fbpx
Miðvikudagur 13.ágúst 2025
Fréttir

Una Margrét slegin óhug vegna greinar blaðamanns Morgunblaðsins – „Hann er, sem sagt, að vara við lýðræðinu“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. ágúst 2025 14:00

Una Margrét Jónsdóttir og Ásgeir Ingvarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarkona á Rás 1 gerir fasisma að umtalsefni í nýjum pistli á Facebook. Hún segir ljóst að fasismi sé á uppleið í heiminum ekki síst í Bandaríkjunum og rekur ýmsar aðgerðir Donald Trump forseta landsins þeim orðum sínum til stuðnings. Una Margrét segist slegin óhug yfir þessari þróun en þó sérstaklega yfir því að meðal Íslendinga séu menn sem styðji það að ýta lýðræðinu til hliðar. Vísar Una Margrét þar einna helst í grein eftir Ásgeir Ingvarsson blaðamann á Morgunblaðinu sem segir meðal annars að lýðræði hægi of mikið á framkvæmdum og að lýðræðið skapi ýmis konar annan vanda og sé oft ekki besta stjórnarfarið til að tryggja góð lífskjör.

Ásgeir skrifar reglulega pistla í viðskiptablað Morgunblaðsins og hefur aldrei farið leynt með hægri sinnaðar skoðanir sínar. Pistilinn sem Una Margét gerir athugasemdir við birtist í blaðinu 6. ágúst síðastliðinn.

Í pistlinum verður Ásgeiri tíðrætt meðal annars um hugtakið ofurlýðræði sem hann skilgreinir á þann hátt að það sé stjórnkerfi þar sem allir hafi neitunarvald en enginn beri ábyrgð. Hugtakið hefur hann frá breskum fjárfesti og fræðimanni. Patrick Boyle. Ásgeir segir ljóst að ofurlýðræðið þvælist fyrir nauðsynlegum framkvæmdum sem séu til þess fallnar að bæta lífskjör. Það gerist með alls konar reglum sem tengist t.d. umhverfisvernd en ofurlýðræðið færi hópum sem vilji stöðva framkvæmdir sama hvað tautar og raular vopn í hendur til að ná markmiðum sínum. Lönd eins og Kína séu þess vegna á meiri hraðferð efnahagslega en Vesturlönd þar sem í Kína sé lýðræði síður að þvælast fyrir.

Lýðræðið heldur öllu föstu

Ásgeir vísar til Frakklands og segir að lýðræði stöðvi alla hagræðingu þar sem muni enda með ósköpum en það hafi einmitt gerst í Argentínu. Hann gerir síðan frekari grein fyrir því sem hann telur vanda lýðræðisins:

„Lýðræðið er vandmeðfarið. Lýðræðinu fylgir ákveðinn stöðugleiki, og fyrirsjáanleiki, en lýðræðissamfélögum virðist líka hætta til að einkennast af æ meiri miðstýringu og skrifræði, og þrengja æ meira að einstaklingnum og atvinnulífinu.“

Ásgeir vitnar í þýskan heimspeking, Hans-Hermanns Hoppes, og segir hann hafa fært góð rök fyrir því að lýðræði leiði óhjákvæmilega til skammtímahugsunar, lýðskrums, lélegrar ákvarðanatöku, hærri skatta, hærri ríkisskulda og minna frelsis fyrir einstaklinginn.

Frjálsari í ófrelsi

Ásgeir segist hafa heimsótt lönd með ólýðræðislegu stjórnarfari og verið ánægður þar:

„Á flandri mínu um heiminn hef ég oft upplifað það að ég get verið frjálsari og notið miklu betri lífskjara í löndum þar sem stjórnarfarið er ekkert sérstaklega lýðræðislegt.“

Segir Ásgeir að lokum að hann telji heppilegast að fólk velji sér hvort það vilji búa í landi með háa skatta og þar með minni eignarrétt og mikið tjáningarfrelsi, með litlum skorðum á lífstíl, eða í landi með lága skatta með litlu pólitísku frelsi. Hann virðist því ekki telja að það gangi upp að hafa laga skátta en mikið pólitískt frelsi.

