Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri Samtakana ’78 og bæjarfulltrúi í Garðabæ, segir Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins vera vorkunn, því hvernig ætti hann að skilja veruleika og þróun sem hann upplifir ekki sjálfur, sérstaklega þar sem hann kjósi að trúa ekki sögum hinsegin fólks og áhyggjum þeirra, þrátt fyrir að segjast umburðarlyndur.
„Hvaða bakslag? Þegar hinsegin fólk segir frá því að það hafi mætt meiri fordómum og andúð á undanförnum árum eru viðbrögð misjöfn. Frá þeim hluta samfélagsins sem annað hvort sér ekki eða vill ekki horfast í augu við vandann eru þau tvenns konar. Annars vegar „það er ekkert bakslag“ og hins vegar „bakslagið er ykkur sjálfum að kenna.“ Það sem oft fer ósagt með síðari viðbrögðunum er „og þið eigið það skilið.““
Rekur Þorbjörg að Snorri hafi nýlega skipað sér í báða þessa flokka í hlaðvarpsþættinum Ein pæling. Þar hafi Snorri í samtali sínu við Þórarin Hjartarson gert lítið úr bakslaginu í réttindabaráttu hinsegin fólks, „gagnrýnir hugtakið „hinsegin“ og virðist líta svo á að „glæný hugmyndafræði“ (þ.e. sýnileiki trans fólks) og viðbrögð fólks við henni sé það sem hafi breyst í samfélaginu. Svo ég einfaldi þessi ummæli: Aukin andúð í samfélaginu er, með öðrum orðum, okkur sjálfum að kenna.“
Sjá einnig: Snorri ósáttur við hugtakið hinsegin fólk og segir ekkert bakslag í gangi
Þorbjörg segir að þingmanninum er sjálfsagt vorkunn.
„Hvernig ætti hann að skilja veruleika eða gera sér grein fyrir þróun sem hann upplifir ekki sjálfur? Sérstaklega þegar hann, umburðarlyndur að eigin sögn, trúir greinilega ekki sögum hinsegin fólks og áhyggjum. Maður sem telur að eftirspurn sé eftir hans sjónarmiði í umræðum um hugtakið „hinsegin“, sem hafa staðið í aldarfjórðung innan okkar eigin samfélags. Hvernig á einstaklingur, sem lítur á hlutverk karla og kvenna sem ásköpuð og nánast heilög, að skilja hvað það þýðir að eiga til eitt orð til þess að lýsa þeim fjölbreytta hópi fólks sem einmitt brýtur gegn þeim normum?“
Segir Þorbjörg í löngum pistli sínum að þetta hafi verið útúrdúr og efni í annan pistil. Ætlun hennar sé að ræða um bakslagið og ekki síst að útskýra hvers vegna orð Snorra Mássonar byggja, í besta falli, á djúpri vanþekkingu á málaflokknum.
Þorbjörg segir vinsælt hjá ákveðnum hópi fólks að kenna hinsegin réttindabaráttu um ofbeldið og aðkastið sem einstaklingar hinsegin samfélagsins verða fyrir. Samkvæmt þeirri hugsun séu þau of sýnileg, of kröfuhörð, barátta þeirra hefur skilað of miklum árangri. „Lög um kynrænt sjálfræði, sem voru reyndar samþykkt án mótatkvæða á Alþingi 2019, voru bara of stór biti fyrir meirihlutasamfélagið að kyngja.
