fbpx
Þriðjudagur 12.ágúst 2025
Fréttir

Mótmæla byggingu húss sem upphaflega var kynnt sem sambýli

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 12. ágúst 2025 15:30

Hið umdeilda hús er í byggingu á lóð á Seltjarnarnesi þar sem upphaflega stóð til að reisa sambýli fyrir fjóra fatlaða einstaklinga. Mynd: Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigendur sex einbýlishúsa á Seltjarnarnesi hafa kært ákvörðun byggingarfulltrúa bæjarins um að heimila byggingu einbýlishúss á lóð við Hofgarða 16 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Upphaflega stóð til að á lóðinni, sem var síðasta lóðin á umræddu deiliskipulagssvæði sem ætluð var undir íbúðarhúsnæði en ekki hafði verið byggt á, yrði heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga. Hins vegar breyttist það og húsið sem nú er í byggingu á lóðinni á ekki vera sambýli. Hluti eigendanna hefur áður kært málið til nefndarinnar. Vísa þeir einkum til þess að leyfilegt umfang bygginga á lóðinni og stærð nýja hússins sé meira en annarra húsa og á öðrum lóðum á svæðinu. Það hafi upphaflega verið rökstutt með þeim fyrirætlunum að húsið ætti að vera sambýli en fyrst hætt hafi verið við það sé ekkert sem réttlæti fyrirhugaða stærð hússins.

Umrætt deiliskipulag, sem gildir fyrir svæðið Bollagarða og Hofgarða, tók fyrst gildi 2015. Í greinargerð með því segir um Hofgarða 16 að þetta sé eina óbyggða lóðin á svæðinu. Á henni sé heimilt að byggja einbýlishús. Segir enn fremur að áform séu uppi um að byggja heimili á lóðinni fyrir fjóra fatlaða einstaklinga og með hliðsjón af því taki byggingarmagn lóðar mið af því sem mest gerist á nálægum lóðum. Krafa sé gerð um að við hönnun verði ásýnd hússins með þeim hætti að ekki leiki vafi á því að um einbýlishús sé að ræða.

Breyting

Í greinargerð deiliskipulagsins frá 2015 er á fleiri en einum stað lögð áhersla á að viðhalda yfirbragði hverfisins og að Hofgarðar 16 og aðrar nýbyggingar verði að vera í samræmi við þær byggingar sem fyrir séu á svæðinu. Í skýringaruppdrætti með deiliskipulaginu frá 2015 segir enn fremur um Hofgarða 16 að smágerðum mælikvarða byggðar skuli viðhaldið og síðan er því lýst nánar hvernig heimilt sé að hafa húsið. Leyfilegt nýtingarhlutfall á lóðinni var það mesta sem leyft var í götunni á þeim tíma, 0,41, og hámarksbyggingarmagn var einnig með því mesta, 341,12 fermetrar. Í skýringaruppdrættinum segir um nýtingarhlutfallið að í ljósi fyrirhugaðrar búsetu sé leyft að hafa það eins og hæst sé í götunni.

Því virðist, í ljósi þessara gagna frá 2015, vart annað blasa við en að nýtingarhlutfallið hafi verið haft eins hátt og mögulegt var þar sem húsið sem heimilt var að byggja á lóðinni átti að vera sambýli.

Nýtingarhlutfall segir til um hversu stóran hluta viðkomandi lóðar má nýta til að byggja á og gefur því til kynna umfang viðkomandi byggingar.

Sérstakt deiliskipulag var gert fyrir Hofgarða 16 árið 2022 en í því var meðal annars heimilað að stækka efri hæð hins fyrirhugaða húss. Seltjarnarnesbær breytti deiliskipulaginu á þann veg 2023 að nýtingarhlutfall var hækkað í 0,48 en fullyrti að húsið ætti ekki að stækka. Eftir mótmæli húseigenda í nágrenninu var nýtingarhlutfallið lækkað í 0,46. Eigendur eins hússins kærðu breytinguna á deiliskipulaginu á síðasta ári til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála og greindu þá frá því að skipulagsfulltrúi bæjarins hefði sent þeim teikningar þar sem fram hafi komið að til stæði að byggja á lóðinni einbýlishús en ekki sambýli eins og kynnt hefði verið þegar deiliskipulagið frá 2015 kom til sögunnar.

Ekkert meira

Eigendurnir gagnrýndu í sinni kæru að eigendur lóðarinnar hefðu fengið aukið nýtingarhlutfall til að byggja einbýlishús en ekki sambýli sem hefði verið upphaflega réttlætingin fyrir hærra nýtingarhlutfalli en á flestum lóðum í götunni.