Una Margrét minnir á í sínu andsvari við grein Ásgeirs að hann hafi löngum kallað sig frjálshyggjumann og þess vegna séu skrif hans þeim mun undarlegri:

„Hverjir eru það hér sem helst hallast að fasisma? Það er nokkuð athyglisvert að það virðast einkum vera menn sem kenna sig við frelsi, svonefndir frjálshyggjumenn.“

Skipti engu máli

Um þeim orð Ásgeir að lýðræðið sé að þvælast of mikið fyrir framkvæmdum segir Una Margrét að hann telji greinilega það fólk sem verði fyrir afar mikilu raski vegna þeirra ekki skipta neinu máli:

„Eins og sjá má gefur Ásgeir sér það að framkvæmdir eins og virkjanir og kjarnorkuver séu alltaf jákvæðar. Hagsmunir „ólíklegustu hópa“, eins og til dæmis fólks sem neytt er til að flytja frá heimilum sínum þegar virkjað er, skipta þá líklega engu máli og best að taka ekkert tillit til þeirra – svo ekki sé nú talað um mál eins og öryggi mannvirkisins eða áhrif þess á náttúru, nú eða bann við því að þrælar séu notaðir við vinnuna.“

Forviða og hrollvekjandi

Una Margrét segist hreinlega slegin yfir þeim orðum Ásgeirs að hann hafi talið sig upplifa meira frelsi og betri lífskjör í löndum með ólýðræðislegu stjórnarfari:

„Þar kom það, harðstjórnin heillar ef maður er í náðinni hjá harðstjóranum. Já, vafalaust getur Ásgeir „notið miklu betri lífskjara“ í löndum þar sem einræði ríkir og mannréttindi eru fótum troðin, ef hann passar sig bara að loka augunum fyrir ofsóknum á fólki sem ekki er jafn heppið og hann sjálfur. Í samræmi við það lýkur hann pistli sínum með því að segja að sumir vildu vafalaust búa í landi þar sem „pólitískt frelsi væri fótum troðið og bannað að segja nokkuð neikvætt um leiðtogastéttina, svo fremi sem sköttum væri stillt í hóf“. Með öðrum orðum: mannréttindi skipta litlu máli svo framarlega sem hinir ríku geta orðið sem ríkastir. Ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram í málflutningi frjálshyggjumanna að eina frelsið sem þeir vilja í raun og veru berjast fyrir er frelsi hinna ríku til að græða.“

Í pistlinum gagnrýnir Una Margrét einnig stuðning Morgunblaðsins við framferði Donald Trump og lýsir furðu sinni á því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, einn helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjumanna á Íslandi, loki augunum fyrir mannréttindabrotum forsetans en hafi andmælt sams konar framferði kommúnista. Hún segir það hafa vakið mikin óhug hjá sér að sjá hversu margir Íslendingar styðji það að Palestínumenn séu myrtir og veltir fyrir sér hvað það fólk hefði sagt og gert hefði það verið uppi á tímum Adolf Hitler:

„Viljum við láta þá sannfæra okkur um að fasismi sé betri en lýðræði, harðstjórn betri en mannréttindi, grimmd betri en mannúð?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fyrstu langtímasamningarnir um liðskiptaaðgerðir og fleiri skurðaðgerðir

Fyrstu langtímasamningarnir um liðskiptaaðgerðir og fleiri skurðaðgerðir
Fréttir
Í gær

Leið miklar kvalir í flugvél á Keflavíkurflugvelli en fær ekkert fyrir – „Sjálf lá ég með fætur á gólfinu og höfuð ofan á sæti“

Leið miklar kvalir í flugvél á Keflavíkurflugvelli en fær ekkert fyrir – „Sjálf lá ég með fætur á gólfinu og höfuð ofan á sæti“
Fréttir
Í gær

Rakel talar opinskátt um áskoranir sem kennari – Nefnir það sem hún hefur mestar áhyggjur af

Rakel talar opinskátt um áskoranir sem kennari – Nefnir það sem hún hefur mestar áhyggjur af
Fréttir
Í gær

Stórfelld líkamsárás í Kópavogi í gærkvöldi

Stórfelld líkamsárás í Kópavogi í gærkvöldi