er vel launað.
„Þú þarft að hafa áhuga á faginu til þess að geta fengið vinnu við fagið. Þú getur farið í viðskiptafræði, og þú ert ekkert rosalega sleipur í því fagi, í bara viðskiptum yfir höfuð, og hefur engan sérstakan áhuga á því. Þú verður ekki einhver business gæi, ert moldríkur, ef að þú hefur ekki vit eða hæfileika og passion. Þannig að lærðu það sem þú getur notað, og ef þú vilt seinna meir læra eitthvað svona bara af því að þig langar til þess þá geturðu bara tekið áfanga í því. En ekki velja nám bara vegna þess að þú ætlar að verða ríkur á því, alveg sama þó að mamma eða pabbi segi það.
Það eru til fög sem nánast gulltryggja að þú munt ekki geta séð fyrir þér, en það er miklu ólíklegra að þú getir fundið nám sem gulltryggir að þú verðir ríkur. Það krefst yfirleitt miklu frekar persónulegra hæfileika, útsjónarsemi og vinnusemi og slíkt.”
Hlusta má á annan þáttinn í hlaðvarpi Írisar Ölmu hér:
Íris Alma er eigandi ÍA fjármál og einnig má fylgja henni á Instagram.