„Tilkynningin um að Donald Trump og Vladímír Pútín ætli að hittast í Alaska, getur vel verið síðasta aðvörunin til Evrópu – áður en við drögumst inn í stríð við Rússland,“ skrifar hann í grein sem birtist í Expressen.
Í greininni ber hann þennan fyrirhugaða fund saman við svolítið sem lætur kalt vatn renna milli skins og hörunds á mörgum Evrópubúum, það er þeim sem þekkja til forsögu síðari heimsstyrjaldarinnar.
Með München-samningnum, sem var undirritaður 1938, fengu Adolf Hitler og Þýskaland nasista yfirráð yfir hinu iðnvædda Sudeterland sem var þá hluti af Tékkóslóvakíu. Þessi samningur var gerður að Tékkóslóvakíu forspurðri.
Nokkrum mánuðum síðar innlimuðu Þjóðverjar restina af Tékkóslóvakíu og í september 1939 réðust þeir á Pólland og þar með hófst síðari heimsstyrjöldin.
Hedlund segir hættu á að eitthvað svipað þessu gerist nú ef Trump gerir samning, án samráðs við Evrópubúa og ekki síst án þess að hafa Úkraínu með í ráðum, um að stór hluti af austurhluta Úkraínu, þar sem eru miklar náttúruauðlindir og mikill iðnaður, verði hluti af Rússlandi. Þetta virðist vera skilyrði af hálfu Pútíns ef friðarsamningur á að nást.
Hedlund segir að ef þetta verði raunin, geti afleiðingarnar orðið hörmulegar.
„Þetta er einmitt martraðarsviðsmyndin sem margir hafa varað við. Ef Evrópa samþykkir að Úkraína verði neydd til að „semja“ við Trump og Pútín, þá höfum við grafið okkar eigin gröf. Eftir nokkur ár mun Rússland hafa vígvæðst nægilega mikið til að geta lagt restina af Úkraínu undir sig því þar verða ekki lengur traustar varnarlínur. Síðan kemur röðin að okkur.“