Seltjarnarnesbær vísaði hins vegar til þess að aðstæður á lóðinni væru þannig að þörf væri á auknu nýtingarhlutfalli og það væru dæmi um lóðir á svæðinu með jafn háu eða hærra nýtingarhlutfalli. Bærinn hafnaði því að það hafi verið ófrávíkjanleg forsenda ákvörðunar um hámarksnýtingarhlutfall á lóðinni á sínum tíma að þar yrði byggt heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið annmarkar til staðar á þeirri ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að breyta deiliskipulaginu og hækka nýtingarhlutfallið fyrir Hofgarða 16 og hafnaði því að ógilda ákvörðunina. Nefndin sagði það hins vegar ljóst að stærð hússins, sem eins og áður segir mátti að hámarki vera 341,12 fermetrar, myndi hafa töluverð grenndaráhrif á eign þeirra sem kærðu deiliskipulagsbreytinguna.

Ekki gefast upp

Bygging hússins við Hofgarða 16 hófst síðan nú í sumar eftir að byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar gaf út byggingarleyfi. Lóðarhafar fengu síðan samþykktar breytingar, á áður samþykktum uppdráttum að húsinu, á fundi Skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness. Þær fólust í að húsið var lækkað í landi um 24 sentímetra og fært til vesturs innan byggingarreits um 35 sentímetra. Samkvæmt fundargerð nefndarinnar var þetta liður í viðleitni lóðarhafa til að koma til móts við mótmæli nágranna sinna.

Nágrannarnir hafa hins vegar ekki gefist upp á að reyna að koma í veg fyrir byggingu hússins í núverandi mynd. Eins og áður segir hafa eigendur sex húsa í nágrenninu kært ákvörðun byggingarfulltrúans um að heimila bygginguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hafnaði hins vegar kröfu þeirra um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan kæran er til meðferðar.

Segir í kærunni að samkvæmt samþykktum byggingaráformum eigi húsið að vera 337,7 fermetrar. Kærendur vilja meina að áformin standist hvorki deiliskipulag svæðisins né lög um mannvirki. Lóðarhafarnir sögðu í sínum andsvörum að stöðvun framkvæmda myndi valda þeim miklu tjóni. Nefndin segir í sinni niðurstöðu að lóðarhafarnir muni bera áhættuna af niðurstöðu málsins kjósi þeir að halda framkvæmdum áfram á meðan málið er til meðferðar.

Þessum miklu deilum um einbýlishúsið sem átti einu sinni að vera sambýli er því ekki lokið og hvort hinum ósáttu nágrönnum verði að ósk sinni með því að byggingarleyfið verði fellt úr gildi á eftir að koma í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Biðjast afsökunar á nýja sendiherranum á Íslandi – „Mér þykir þetta svo leitt“

Biðjast afsökunar á nýja sendiherranum á Íslandi – „Mér þykir þetta svo leitt“
Fréttir
Í gær

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“

Deilur um Palestínufána í Gleðigöngunni: „Írónían er bara svo hrópandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris segir erfitt að losna við blankheitahugsun og byrja að spara: „Peningurinn rennur ekkert út, hann myglar ekkert, hann verður þarna og þú getur bara geymt hann“

Íris segir erfitt að losna við blankheitahugsun og byrja að spara: „Peningurinn rennur ekkert út, hann myglar ekkert, hann verður þarna og þú getur bara geymt hann“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Neita að borga konu sem varð fyrir slysi í vinnuferð fullar bætur þrátt fyrir úrskurð þar um

Neita að borga konu sem varð fyrir slysi í vinnuferð fullar bætur þrátt fyrir úrskurð þar um
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Anna steinhissa á því að vera álitin fyrirmynd ungs hinsegin fólks – „Þetta var eiginlega meira en ég átti skilið“

Anna steinhissa á því að vera álitin fyrirmynd ungs hinsegin fólks – „Þetta var eiginlega meira en ég átti skilið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hyggst leita réttar síns gagnvart sveitarstjóra Mýrdalshrepps – „Hundarnir svæfðir í fanginu á mér meðan ég er hágrátandi“

Hyggst leita réttar síns gagnvart sveitarstjóra Mýrdalshrepps – „Hundarnir svæfðir í fanginu á mér meðan ég er hágrátandi“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þetta eru flugleiðirnar þar sem oftast má búast við ókyrrð

Þetta eru flugleiðirnar þar sem oftast má búast við ókyrrð