fbpx
Miðvikudagur 13.ágúst 2025
Fréttir

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 13. ágúst 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness hefur vísað frá sakamáli á hendur fjórum einstaklingum sem allir voru ákærðir fyrir líkamsárásir. Málið varðaði tvær árásir en einn mannanna var ákærður fyrir þær báðar en hinir þrír voru ákærðir fyrir eina árás. Í ljós kom undir rekstri málsins að lögreglumaður sem stýrði rannsókn á báðum málunum er skyldur brotaþolanum í síðara málinu.

Báðar árásirnar voru framdar árið 2023. Sú fyrri var framin í febrúar en tveir mannanna voru ákærðir fyrir hana. Samkvæmt ákæru réðust þeir á mann á bílastæði fyrir utan verslun, slógu hann ítrekað í höfuðið og því næst tók annar mannanna utan um brotaþolann, henti honum í jörðina og þá sparkaði hinn maðurinn í hann. Sagði í ákærunni að brotaþolinn hefði hlotið mar á andliti, mar á hægri hendi og mar og hrufl á hægri fæti.

Annar mannanna sem var ákærður fyrir árásina í febrúar var síðan ákærður fyrir aðra árás ásamt tveimur öðrum mönnum. Sú árás var framin í júlí á bílastæði. Samkvæmt ákærunni réðust mennirnir á mann sem sat í farþegasæti bifreiðar, slógu hann ítrekað í höfuðið meðal annars með glerflösku og eitt högg í hægri handlegg. Brotaþolinn hlaut nefbrot, skurð þvert yfir vinstri augabrún, umtalsverða bólgu frá augnkrók og meðfram nefi vinstra megin, væg eymsli utan á kinnbeini, væg eymsli í neðri framtönnum, margúl á innanverðri neðri vör og verki.

Tengsl

Aðalmeðferð átti að standa fyrir dómi í þrjá daga en áður kom að lokadeginum ritaði verjandi eins hinna ákærðu ákæruvaldinu og dómnum bréf. Í bréfinu kom fram að upplýst hefði verið að lögreglumaðurinn sem væri aðalrannsakandi málsins og hefði yfirheyrt alla ákærðu og vitni málsins, væri skyldur brotaþola í síðara málinu sem ákært var fyrir.

Hver skyldleikinn nákvæmlega er hefur verið afmáð úr dómi Héraðsdóms Reykjaness.

Verjendur mannanna töldu mögulega tilefni til frávísunar. Ákæruvaldið tók hins vegar ekki undir það og sagði lögreglumanninn hafa upplýst sinn yfirmann um tengsl sín við brotaþolann og ekki tekið sjálfur af honum skýrslu. Í kjölfarið gerðu verjendur allra mannanna fjögurra kröfu um frávísun málsins.

Þar sem málið var hins vegar það langt komið að aðeins munnlegur málflutningur var eftir var ákveðið að frávísunarkrafan yrði tekin fyrir samhliða kröfum sem fram komu í ákæru.

Ekki hlutlaus

Vildu hinir ákærðu og lögmenn þeirra meðal annars meina að lögreglumaðurinn hefði ekki gætt að hlutleysi við rannsókn málsins og að hann hafi lagt þeim orð í munn og gengið hart fram við skýrslutökur og þrýst á þá að svara. Vísað var til þess að lögreglumaðurinn hefði sjálfur sagt fyrir dómi að hann hefði rannsakað málin samhliða þar sem sömu aðilar hefðu að töluverðu leyti komið að þeim báðum. Því bæri að vísa báðum ákæruliðum frá dómi.

Ákæruvaldið sem í þessu tilfelli var Héraðssakóknari andmælti kröfu um frávísun. Embættið hefði lagt eigið mat á gögn málsins og talið það líklegt til sakfellingar. Vitni sem lögreglumaðurinn hefði tekið skýrslu af hefðu öll komið fyrir dóm. Lögreglumaðurinn hafi aldrei tekið skýrslu af brotaþolanum og raunar ekki komið að málinu fyrr en ári eftir að kæra var lögð fram. Þá hafi verið rökstuddur grunur um brot mannanna. Lögreglumaðurinn hafi allan tímann gætt að hæfi sínu og upplýst yfirmann sinn um tengsl sín við brotaþolann.

Annmarki

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness er farið með ítarlegum hætt yfir lagalegan grundvöll frávísunarkröfunnar og dómafordæmi í sambærilegum málum. Minnt er á að í sakamálaréttarfari hér á landi gildi ekki sú regla að sönnunargögn hafi fortakslaust ekkert gildi hafi þeirra verið aflað andstætt lögum. Slík regla sé hins vegar þekkt í engilsaxneskum rétti og hafi í þýðingu verið nefnd útilokunarregla. Við mat á slíkum gögnum þurfi að horfa til hvernig þau snúi að ákærða og málstað hans. Það sé þó ekki hægt að reisa sakfellingu alfarið á slíkum gögnum.

Dómurinn segir það óumdeilt að í þessu máli hafi lögreglumaðurinn umræddi stýrt rannsókn málsins hvað varðar báðar árásir. Í síðara málinu, máli ættingja síns, hafi hann séð um allar skýrslutökur nema af brotaþolanum. Við ákvörðun sína um að gefa út ákæru í málinu hafi Héraðssaksóknari bersýnilega byggt að miklu leyti á gögnum sem lögreglumaðurinn hafi aflað. Vegna þessa, ákvæða laga um rannsókn sakamála og með vísan til dómafordæmis Hæstaréttar er það niðurstaða dómsins að slíkur annmarki hafi verið á rannsókn síðari árásarinnar í málinu, vegna skyldleika lögreglumannsins og brotaþolans, að vísa verði þeim ákærulið frá dómi.

Hinn líka

Hvað varðar fyrri árásina er það niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness að ákæruliðirnir tengist það mikið að vísa verði þeim ákærulið frá líka. Vísar dómurinn til þess að einn mannanna hafi verið ákærður fyrir bæði fyrri og seinni árásina og að bræður hafi í málinu verið ákærðir hvor fyrir sína árásina. Vísar dómurinn einnig til þess að lögreglumaðurinn hafi sjálfur sagt fyrir dómi að hann hefði ákveðið að rannsaka bæði árásirnar samhliða þar sem þær tengdust að miklu leyti sömu aðilum. Lögreglumaðurinn hefði við rannsókn á fyrra málinu yfirheyrt alla ákærðu en þótt aðeins einn mannanna hafi verið ákærður fyrir báðar árásir hafi hluti hinna þriggja haft um tíma réttarstöðu sakbornings vegna beggja árásanna. Lögreglumaðurinn hafi þar að auki yfirheyrt vitni vegna fyrri árásarinnar.

Héraðsdómur Reykjaness segir það því í raun óhjákvæmilegt að vísa ákæru vegna fyrri árásárinnar einnig frá dómi, þótt að þar hafi ekki verið til staðar sömu tengsl brotaþola og lögreglumannsins.

Dóminn í heild er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigmundur Davíð: „Þetta er eitt af því sem er að fara með þetta samfélag”

Sigmundur Davíð: „Þetta er eitt af því sem er að fara með þetta samfélag”
Fréttir
Í gær

Rakel talar opinskátt um áskoranir sem kennari – Nefnir það sem hún hefur mestar áhyggjur af

Rakel talar opinskátt um áskoranir sem kennari – Nefnir það sem hún hefur mestar áhyggjur af
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sendir þjóðvarðliða inn í Washington DC og tekur yfir lögregluna

Trump sendir þjóðvarðliða inn í Washington DC og tekur yfir lögregluna