fbpx
Miðvikudagur 13.ágúst 2025
Fréttir

Ugla svarar reiða pabbanum – „Gagnrýni á fegurðarsamkeppnir er ekki niðurlæging í garð kvenna“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. ágúst 2025 17:30

Ugla Stefanía - Mynd/Trans Ísland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir kynjafræðingur og baráttukona svarar í ítarlegum pistli á Facebook óánægju Haraldar Hrafns Guðmundssonar með tiltekið atriði í gleðigöngu Hinsegin daga. Dóttir Haraldar, Hrafnhildur, sigraði í fegurðarsamkeppninni Miss Universe Iceland árið 2022 en Haraldur segir að með umræddu atriði í Gleðigöngunni hafi verið gert markvisst lítið úr keppendum í fegurðarsamkeppnum. Málið snýst um fígúru sem líkist kvígu og er merkt með orðunum Miss Young Iceland. Ugla segir hins vegar að fígúran eigi sér langa sögu og snúist ekki um að gera lítið úr einstaklingum heldur mótmæla fegurðarsamkeppnum sem slíkum enda séu þær fáránlegar.

Í ljósi kröfu Haraldar um afsökunarbeiðni frá Samtökunum 78 þá bendir Ugla á að samtökin hafi ekki skpulagt gönguna og hafi raunar aldrei gert það. Kvígan sé vísun í þann gjörning þegar Rauðsokkuhreyfingin mætti með kvíguna Perlu í fegurðarsamkeppni á Akranesi árið 1972. Þetta hafi vakið mikla athygli á sínum tíma, og leitt til fleiri mótmæla víðsvegar um land í kjölfarið. Hægt sé að finna frekari upplýsingar um gjörninginn inn á heimasíðu Kvennasögusafnsins.

Fáránleikinn

Ugla rifjar því næst upp tilganginn með þessum mótmælum þá og nú:

„Þetta var auðvitað gert til þess að benda á fáranleika þess að konur keppi í fegurð, en þekkt er að bæði nautgripir og sauðfé sé einnig vegið og metið í kynbótakeppnum víðsvegar um land (við eigum meira að segja nokkur slík verðlaun heima í sveit). Það er því ekki svo að atriðið hafi verið til þess gert að gera lítið úr einhverri sérstakri konu eða þeim sem keppa í slíkum keppnum – heldur einfaldlega vísun í sögu kvenréttindahreyfingarinnar, sem hefur ætíð gagnrýnt slíkar keppnir – og réttilega að mínu mati.“

Ekki hafnar yfir

Ugla bendir á að fegurðarsamkeppnir séu svo sannarlega ekki hafnar yfir gagnrýni:

„Það er ekki hægt að neita sögu slíkra keppna og þeim grundvelli sem þær byggja á – sem er að fegurð kvenna sé söluvara og eitthvað sem sé hægt að keppa í. Þeir staðlar sem eru dæmdir eftir eru líka óneitanlega bundnir vestrænum fegurðarstöðlum, kynjuðum normum og kynlífsvæðingu kvenna og stelpna. Einnig er það þekkt að konur sem keppa verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu skipuleggjenda, dómara eða starfsmanna sem halda slíkar keppnir. En vissulega leggja þær konur sem keppa mikið á sig. Það er ekki auðvelt að uppfylla mjög þrönga staðla um fegurð, en margar fegurðardrottningar hafa af sökum þeirra glímt við líkamsímynd, átraskanir eða andlega vanlíðan.“

Ugla ítrekar að mikilvægt sé að hafa samhengið í huga:

„Það er því mikilvægt að fólk átti sig á því að gagnrýni á fegurðarsamkeppnir er ekki niðurlæging í garð kvenna – heldur fyrirkomulaginu, tilganginum og skilaboðunum sem keppnirnar senda. Tilgangur atriðsins, allavega eins og ég skil, var að vísa í þennan gjörning og hversu fáranlegt það er að stúlkur séu látnar keppa í fegurð.“

Að ögra

Ugla minnir á að Gleðigangan sjálf hafi alltaf ögrað ríkjandi gildum og sé fyrst og fremst gerð til þess að fagna fjölbreytileikanum, baráttunni og til þess að vekja athygli á ýmsum málefnum sem fólk sé ekkert alltaf endilega sammála um. Hinsegin fólk sé hópur sem hafi alltaf ögrað ríkjandi normum samfélagsins, og því alls ekki skrítið að hann sé gagnrýninn á hluti eins og hefðbundnar fegurðarsamkeppnir.

Það gangi ekki upp að biðjast afsökunar í hvert sinn sem eitthvað í Gleðigöngunni fari fyrir brjóstið á einhverjum þá myndu Hinsegin dagar vart snúast um annað. Gangan sé haldin á forsendum hinsegin fólks en ekki til að þóknast meirihluta samfélagsins. Að lokum er Ugla með skilaboð til Haraldar:

„Ég veit ekki með ykkur, en ég tel nú alveg að þær áskoranir sem hinsegin samfélagið standi frammi fyrir séu stærri en þessi gjörningur. Við þurfum svo sannarlega að spara kraftana fyrir baráttuna sem er framundan, og vona ég að hann Haraldur geti lagt þetta til hliðar, horft á stóru myndina, og staðið með okkur í henni. Ekki er vanþörf á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Biðjast afsökunar á nýja sendiherranum á Íslandi – „Mér þykir þetta svo leitt“

Biðjast afsökunar á nýja sendiherranum á Íslandi – „Mér þykir þetta svo leitt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réttarhöld í Gufunesmálinu framundan

Réttarhöld í Gufunesmálinu framundan
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðjón fékk slæma byltu og braut þrjú rifbein á Þingvöllum – „Aug­ljós­ar slysa­gildr­ur eru mjög víða“

Guðjón fékk slæma byltu og braut þrjú rifbein á Þingvöllum – „Aug­ljós­ar slysa­gildr­ur eru mjög víða“