fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Fréttir

Matvælafyrirtæki sagt hafa margsinnis brotið gegn reglum um dýravelferð

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 28. ágúst 2025 18:30

Eftir 42 skipti sektaði Matvælastofnun fyrirtækið þegar það hengdi í 43. sinn slasaðan alifugl upp á sláturlínu. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matvælaráðuneytið hefur staðfest niðurstöðu Matvælastofnunar í máli ónefnds aðila, en af samhengi úrskurðar ráðuneytisins má ráða að þar sé vart um annars konar aðila að ræða en matvælafyrirtæki. Fyrirtækið var sektað á síðasta ári fyrir að hafa við slátrun hengt alifugl með opið beinbrot upp á sláturlínu og þannig framlengt dauðastríð hans og brotið þar með gegn reglum um dýravelferð og slátrun alifugla. Kemur fram að stofnunin hafi skráð sambærileg atvik hjá fyrirtækinu í 42 skipti áður en loks sekt var lögð á það en hún nam 150.000 krónum.

Í kærunni til ráðuneytisins krafðist fyrirtækið ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar. Sektin var lögð á eftir að eftirlitsdýralæknir varð vitni að því í janúar 2024 að lifandi alifugl með sjáanlega opið vængbrot var hengdur upp á sláturlínu hjá fyrirtækinu. Í bréfi Matvælastofnunar til fyrirtækisins, þar sem tilkynnt var um sektina, kom fram að sambærileg atvik hjá fyrirtækinu hafi verið skráð í 42 skipti á árunum 2022 og 2023. Sagði stofnunin þetta vera brot á lögum um velferð dýra, reglugerð um velferð alifugla og reglugerð um vernd dýra við aflífun. Minnti stofnunin fyrirtækið enn fremur á að það hefði árið 2022 verið varað við því að ef ekki yrði bætt úr þessu yrði stjórnvaldssekt lögð á það.

Sögðust ekki hafa séð það

Fyrirtækið mótmælti sektinni á þeim grundvelli að það hefði ekki brotið reglur um velferð dýranna. Starfsmönnum þess hafi einfaldlega yfirsést að umræddur fugl hafi verið sjáanlega slasaður. Vildi fyrirtækið meina að raunar hafi meiðsl fuglsins ekki verið vel sýnileg eins og Matvælastofnun héldi fram.

Stofnunin hafnaði þessu og sagði það brjóta gegn áðurnefndum reglum að hengja slasaða fugla sem enn væru lifandi upp á sláturlínu og framlengja með þeim hætti dauðastríð þeirra og gera það sársaukafyllra en ella. Það væri á ábyrgð fyrirtækisins að fara eftir reglunum og sjá til þess að starfsmenn þess hefðu góða yfirsýn yfir sláturlínuna. Sagði stofnunin að ætla mætti að þetta hefði gerst oftar en í þau 42 skipti sem skráð hefðu verið og í því tilviki sem sektað var fyrir.

Hvernig hann snýr

Vísaði fyrirtækið í kæru sinni til ráðuneytisins að eitt helsta vandamál þess við slátrun alifugla væri að það gæti verið erfitt að sjá hverjir þeirra séu slasaðir vegna þess hvernig þeir snúi þegar koma inn á sláturlínuna. Taldi fyrirtækið að Matvælastofnun hefði að ósekju sakað starfsmenn þess um að hafa vísvitandi látið sjáanlega slasaða fugla heyja dauðastríðið sárkvaldir, án þess að gera nokkuð í því, þvert á móti þá væru fuglar sem starfsmenn tækju eftir að væru slasaðir fjarlægðir af línunni eða aflífaðir þegar í stað.

Vildi fyrirtækið meina að fugl sem sé með sár eða beinbrot á innanverðum væng geti ekki verið sýnilega særður fyrir starfsmönnum þó að áverkinn verði hugsanlega sýnilegur öðrum aðila sem skoði fuglinn síðar þegar vængir séu opnir og snúi að viðkomandi.

Má ekki vera of bjart

Andmælti fyrirtækið því að það gæti bætt yfirsýn starfsmanna yfir sláturlínuna meðal annars með því að hægja á henni. Það væri einfaldlega ekki hægt því þá myndu fuglarnir hanga of lengi á línunni áður en þeir væru rotaðir. Hugmynd stofnunarinnar um bætta lýsingu stæðist heldur ekki þar sem það myndi auka stress og kvíða í fuglunum og heldur ekki hjálpa starfsmönnum að sjá brot eða sár á innanverðum vængjum,

Fyrirtækið var einnig ósátt við að Matvælastofnun hefði ritað skýrslu vegna málsins á ensku og þau orð í sektarákvörðuninni að ætla mætti að fleiri fuglar, en bara þeir sem skráðir hefðu verið, hafi verið hengdir slasaðir upp á sláturlínuna.

