Lúkas Geir Ingvarsson var annar í vitnastúku í Gufunesmálinu. Lúkas er, rétt eins og þeir Stefán Blackburn og Matthías Björn Erlingsson, ákærður fyrir manndráp, frelsissviptingu, rán og tilraun til fjárkúgunar. Upphaflega neitaði hann sök í öllum ákæruliðum en við upphaf aðalmeðferðar játaði hann frelsissviptingu og rán.
Stefán lýsti því að Lúkas Geir hefði skipulagt aðgerðina gegn Hjörleifi en hann sjálfur hafi bara skipulagt aðgerðir eftir að Hjörleifur var kominn inn í bílinn hjá þeim í Þorlákshöfn. Sagði hann að Lúkas Geir hefði verið í samskiptum við Hjörleif í gegnum Snapchat þar sem hann þóttist vera stúlka undir lögaldri sem hefði áhuga á að hitta Hjörleif.
19 ára stúlka er ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni fyrir að hafa lokkað Hjörleif út í bíl til Stefáns og Lúkasar Geirs. Samkvæmt vitnisburði Stefáns var hlutdeild hennar í málinu mjög lítil eða aðeins það að hafa mælt sér mót við hann símleiðis.
Lúkas Geir rak atburðarásina frá sínum sjónarhóli. Hann sagðist hafa verið í sambandi við Hjörleif á Snapchat og þá þóst vera stúlka sem héti Birta Sif. Hann bauð Stefáni að taka þátt í aðgerðinni og hringdi í stúlku og sagði henni að hringja í Hjörleif og mæla sér mót við hann.
Hann lýsti síðan atburðarásinni samhljóða Stefáni, um að Hjörleifur hefði hitt fyrir hann og Stefán, grímuklædda, en ekki stúlkuna, þegar hann kom inn í Tesluna. Þeir hafi síðan keyrt frá Þorlákshöfn vegna ótta við annan bíl sem ók að þeim niðri við bryggju á Þorlákshöfn.
Teslan hafi síðan orðið rafmagnslaus og þá hafi verið haft samband við Matthías sem sýndi fullan áhuga á að taka þátt í brotinu og aðstoða þá félaga.
Hann lýsti lauslega misþyrmingum þeirra gagnvart Hjörleifi og sagði að Matthías og Stefán hefðu tekið þátt í þeim ásamt honum.
Þeir hafi síðan ákveðið að skilja Hjörleif eftir í Gufunesi þar sem líkur væri á því að hann myndi finnast þar. Tóku þeir Hjörleif úr fötunum og skildu hann eftir á nærbuxunum, að sögn bæði Lúkasar Geirs og Stefáns, til að lífsýni þeirra fyndust ekki á fötunum hans. Þeir hentu síðan fötum Hjörleifs í ruslið.
„Mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ sagði Lúkas og sagði að málið hefði haft mikil áhrif á sig, fjölskyldu hans og „allt landið“.
Aðspurður af saksóknara sagði Lúkas Geir að Hjörleifur hefði átt frumkvæðið að Snapchat samskiptum við Birtu Sif, stúlkuna sem hann þóttist vera. Spurður út í hlut stúlkunnar sem hringdi í Hjörleif þá sagðist hann hafa sagt henni að hringja „til að fá kvenmannsrödd“ á Birtu Sif. Aðspurður sagði hann að stúlkan hafi vitað hvað til stóð en hann hafi þó aldrei sagt henni það hreint út.
„Ég kýldi hann í búk og andlit,“ svaraði hann spurningu saksóknara um hvaða ofbeldi hann sjálfur hefði beitt Hjörleif. Hann var spurður hvað mikið ofbeldi hefði átt sér stað áður en Matthías kom á vettvang og sagði að það hefði ekki verið mikið. Aðallega hafi hann verið að spyrja Hjörleif út í bankaupplýsingar og ræða hvernig Hjörleifur „ætti að koma sér út úr þessu“.
Lúkas Geir sagði það vera 100% öruggt að Matthías hafi vitað hvað væri í gangi þegar hann kom á vettvang. Einnig hafi Matthías beitt Hjörleif líkamlegu ofbeldi, meðal annars barið hann með áhaldi. Sagði hann Matthías hafa barið Hjörleif í andlit, búk, fætur og hné.
Hann sagði að ofbeldi Stefáns gegn Hjörleifi hafi aðallega falist í því að brjóta á honum höndina. Eftir það hafi þeir gert sér ljóst að Hjörleifur ætlaði ekki að gefa neitt eftir og myndi ekki veita þeim þær upplýsingar sem þeir kröfðu hann um.
Það var síðan Matthías, samkvæmt Lúkasi Geir og Stefáni, sem hugkvæmdist að stofna nýjan reikning í nafni Hjörleifs (Stefán hafði komist yfir rafræn skilríki hans) og taka þriggja milljóna króna lán í Arion banka í gegnum bankaappið. Það var þannig sem þremenningarnir komust yfir féð sem síðan var millifært inn á reikning ungs pilts sem ákærður er fyrir peningaþvætti. Pilturinn millifærði peningana síðan yfir á reikning Matthíasar.
Aðspurður sagði Lúkas Geir að Hjörleifur hafi verið með meðvitund er þeir skildu hann eftir í Gufunesi en hann hafi ekki getað gengið. Saksóknari spurði hvort hann hafi ekki gert sér grein fyrir hvaða afleiðingar það hefði ef hann yrði skilinn eftir úti á víðavangi í þessu ástandi. Lúkasi varð svarafátt en sagðist ekki hafa átt von á því að þetta ylli bana Hjörleifs.
Lúkas Geir sagðist bara hafa fylgt fyrirmælum Stefáns hvað þetta varðaði en honum hafi ekki dottið í hug að Hjörleifur hlyti bana af þessu.
Eins og komið hefur fram hringdi Stefán í eiginkonu Hjörleifs og reyndi árangurslaust að fá hana til að millifæra af reikningi hans þrjár milljónir króna. Lúkas Geir, sem neitað hefur sök varðandi ákæru um tilraun til fjárkúgunar, segist ekki hafa vitað um þetta. Stefán hafi hringt þetta símtal á meðan hann var úti í bíl með Hjörleifi.
Aðspurður sagðist hann ekki vita um þessa tilraun til fjárkúgunar. Hann sagðist ekki vita hvar Matthías var staddur á meðan Stefán hringdi þetta símtal.
Lúkas Geir sagði að markmiðið með aðgerðinni hafi verið að hitta mann sem héldi að hann væri að fara að hitta stelpu undir lögaldri. Markmiðið væri að spila á skömm viðkomandi og hafa af honum fé gegn því að hann yrði ekki afhjúpaður opinberlega. Aldrei hafi verið ætlunin að þetta færi eins og raun varð.
Aðspurður sagðist hann ekki beitt áhaldi við ofbeldið gegn Hjörleifi en Matthías hafi barið hann með áhaldi. Stefán hafi síðan stöðvað þá atlögu Matthíasar.
Aðspurður sagðist Lúkas Geir ekki hafa haft ásetning um að ráða Hjörleifi bana og hann sagðist ekki telja að eitthvert þeirra högga sem hann veitti hafi valdið bana hans.
Lúkas Geir harmaði mjög atvikið sem hann sagði að hefði haft mikil áhrif á sig og fjölskyldu sína. Hann sagði að sér liði hræðilega vegna málsins og þó að hann reyndi að vera jákvæður væri það mjög erfitt.