Helgi Hrafn Gunnarsson fyrrum alþingismaður segir það rangt að halda því fram að Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra tali ekki rétta íslensku. Ráðherrann var harðlega gagnrýndur fyrir málfar sitt í vitali við Bylgjuna en þar sagði hann meðal annars „mér hlakkar til“, „ég vill“ og „einkanir.“ Helgi segir hins vegar að það sé ekkert rangt við málfar ráðherrans og það sé ekkert til sem heiti „rétt íslenska“.
Helgi Hrafn fjallar um málfar Guðmundar Inga í pistli á Facebook. Hann segir sífelldar kvartanir yfir málfari ástæðuna fyrir því að áhugi á því að skrifa og yrkja á íslensku fari sífellt minnkandi:
„Linnulaust væl Íslendinga yfir málfari hvors annars er ein af ástæðum þess að margir ljóða- og textahöfundar hreinlega nenna ekki að skrifa ljóð og texta á íslensku, því þeir vita sem er satt, að það er sífellt verið að hnýta í minnstu smáatriði og frávik í íslensku málfari.“
Helgi hefur kennt íslensku sem annað mál og sökkt sér ofan í þróun tungumála og tengsl þeirra og segir að það sé eitt sem sé ekki á nokkurn umdeilt innan málvísinda:
„Það er ekki til nein „rétt“ íslenska. Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra talar á engan hátt „ranga íslensku“. Þetta eru ekki málvillur. Þetta eru frávik frá þeirri mállýsku sem er náðarsamlegast viðurkennd af ýmsum sjálfskipuðum yfirmönnum íslenskrar tungu.“
Helgi Hrafn víkur því næst máli sínu að orðabókum og segir þess misskilnings gæta að þær séu ígildi laga um merkingu orða. Þær séu aðeins skrásetningartæki:
„Áfram er það mælandinn sjálfur – hver sem hann er – sem ákveður hvað hvert orð þýðir. Þetta er ekki mitt viðhorf, eða mín skoðun, þetta liggur í eðli fyrirbærisins sem tungumál er. Svona virka tungumál í raunveruleikanum, alveg sama hversu vænt fólki þykir um hina eða þessa, stöðluðu mállýskuna.“
Helgi segir það sama eiga við um málfræði. Að segja ég vill og mér hlakkar til sé ekkert vitlaust og í síðarnefnda tilfellinu sé það í raun rökréttara en að fara eftir þeirri málvenju sem talin er sú rétta og segja ég hlakka til:
„„Mér hlakkar“ er reyndar svo algengt vegna þess að það er mun meira í takt við máltilfinningu fólks heldur en málfræðiskrípið „ég hlakka“. Reyndar mætti færa rök fyrir því að„mér hlakkar“ sé réttari íslenska ef viðmiðið er regluleg og rökrétt íslenska, en hún er bara ekki viðurkennd sem slík af ýmsu kennivaldinu. Það er reyndar mjög óvenjulegt og stórfurðulegt að sögnin „að hlakka“ taki með sér nefnifall; þágufall er miklu eðlilegra út frá því hvernig íslenskar tilfinningasagnir virka almennt. Mig langar og mér líkar, en ég hlakka. Af hverju? Af því bara. Vegna þess að tungumál eru skrýtin.“
Helgi Hrafn segir þó að lokum að hann venji sig á að tala staðlaða íslensku og nota hefðbundin föll með hverri sögn. Segja ég vil og ég hlakka til en hans íslenska sé hins vegar ekkert réttari en íslenska Guðmundar Inga:
„Mín íslenska er ekkert betri, hún er bara hefðbundnari í samhengi við það sem hefur verið skrásett. Íslenska ráðherrans er engu verri en mín eða þín.“