Matvælastofnun stóð í andsvörum sínum föst á því að í umrætt skipti, sem sektað var fyrir, hefði fyrirtækið brotið gegn áðurnefndum lögum og reglugerðum um dýravelferð. Þetta hafi þar auki gerst í 42 önnur skipti áður en sektin var lögð á.

Stofnunin sagði ósamræmi í andmælum fyrirtækisins. Það segði starfsmenn ekki hafa séð að umræddur fugl væri slasaður og vegna aðstæðna væri oft erfitt að sjá það á fuglunum hvort þeir væru með brot eða sár en það segði á hinn bóginn að í janúar og febrúar 2024 hafi það aflífað 1.249 fugla sem hafi verið sjáanlega særðir og því ekki verið hengdir upp á sláturlínuna.

Fá ekki Íslendinga

Stofnunin sagði kvörtun fyrirtækisins um að skýrsla vegna málsins hefði verið rituð á ensku vera réttmæta en helsta ástæðan væri sú að allir eftirlitsdýralæknar væru erlendir þar sem íslenskir dýralæknar fáist ekki til þessara starfa. Öll samskipti við fyrirtækið hafi þó farið fram á íslensku nema að frávikaskýrsla, sem rituð var á ensku, hafi verið afhent samdægurs. Sagði stofnunin það of mikla fyrirhöfn að þýða þá skýrslu og ætla mætti að þeir sem þyrftu að lesa hana skildu ensku.

Stofnunin stóð einnig fast við þau orð að ætla mætti að það hefði gerst oftar en í þessi samtals 43 skráðu skipti að slasaðir fuglar hefðu verið hengdir á sláturlínu fyrirtækisins.

Fyrirtækið gerði margvíslegar athugasemdir við andsvör Matvælastofnunar. Það upplýsti að það hefði ákveðið að bæta ástandið með því að fjárfesta í nýjum búnaði til slátrunarinnar. Það andmælti því að misræmi væri í andmælum þess. Starfsmenn hengdu ekki fugla upp á sláturlínu ef það sæist að þeir væru slasaðir ef það sæist ekki færu þeir upp á línuna. Það væri heldur ekki eðlilegt að nota ensku sem aðalmál enda væru starfsmenn og eftirlitsdýralæknar yfirleitt ekki með það tungumál að móðurmáli og í skýrslum væri oftast notað sérhæft mál sem ekki væri gefið að allir hlutaðeigandi skildu.

Eigi að sjá

Í niðurstöðu matvælaráðuneytisins segir að gera verði ráð fyrir því að starfsmenn fyrirtækisins, sem vanir séu að meðhöndla dýrin, sjái þegar fugl með opið beinbrot sé hengdur upp á sláturlínu. Ekki sé um innri meiðsl að ræða og verði að telja að dýr með opið beinbrot teljist sýnilega sært. Vísar ráðuneytið einnig til hinna 42 atvikanna sem skráð hafi verið og viðvörunarbréfsins sem Matvælastofnun sendi fyrirtækinu.

Stofnuninni hafi því verið heimilt að sekta fyrirtækið enda hafi það brotið gegn lögum um velferð dýra, reglugerð um velferð alifugla og reglugerð um vernd dýra við aflífun.

Hvað varðar athugasemdir um enskunotkun segir ráðuneytið það meginreglu að nota íslensku í opinberum málum en heimilt sé að víkja frá því við sérstakar aðstæður. Það verði ekki séð að skýrslan sem rituð var á ensku hafi haft sérstök áhrif á niðurstöðu málsins. Ráðuneytið gagnrýnir hins vegar Matvælastofnun fyrir að nota orðalagið að leiða megi líkum að því að tilvikin um slasaða fugla á sláturlínunni hafi verið fleiri en þau sem skráð voru. Stofnunin eigi að halda sig við staðreyndir sem byggi á gögnum en ekki varpa fram getgátum en málsmeðferðin var að öðru leyti staðfest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Rússar réðust grimmilega á Úkraínu í nótt

Rússar réðust grimmilega á Úkraínu í nótt
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Carol handleggsbrotnaði á fyrsta degi Íslandsheimsóknar – Bjargvætturinn Þór bar hana af fjallinu

Carol handleggsbrotnaði á fyrsta degi Íslandsheimsóknar – Bjargvætturinn Þór bar hana af fjallinu
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Björgunarsveitir kallaðar út í gærkvöldi: Villtur í óbyggðum og rafhlaðan við það að tæmast

Björgunarsveitir kallaðar út í gærkvöldi: Villtur í óbyggðum og rafhlaðan við það að tæmast
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Segir Valtý hafa ætlað að fela sannleikann í stærsta sakamáli Íslandssögunnar – „Banamaður Geirfinns hafði hreðjatak á þér“

Segir Valtý hafa ætlað að fela sannleikann í stærsta sakamáli Íslandssögunnar – „Banamaður Geirfinns hafði hreðjatak á þér“
Fréttir
Í gær

Þorsteinn sendir Snorra væna pillu: „Hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins“

Þorsteinn sendir Snorra væna pillu: „Hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins“
Fréttir
Í gær

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig