fbpx
Föstudagur 29.ágúst 2025
Fréttir

Segir miklar afhjúpanir í Geirfinnsmálinu framundan – „Þá förum við út með þetta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 29. ágúst 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Björgvin, höfundur bókarinnar Leitin að Geirfinni, segir að framundan séu frekari afhjúpanir um meinta yfirhylmingu Keflavíkurlögreglunnar, undir stjórn Valtýs Sigurðssonar, varðandi afdrif Geirfinns Einarssonar sem hvarf að kvöldi 19. nóvember árið 1974.

Soffía Sigurðardóttir, systir Sigurðar, birti grein á Vísir.is í fyrrakvöld sem hefur vakið mikla athygli. Soffía vann að bókinni með bróður sínum og hefur rannsakað gögn Geirfinnsmálsins árum saman. Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, var á þessum tíma fulltrúi bæjarfógeta í Keflavík. Soffía sakar hann um að hafa frá upphafi afvegaleitt rannsóknina og hylmt yfir raunveruleg afdrif Geirfinns. Hafi hann gert þetta af persónulegum ástæðum.

Sjá einnig: Valtýr segir skrif Soffíu vera sjúkleg og að skýrsla sérstaks saksóknara hreinsi hann

Soffía segir að opinbera sagan um hvarf Geirfinns sé uppspuni:

„Opinbera sagan um hvarf Geirfinns í Keflavík þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974, fyrst í Keflavíkurrannsókninni og síðar í hinu fáránlega Guðmundar- og Geirfinnsmáli í Reykjavík, er svona: Geirfinnur hvarf af því hann fór að hitta vonda menn við Hafnarbúðina í Keflavík og þeir óku með hann á brott og skiluðu honum aldrei aftur. Ástæða þess er sú að þeir voru glæpamenn sem stunduðu smygl og Geirfinnur var á einhvern óskiljanlegan hátt flæktur í það athæfi þeirra.

Ekkert af þessu gerðist.“

Samkvæmt bókinni Leitinni að Geirfinni er það sem raunverulega gerðist þetta:

„Geirfinnur fór í Hafnarbúðina til að kaupa sér sígarettur, síðla kvölds. Á heimleiðinni tók maður sem Geirfinnur þekkti hann upp í bíl og ók honum heim. Sá maður er nátengdur eiginkonu Geirfinns. Maðurinn kom með Geirfinni inn en þar voru fyrir Guðný eiginkona Geirfinns og Svanberg, ástmaður hennar. Brutust þá út átök sem lyktaði með dauða Geirfinns. Banamaður Geirfinns var ekki Svanberg heldur maðurinn sem varð samferða Geirfinni heim.“

„Þá myndum við halda áfram með málið“

Sigurður Björgvin, höfundur bókarinnar. segir í viðtali við DV í morgun, að Keflavíkurlögreglan hafi fyrir sex vikum kallað Soffíu systur hans til viðtals. Sá fundur leiddi til þess að þau hafa ákveðið að gera afhjúpanir sínar í málinu opinberar og grein Soffíu á Vísi hafi þar verið fyrsta skrefið.

Í bókinni Leitin að Geirfinni er farið mjög ítarlega í málið en höfundur segist auk þess búa yfir gögnum sem ekki birtust í henni og hefur árangurslaust reynt að fá yfirvöld til að opna rannsóknina á hvarfi Geirfinns í krafti þeirra gagna. Fyrr á árinu voru þessi gögn send til lögreglunnar á Suðurnesjum en embættið ætlar ekki að láta rannsaka málið.

„Soffía systir mín var kölluð í viðtal – ekki skýrslutöku – hjá lögreglunni á Reykjanesi. Hún hélt að þeir væru búnir að hefja rannsókn og hún væri kannski vitni. En það var ekki. Í þessu viðtali sagði hún að ef þeir tækju málið ekki til rannsóknar þá myndum við halda áfram með málið og greina frá því sem var ekki prentað í bókinni af því það voru svo viðkvæmar upplýsingar. Þar sem þeir ætla ekki að rannsaka þetta þá er þetta ekki orðið að neinu lögreglu máli. Þá förum við út með þetta.“

Sp: Verður þá nafn meints banamanns birt?

„Nei, ekki til að byrja með. Næstu skref munu meira snúast um að rekja áfram þessa yfirhylmingu lögreglunnar í Keflavík og Valtýs Sigurðssonar. Þar er af nógu að taka og það er hægt að skrifa heilmargar greinar í viðbót um þau vinnubrögð.“

Sigurður upplýsir ekki um nákvæmlega hvar og hvenær frekari afhjúpanir munu birtast en þær séu framundan.

Gæti alveg eins veifað ljósritunarpappír

DV ræddi stuttlega við Valtý Sigurðsson í gær sem vildi ekki tjá sig um grein Soffíu að öðru leyti en því að skrif Soffíu væru sjúkleg og skýrsla sérstaks saksóknara frá árinu 2003 um málið hreinsaði hann.

DV fékk þessa skýrslu í hendur í gær en hefur ekki lesið hana í kjölinn. Hún varðar rannsókn á tildrögum þess að stytta af manni sem á að hafa hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni í Keflavík kvöldið örlagaríka (19. nóvember 1974) líktist Magnúsi Leópoldssyni, sem sat um margra mánaða skeið í gæsluvarðhaldi vegna málsins en var síðan hreinsaður af öllum grun. Í frétt DV í gær segir:

„Í skýrslunni er rakin nokkuð flókin atburðarás sem leiddi til gerðar leirstyttunnar en styttan átti að vera af manni sem á að hafa hringt heim til Geirfinns að kvöldi 19. nóvember 1974 og fengið hann til fundar við sig. Í bókinni Leitin að Geirfinni eru færð rök fyrir því að umræddur maður, sem fékk að nota símann í Hafnarbúðinni þetta kvöld, hafi ekki verið að hringja í Geirfinn, hafi ekkert vitað um hann og hafi verið í allt öðrum erindagerðum í Keflavík, en um var að ræða aðkomumann.“

Ekki eru í skýrslunni gerðar alvarlegar athugasemdir við Keflavíkurrannsóknina sem slíka en Sigurður Björgvin segir skýrsluna vera óviðkomandi hans afhjúpunum og að Valtýr veifi fölsku tré þegar hann ber hana fyrir sig sem sönnun á vammleysi sínu í málinu:

„Þessi skýrsla inniheldur enga hreinsun á honum varðandi yfirhylmingu í málinu vegna þess að þessi rannsókn snerist ekki um yfirhylmingu í málinu. Hún getur ekki hreinsað hann af því sem hún fjallar ekki um. Hann gæti alveg eins veifað ljósritunarpappír. Hann hefur verið að halda erindi um Geirfinnsmálið og veifað þessum pappírum og fólk heldur að hann sé með þarna í höndunum einhverjar upplýsingar sem skipta máli en það eru bara ósannindi,“ segir Sigurður Björgvin.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu
Fréttir
Í gær

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“
Fréttir
Í gær

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang
Fréttir
Í gær

Sviku fé af móður með því að panta vörur á Temu á kortinu hennar – „Engar sannanir fyrir því að mamma hafi auðkennt þetta“

Sviku fé af móður með því að panta vörur á Temu á kortinu hennar – „Engar sannanir fyrir því að mamma hafi auðkennt þetta“