Meikar sens, ekki satt? Ég skil alveg að þetta geti verið niðurstaða þeirra sem ekki þekkja til. Það vill bara svo til að á heimsvísu skiptir það engu máli hversu langt baráttan hefur náð á hverjum stað, andúð hefur aukist og sótt er að réttindum hinsegin fólks algjörlega óháð því hversu langt þau eru komin. Í þeim löndum sem baráttan hefur náð lengst er trans fólk í skotlínu opinberrar umræðu, á öðrum stöðum eru það hommar og lesbíur. Það sem hins vegar er sammerkt með þeim löndum sem hafa gengið hvað lengst í að takmarka réttindi hinsegin fólks er niðurbrot lýðræðis og tjáningarfrelsis. Skýrsla eftir skýrslu birtist um vel fjármagnaða baráttu gegn réttindum okkar, sem vill svo til að er fjármögnuð samhliða baráttu gegn réttindum kvenna. Peningarnir koma frá Kreml og bandarísku ofsatrúarfólki.“
Þorbjörg snýr sér aftur að Snorra og segir orð hans um að barátta hinsegin fólks snúist um einhverja „hugmyndafræði“ dæmi um afmennskandi orðalag sem vegur að grundvallarréttindum fólks. Segir hún Pólverja þekkja þessa hugtakanotkun vel. Árið 2019 hafi sveitarfélög víða í Póllandi farið að merkja sig sem „svæði án hinsegin hugmyndafræði“og fylgdt þar með fordæmi rússneskra sveitarfélaga sem gerðu slíkt hið sama frá árinu 2006 þar til lög gegn „hinsegin áróðri“ voru sett árið 2013.
„Bandaríkjaforseti talar aftur á móti einungis um kynjahugmyndafræði, woke, og DEI þegar hann tekur réttindi af trans fólki og skerðir akademískt frelsi, enda þorir hann ekki ennþá að ráðast með beinum hætti að réttindum homma og lesbía. Þar fylgir hann fordæmi Viktors Orbán, sem hóf sína vegferð á því að banna kynjafræði í háskólum árið 2018 og tók svo öll réttindi af trans fólki til réttrar kynskráningar árið 2020, en hefur nú bannað Pride (og allan sýnileika, og ættleiðingar, og samkynja hjónabönd).
Vladimir Pútín, Viktor Orbán, Andrzej Duda, Donald Trump, Snorri Másson. Snorri apar orðalag upp eftir helstu afturhaldsöflum okkar heimshluta og málar það upp sem hugrekki til að ögra. Gerir hann sér grein fyrir því að hann hljómar eins og rússneskur botti?
Áfangastaðurinn er veiking lýðræðis, farartækið eru réttindi minnihlutahópa.“
Þorbjörg segir að fyrstu merki þess að fordómar gegn hinsegin fólki væru að aukast aftur hér á landi hafi birtst í grunnskólum. Í kringum heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi Samtökunum ‘78 farið að berast sífellt fleiri beiðnir frá skólafólki um aðstoð vegna fordóma meðal nemenda, sem létu þá bitna á hinsegin samnemendum sínum með ömurlegum afleiðingum. „Oftar en ekki komu foreldrar af fjöllum, barnið þeirra hafði sannfærst af samsæriskenningum og áróðri gegn hinsegin fólki á TikTok. Á svipuðum tíma var stofnað á Íslandi félag gegn réttindum trans fólks. Strax þá fórum við í Samtökunum ‘78 að vara við bakslagi.“
Í dag fimm árum seinna verði hinsegin fólk og jafnvel fólk sem styður hin segin samfélagið fyrir aðkasti og skemmdarverkum. „Foreldrar mæta í skóla og taka myndir af fræðsluefni eða fánum og saka kennara barna sinna um tælingu eða barnaníð. Regnbogafánar eru teknir niður fyrir utan fyrirtæki og stofnanir og íbúðarhúsnæði.“
Segist Þorbjörg muna eftir að hafa heyrt af slíkum tilvikum í Noregi fyrir nokkrum árum og hugsað með sér hvað það væri nú fjarstæðukenndur veruleiki. Gleymum því aldrei: Þetta er og á að vera fjarstæðukenndur veruleiki segir Þorbjörg.
„Strákar í grunn- og framhaldsskóla tjá andúð gagnvart trans fólki, samkynhneigðum og tvíkynhneigðum í könnunum. Skólafólk víða segir okkur frá vanlíðan nemenda sinna og að börn og ungmenni séu hætt að þora að koma út sem hinsegin eins snemma og þau gerðu áður.
