Karlmaður á fimmtugsaldri, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í tengslum við þjófnað á hraðbanka í Mosfellsbæ í síðustu viku, var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu, eða til 24. september, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn hefur játað sök sína og gengur rannsókn lögreglunnar á málinu vel, eins og segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Hraðbankinn fannst í umdæminu í fyrradag með peningana innanborðs. Fólksbifreið sem leitað var að í þágu rannsóknarinnar er sömuleiðis fundin.
Við rannsókn málsins hafa borist ýmsar ábendingar, ekki síst myndefni frá almenningi, og fyrir það vill lögreglan þakka sérstaklega.