Hópur ungmenna á aldrinum 16-19 ára sem starfaði nú í sumar í Jafningafræðslu Hins Hússins mætti í gær á fund skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar og kynnti fyrir ráðinu niðurstöður sínar eftir samtöl hópsins við fjölda ungmenna á aldrinum 13-16 ára, sem voru nemendur í Vinnuskóla borgarinnar í sumar. Ungmennin í Jafningafræðslunni höfðu raunar áður greint frá niðurstöðum sínum opinberlega en þau hafa komist því að mikil netnotkun er farin að hafa mjög skaðleg áhrif á samskiptafærni yngri aldurshópsins og telja þau samfélagið þegar farið að þróast í hættulegar áttir af þessum völdum. Borgarfulltrúar úr meirihluta borgarstjórnar sögðu á fundinum niðurstöðurnar fela í sér viðvaranir sem verði teknar alvarlega.
Í minnisblaði hópsins, sem starfaði í Jafningjafræðslunni, er tekið var saman í liðnum mánuði segir að í hópnum hafi verið 15 ungmenni á aldrinum 16-19 ára. Hópurinn hafi farið um alla borg til að kynnast ungmennum í vinnuskólanum sem öll eru á aldrinum 13-16 ára. Alls ræddi hópurinn við 1300 krakka. Í minnisblaðinu segir síðan:
„Það sem okkur finnst vera mest áberandi er að það er mikill skortur á raunverulegum persónulegum tengslum, krakkar eru ekki að hittast, spjalla og kynnast hvort öðru í eins miklum mæli og þörf væri fyrir. Þetta leiðir til meiri einmanaleika, verri líðanar og skorts á samskipta- og tilfinningafærni. Þetta teljum við vera grunnvandann sem margt sprettur að miklu leyti upp úr, þessum skorti á félagslegum tengslum.“
Hópurinn segir að það sem hafi komið einna helst á óvart í þessum samtölum við yngri aldurshópinn sé hversu algengt sé að unglingsdrengir spili fjárhættuspil. Í nánast hverjum hópi sem rætt var við hafi verið nokkrir strákar sem héldu því fram að fjárhættuspil væru sniðug. Hópurinn hafi rætt þetta við fíknisérfræðing frá SÁÁ sem lýst hafi yfir miklum áhyggjum af fjárhættuspilum ungmenna, hafi viðkomamdi sagt að fólki sem leitar til samtakanna vegna spilafíknar sé að fjölga verulega:
„Fólk virðist ekki átta sig á því hversu ávanabindandi þetta er í raun og veru,“ segir enn fremur í minnisblaðinu um fjárhættuspil.
Ungmennin segja síðan í minnisblaðinu þessa síauknu áherslu á netsamskipti í stað samskipta í eigin persónu eiga mjög stóran þátt í þeirri pólitísku skautun sem sé að eiga sér stað í samfélaginu. Bergmálshellar myndist víða þar sem maður rekist aldrei á neinn sem hafi aðrar skoðanir en maður sjálfur. Segist hópurinn hafa tekið eftir bakslagi meðal ungmenna þegar kemur að réttindabaráttu kvenna, hinsegin fólks og fólks af erlendum uppruna.
Minnisblaðið var síðan lagt fram á fundi skóla- og frístundaráðs gær og hluti hópsins mætti á fundinn til að kynna niðurstöður sínar.
Í bókun fulltrúa flokka meirihlutans í borgarstjórn, í þessu tilfelli frá Samfylkingu, Pírötum, Flokki fólksins og Vinstri grænum, sem lögð var fram á fundinum segir meðal annars að viðhorf í netheimum geti verið í andstöðu við það sem talið sé æskilegt og valdið því að ómótaðir unglingar fái óæskilegar hugmyndir um jafnréttismál kvenna, hinsegin fólks og fólks af erlendum uppruna. Það sé mjög mikilvægt að hlusta og taka mark á ábendingum ungmennanna sem hafi starfað við Jafningjafræðslu Hins Hússins:
„Við þurfum að taka þessar viðvörunarbjöllur alvarlega og vinna gegn þessari þróun, til dæmis með auknu forvarnarstarfi og með því að auka fræðslu í tækni- og upplýsingalæsi.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku ekki jafn djúpt í árinni í sinni bókun en þökkuðu ungmennunum í Jafningjafræðslunni fyrir starf sitt. Segir í bókuninni að það sé ljóst að unglingar í dag glími við margar áskoranir og sé þakkarvert að starfi Jafningjafræðslunnar sé sinnt af eldmóði, með hag ungmenna að leiðarljósi. Með því móti aukist líkur á að hver og einn einstaklingur geti fundið sína hillu í lífinu.
Fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðinu þakkaði ungmennunum einnig fyrir og sagði í sinni bókun að bregðast þyrfti við þeim þáttum sem hópurinn benti á að brynni á unglingum í dag. Mikilvægt sé að styrkja starf jafningjafræðslu þannig að unglingar í hverju og einu hverfi borgarinnar fái fræðslu sem sé í takt við samtímann.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva lagði einnig fram bókun á fundinum. Hann sagði mikilvægt að hlusta á það sem fram hafi komið í samtölum Jafningjafræðslunnar við unglingana. Félagsmiðstöðvar væru staðir þar sem félags- og tilfinningahæfni sé þjálfuð og unglingar fái tækifæri til að fóta sig áfram í samskiptum við fjölbreyttan unglingahóp undir handleiðslu fagfólks. Félagsmiðstöðvar vinni eftir menntastefnu, stefnu um frístundastarf og forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar. Mikilvægt væri því að skoða það að auka aðgengi og opnunartíma félagsmiðstöðva og veita þannig unglingum vettvang til að vaxa.