Í nýrri tilkynningu frá Matvælastofnun (MAST) er að finna stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar í dýravelferðarmálum í maí, júní og júlí. Meðal mála sem komu til kasta stofnunarinnar var mál hundeiganda sem skildi hund sinn einan eftir í fjóra daga án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að tryggja umönnun hans. Nágrannar viðkomandi gripu þá til sinna ráða.
Stofnunin tók stjórnvaldsákvarðanir í nokkrum fjölda mála á tímabilinu.
Dagsektir að upphæð 10.000 krónur á dag voru lagðar á bónda í suðausturumdæmi til að knýja á úrbætur af hans hálfu. Örmerkingum hrossa, hunda og katta á bænum var ábótavant og hjarðbók fyrir sauðfé óuppfærð. Sjúkdóma- og lyfjaskráningar fyrir sauðfé og hross voru einnig ófullnægjandi og almenn meðferð og umhirða hunda á bænum ekki í lagi, samkvæmt MAST.
Stjórnvaldssekt að upphæð 330.000 krónur var lögð á einstakling í suðvesturumdæmi fyrir að nota hengingaraðferð við tamningu á folaldi.
Rekstur hestaleigu í suðausturumdæmi var stöðvaður í apríl vegna brota á dýravelferð en rekstraraðilinn hélt áfram rekstrinum. Dagsektir að upphæð 10.000 krónur á dag voru lagðar á hann til að knýja á um lokun hestaleigunnar og bæta úr velferð hrossanna. Það kemur ekki fram í tilkynningu MAST hvort að rekstraraðilinn hafi á endanum hlýtt og hætt rekstrinum eða hvort hann hafi haldið sínu striki án þess að gera brgarbót á velferð hrossanna.
Kattareigandi í suðvesturumdæmi var síðan sviptur tveimur köttum vegna ófullnægjandi dýravelferðar.
Annar kattareigandi í suðvesturumdæmi hélt þrjá ketti í búri á svölum á heimili sínu við ófullnægjandi aðstæður. MAST framkvæmdi vörslusviptingu.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að við eftirlit hjá bónda í suðvesturumdæmi hafi fundist fótbrotin kvíga í fjárhúshlöðu á bænum sem hefði verið brotin í 2-3 daga áður en eftirlitsmenn MAST bar að garði. Bóndinn hefði fram að því ekki kallað til dýralækni. Kvígan hafi verið aflífuð að kröfu MAST og lögð stjórnvaldssekt á bóndann að upphæð 210.000 krónur. Einnig hafi verið lagðar á hann dagsektir að upphæð 15.000 krónur á dag til að knýja á um bætta dýravelferð í búskapnum.
Bóndi í norðausturumdæmi lét flytja kú til sláturhúss á Akureyri fimm dögum eftir burð. MAST segir hana hafa drepist á leiðinni. Það hafi verið mat stofnunarinnar að bóndanum hefði átt að vera ljóst að kýrin hafi ekki verið flutningshæf vegna einkenna sem hún sýndi. Lögð hafi verið stjórnvaldssekt að upphæð 260.000 krónur á bóndann.
Annnað tilfelli þar sem vanrækt var að kalla til dýralækni kom í ljós við eftirlit hjá bónda í norðvesturumdæmi en á bænum fannst mjög illa farin kýr. Skepnan var aflífuð að kröfu MAST. Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 225.000 krónur á bóndann.
Fram kemur einnig að hundeigandi í norðausturumdæmi hafi verið sviptur umráðum hundsins en vanrækt hafi verið að fara með hann til dýralæknis sem hafi bitnað á velferð hans. Hundurinn hafi verið aflífaður að kröfu MAST.
Við heimsókn lögreglu á heimili í suðvesturumdæmi, þar sem voru kettir og hundur, hafi komið í ljós að ástandið þar hefði ekki verið gæludýrum bjóðandi. Lögreglan hafi fjarlægt dýrin í samráði við MAST og formleg vörslusvipting fylgt í kjölfarið.
Áðurnefndur hundeigandi sem skildi hundinn sinn eftir einan var staðsettur í norðausturumdæmi og var einnig sviptur vörslu dýrsins. Segir í tilkynningu MAST að eigandinn hafi verið fjarverandi í fjóra daga án þess að sjá til þess að hundurinn fengi umönnun, fóður og vatn. Nágrannar hefðu brugðist óbeðnir við og sinnt hundinum en ástandið á heimilinu hafi verið metið óviðunandi.
Að lokum segir í tilkynningu MAST að dagsektir að upphæð 10.000 krónur á dag hafi verið lagðar á bónda í norðausturumdæmi til að knýja á um úrbætur á velferð sauðfjár og hrossa.