fbpx
Þriðjudagur 19.ágúst 2025
Fréttir

Jón Þór fluttur í opið fangelsi – Reyndi að myrða barnsmóður sína á Vopnafirði í fyrra

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 19. ágúst 2025 16:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Dagbjartsson, 56 ára gamall maður, sem hefur nýhafið afplánun á sex ára fangelsisdómi, fyrir meðal annars tilraun til manndráps, verður á morgun fluttur af Litla-Hrauni í opið fangelsi að Kvíabryggju. Barnsmóðir hans, Hafdís Bára Óskarsdóttir, sem varð fyrir grimmdarlegri líkamsárás hans á Hámundarstöðum við Vopnafjörð í fyrra, segist í viðtali við DV hafa brotnað saman er henni bárust þessi tíðindi um síðustu helgi.

Fangelsismálastjóri minnir á að Kvíabryggja er fangelsi þó að um opið úrræði sé að ræða, í svari við fyrirspurn DV um málið.

Sjá einnig: Jón Þór ákærður fyrir manndrápstilraun á Vopnafirði – Áður dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkum á meðferðarheimili

Jón Þór var ákærður fyrir kynferðislega áreitni og húsbrot með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 13. október 2024 farið í heimildarleysi inn á heimili Hafdísar og síðan inn í svefnherbergi hennar þar sem hún var stödd, haldið henni niðri í rúmi hennar, reynt að kyssa hana, káfað á henni og rifið hana úr buxum og nærbuxum, áður en Hafdís náði að ýta honum af sér og koma honum fram á gang í húsinu, og eftir það neitað að yfirgefa heimilið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Hafdísar um það.

Jón Þór reyndi síðan að myrða Hafdísi þremur dögum síðar, síðdegis miðvikudaginn 16. október. Brotið var framið í skemmu við heimili Hafdísar þar sem Jón Þór veittist að henni með rúllubaggateini og notaði hann til að reyna að stinga hana í kviðinn. Hann ýtti við henni þar til hún féll til jarðar og notaði síðan teininn til að þrengja að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún hætti að geta andað og meðvitund hennar skertist. Hlaut Hafdís töluverða áverka af árásinni og var flutt á sjúkrahús á Akureyri.

Misþyrmdi manni á Vopnafirði

Jón Þór var einnig ákærður fyrir líkamsárás á mann á Vopnafirði í nóvember árið 2023. Var hann sakaður um að hafa veitt manninum ítrekuð högg í andlit og líkama, meðal annars með áldós. Hlaut maðurinn umtalsverða áverka af árásinni og var lengi að jafna sig.

Jón Þór var einnig ákærður fyrir vopnalagabrot en um sama leyti og árásin átti sér stað fann lögregla 14 skotvopn við húsleit á heimili hans auk fjölda skotfæra. Hafði hann ekki skotvopnaleyfi og vopnin voru ekki skráð á hann.

Jón Þór á langan brotaferil að baki en þar ber helst að nefna kynferðisbrot sem hann var sakfelldur fyrir árið 2010, gegn stúlkum sem höfðu verið vistaðar á meðferðarheimilinu Árbót, þar sem hann starfaði. Hlaut hann fangelsisdóm fyrir.

Sagður hafa fengið hótanir frá öðrum föngum

„Mann rekur í rogastans við þetta, því þetta er opið fangelsi. Ég hélt að slíkt úrræði væri fyrir menn sem ekki væri talin stafa hætta af,“ segir Hafdís. Hún segist hafa brotnað saman við tíðindin en það var um síðustu helgi. Núna sé hún að rísa upp aftur, „en ég er enn ansi aum,“ segir hún.

Hafdís segist hafa heyrt orðróm um að Jón Þór hefði orðið fyrir hótunum annarra fanga og jafnvel haldið sig til hlés inni á klefa sínum af þeim sökum. Hún vill hins vegar láta þess getið að að hennar mati sé Jón Þór snillingur í því að vefja fólki um fingur sér og afla sér samúðar og velvildar. „Maðurinn er algjört kamelljón. Þetta er eitt stórt leikrit hjá honum,“ segir hún, og segir að fólk, þar á meðal starfsfólk og stjórnendur í fangelsum, þurfi að gæta sín á þessum eiginleikum Jóns Þórs.