Hatursfull umræða hefur venjuvæðst í kommentakerfum á samfélagsmiðlum sem fjölmiðlar neita að bera siðferðislega ábyrgð á. Á Facebook skrifar fullorðna fólkið sem er orðið svo heilaþvegið af samsæriskenningum að það telur að það sé eðlilegt að saka annað fólk að ósekju um ofbeldi gegn börnum. Á meðan hanga ungu strákarnir á nafnlausum reikningum á TikTok og segja okkur í Samtökunum ‘78 að drepa okkur við hvert myndband sem við birtum.“
Þorbjörg segir að það sé hætt að koma Samtökunum ´78 á óvart að hinsegin fólk verði fyrir líkamsárásum, en á síðasta ári var tilkynnt um sjö slíkar til samtakanna. Hún segir lögregluna einnig nema aukningu í sínum skráningum og hafa gripið til þess að þjálfa sitt fólk sérstaklega í að taka á slíkum glæpum.
„Fólk verður fyrir áreitni í almannarýminu: Hinsegin fólk, börn hinsegin fólks og fólk sem sýnir stuðning sinn með sýnilegum hætti verður fyrir barðinu á fordómafullum einstaklingum sem telja sig vera að vernda börn eða vilja einfaldlega gera lítið úr hinsegin fólki. Fyrir skömmu króaði fullorðinn maður ung börn hinsegin foreldra af í strætó til þess að segja þeim á ógnandi hátt að fáninn sem þau héldu á væri satanískur áróður.
Samhliða hefur landslagið breyst á stjórnmálasviðinu. Lýðræðisflokkurinn talaði í aðdraganda síðustu alþingiskosninga beint gegn sértækri heilbrigðisþjónustu fyrir trans börn og ungmenni, fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka til þess að setja sig upp á móti áunnum réttindum hinsegin fólks. Miðflokkurinn talaði á sama tíma af krafti gegn því sem þau kalla vók, túlki það hver sem vill, og nú kemur þingmaður þeirra fram og gerir lítið úr bakslaginu í réttindabaráttu hinsegin fólks og talar um hugmyndafræði af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Það er furðulegt að það þurfi að segja það aftur og aftur, en umræða sem byggir á lygum og fyrirlitningu ratar á endanum inn í daglegt líf fólks. Helstu gerendur í þessari ömurlegu umræðu ganga meira að segja svo langt að saka Samtökin ‘78 um að ljúga til um það sem fólk hefur orðið fyrir. Ætli það sé ekki auðveldara að telja sér trú um það en að horfast í augu við eigin þátt í stöðu mála.
Íslenskur karlmaður var fyrir ári síðan dæmdur fyrir að skrifa að það ætti að „hengja og afhausa“ fólkið í Samtökunum ‘78. Stundum velti ég fyrir mér: Hvað þarf eiginlega að gerast til þess að fólk taki áhyggjur okkar alvarlega?“
Vísar Þorbjörg þar til dóms Héraðsdóms Norðurlands í október í fyrra þar sem Adolf Bragi Hermannson var sakfelldur fyrir að smána og ógna opinberlega Samtökunum 78, félagsmönnum í samtökunum og fólki sem styður samtökin. Ummæli sín lét hann falla á Facebook-síðu sinni. Adolf játaði sök og fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm.
Sjá einnig: Adolf sakfelldur fyrir að smána og ógna Samtökunum 78 – „Þið verðið drepin“
Þorbjörg segir að ótal tilraunir hafi verið gerðar í gegnum söguna til þess að ýta hinsegin fólki inn í skápinn, út úr opinberu rými og jafnvel samfélögum.
„Það hefur aldrei tekist, ekki til lengdar. Við erum til staðar í öllum löndum, öllum samfélögum. Tilvist okkar er hluti af náttúrulegri fjölbreytni mannkynsins. Það eina sem samfélög þurfa að gera upp við sig er hvort þau ætla að samþykkja okkur eða kúga okkur.
Hér á Íslandi höfum við notið þess að komast mjög nálægt lagalegu jafnrétti og höfum getað treyst á þverpólitíska samstöðu með baráttu okkar. Langstærstur hluti samfélagsins stendur með hinsegin fólki og baráttu okkar fyrir því að fá að lifa lífinu frjáls frá aðkasti og fordómum.
Ég treysti því að þessi yfirgnæfandi meirihluti standi áfram vörð um réttindi okkar og verji þau á opinberum vettvangi. Byrjum á því að trúa ekki þeim sem reyna að halda því fram að „það sé ekkert bakslag“.“