Íslendingar hafa löngum kvartað yfir skorti á sólarljósi á Íslandi og líta eflaust margir hverjir þannig á að ekki þurfi að gera neinar sérstakar varúðarráðstafanir vegna sólarinnar hér á landi. Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarvæðinu kemur hins vegar fram að það sé ekki alls kostar rétt og rakin eru nýleg dæmi um elda sem hafa kviknað af völdum sólarinnar.
Í tilkynningunni segir að nýverið hafi kviknaði eldur í húsi í Reykjavík þar sem eldsupptök hafi verið með slíkum hætti að ástæða sé til að vara við þeim. Segir svo frá atburðinum:
„Þetta var á sólskinsdegi, en vatnsfyllt glerkúla var í glugga hússins og á hana skein sólin. Við það myndaðist brennipunktur á hillu, rétt innan við gluggakistuna, sem á var tuska og í framhaldinu kviknaði í henni. Í þessu tilviki fór frekar vel og ekki hlaust af mikið tjón, en mál sem þessi koma annað slagið á borð lögreglu sem rannsakar eldsupptök þegar svo ber undir.“
Í tilkynningunni er tekið annað dæmi en þá skein sól inn um glugga húss og á snyrtispegil á sófaborði og við það myndaðist brennipunktur í setu stóls í herberginu. Úr varð eldur, sem koðnaði niður, en þar voru allir gluggar lokaðir á mannlausu heimili.
Segir lögreglan að lokum að með vísan til þessara atvika sé fólk minnt á að vanmeta ekki íslenska sólarljósið, sem geti sannarlega kveikt eld við ákveðnar aðstæður. Loks er fólk hvatt til að huga að hlutum í gluggum og innan þeirra í þessu samhengi þar sem eldhætta geti orðið.