„Fyrir mér þá er mjög langt í land með betrun á þessum einstaklingi út frá því sem ég þekki til. Ég veit líka að það hefur verið markmið hans að komast sem fyrst á Kvíabryggju. Þannig heyrðist það fljótt frá honum eftir að hann framdi þennan verknað að hann hefði engar áhyggjur, hann yrði kominn fljótt á Kvíabryggju.

Ég held að það sé runninn upp sá tími að Fangelsismálastofnum þurfi að upplýsa almenning um hvernig fangelsin eru í raun flokkuð. Í huga almennings er Kvíabryggja fangelsi þar sem menn með lítinn sakaferil afplána. Að það sé að minnsta kosti hægt að sýna fram á bót og betrun hjá þeim föngum.“

Hafdís minnir jafnframt á það að mál Jóns Þórs sé enn opið því hann hafi áfrýjað dóminum yfir sér til Landsréttar. Sjálf telur hún að hann hefði að minnsta kosti átt að fá átta ára fangelsisdóm en ekki sex ár. „Ég segi það ekki af neinni hefnigirni. En málið er ekki búið. Það þarf auðvitað að hlúa að föngum eins og öðrum einstaklingum en maður fær samt á tilfinninguna hér að verið sé að vernda fanga betur en almenning.“

Hafdís segist áður hafa gripið til öryggisráðfstafana vegna hættunnar af Jóni Þóri og hún sé að uppfæra enn frekar þær öryggisráðstafanir.

Fleiri ofbeldismenn eru á Kvíabryggju

Birgir Jónasson fangelsismálastjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn DV um málið að einhverjir fangar sem eru að afplána ofbeldisdóma séu vistaðir á Kvíabryggju. Hann segist ekki geta upplýst um fjöldann.

Birgir getur ekki tjáð sig um einstök mál en svaraði spurningum DV á almennum nótum. Aðspurður um hvað valdi því að sakborningar með ofbeldisdóma séu vistaðir í opnu fangelsi eins og Kvíabryggju, svarar hann:

„Kvíabryggja er opið fangelsi en fangelsi engu að síður þrátt fyrir að þar séu engar girðingar eða múrar. Brýnt er að halda því til haga. Það liggja ýmsar ástæður þar að baki. Meginástæðan er sú að stefnt er að því að fangar afpláni í eins skamman tíma í lokuðu fangelsi og unnt er og fylgi svonefndri þrepaskiptri afplánun þar sem upphaf afplánunar er í lokuðu fangelsi, því næst í opnu fangelsi, þá á Áfangaheimili Verndar, svo með rafrænu eftirliti og loks er veitt reynslulausn. Það er langur vegur að þetta gangi alltaf svo fyrir sig og/eða snurðulaust. Þarna að baki liggja enn fremur betrunar-, endurhæfingar- og meðferðarsjónarmið. Almennt gengur hugmyndafræði þessi vel og hlutfall endurkomu í fangelsi hér á landi er lágt miðað við t.d. mörg Evrópulönd.“

Spurður um hvaða ástæður séu fyrir því að fangar séu fluttir úr lokuðu í opið úrræði, svarar Birgir:

„Einkum eru það, sem áður segir, betrunar-, endurhæfingar- og meðferðarsjónarmið. Þar að baki geta enn fremur legið önnur sjónarmið eins og öryggissjónarmið og samsetning fanga innan fangelsanna.“

DV spurði Birgi hvort öryggi almennings (þar á meðal þolenda ofbeldis viðkomandi) sé tekið með í reikninginn við ákvörðun sem þessa. Hann segir svo vera:

„Já, það er tvímælalaust horft til þeirra sjónarmiða við mat á þessu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bensínsprengju kastað í hús í Hafnarfirði

Bensínsprengju kastað í hús í Hafnarfirði
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Krafði leigjandann um himinháa upphæð eftir aðeins fimm mánaða leigutíma – Lagði engar sannanir fram

Krafði leigjandann um himinháa upphæð eftir aðeins fimm mánaða leigutíma – Lagði engar sannanir fram
Fréttir
Í gær

Var á gangi í Osló – Þá hringdi Trump óvænt

Var á gangi í Osló – Þá hringdi Trump óvænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Múlaborgarmálið: Lögregla fundaði með foreldrum og starfsfólki

Múlaborgarmálið: Lögregla fundaði með foreldrum og starfsfólki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona á sjötugsaldri handtekin á Kanaríeyjum eftir að lík manns fannst inni í brunnum sendibíl

Kona á sjötugsaldri handtekin á Kanaríeyjum eftir að lík manns fannst inni í brunnum sendibíl
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““