Þetta segir Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar gerir hann málefni stærstu skiptistöðvar landsins, Mjóddina, að umtalsefni.
„Eitt af því er hræsnin sem fylgir því að hlusta á orðagjálfur þeirra sem segjast vilja eyða miklu skattfé í að bæta almenningssamgöngur en á sama tíma hafa sömu aðilar látið stærstu skiptistöð landsins, Mjóddina, grotna niður.“
Helgi bendir á að frá árinu 2015 hafi rekstur skiptistöðvarinnar verið á ábyrgð Reykjavíkurborgar og á undanförnum áratug hafi torgagerð í miðborginni, sem kostað hefur offjár, verið í lagi. Á sama tíma hafi ekki mátt eyða broti af þeim fúlgum til að bæta ástandið í Mjóddinni.
„Þetta ástand er niðurlægjandi fyrir Breiðholt sem hverfi og móðgun við þá sem nota fjölförnustu skiptistöð Íslands,“ segir hann.
Hann segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki gengið fyrir borgina að reka skiptistöðina í Mjóddinni með viðunandi hætti. Þannig hafi útboðsleiðin ekki gengið upp.
„Útkoman er meðal annars sú að mikill farþegafjöldi skiptistöðvarinnar breytir því ekki að salerni stöðvarinnar eru jafnan lokuð. Það er takmörkuð eða engin þjónusta í boði fyrir farþega. Innanhúss er húsbúnaður rýr í roðinu, gólfefni illa farið og á lóð skiptistöðvarinnar eru gangstéttarhellur margar hverjar mölbrotnar. Afgreiðslutími stöðvarinnar hefur að meginstefnu ekki fylgt sama tíma og aksturstíma strætó. Öryggisgæsla er lítt sjáanleg, jafnvel þótt full þörf væri á,“ segir hann.
Helgi rifjar upp að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi um margra ára skeið lagt fram tillögur með það að marki að bæta ástandið í Mjóddinni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi skollaeyrum verið skellt við þeim tilraunum og bendir hann á nokkur dæmi um það.
„Það er svo margt sem hægt er að gera betur í rekstri Reykjavíkurborgar. Knýjandi þörf er á að breyta forgangsröðun í rekstrinum. Verja þarf takmörkuðu fjármagni borgarsjóðs í þágu grunnþjónustu. Skiptistöðin í Mjódd á að gegna veigamiklu hlutverki í slíkri grunnþjónustu. Sé eitthvað að marka orðagjálfur þeirra, sem telja mikilvægt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þá þarf að grípa núna til aðgerða svo bæta megi skiptistöðina í Mjódd.“