„Samkvæmt barnalögum eiga börn rétt á því að umgangast báða foreldra sína. Ef foreldrar barns undir 18 ára aldri búa ekki saman, þurfa þeir að koma sér saman um umgengni og umönnun barnsins. Þetta reynist í sumum tilvikum þrautin þyngri sem er allsendis óviðunandi þar sem umgengni er ekki aðeins ætlað að tryggja rétt foreldris til að umgangast barn sitt heldur ekki síður til að tryggja rétt barns til að umgangast og halda sambandi við það foreldri sem það býr ekki hjá,” segir Einar í grein sinni.
Hann hefur sinnt hagsmunagæslu í forsjár- og umgengnismálum í rúma tvo áratugi og segir að á síðustu árum hafi mál þróast til verri vegar í þessum málaflokki.
„Nú er svo komið að algengt er að það foreldri sem fer með lögheimili barns misnoti vald sitt til að beygja hitt foreldrið undir vilja sinn og er þá ýmsum meðulum beitt, andstætt hagsmunum barnsins,“ segir Einar og bætir við að eitt skýrasta dæmið um þetta séu umgengnistálmanir. Þær felist í því að foreldri sem barn býr hjá kemur í veg fyrir að barnið fái að njóta umgengni við hitt foreldrið eða aðra sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni.
Einar er gagnrýninn á það kerfi sem er við lýði hér á landi og segir að staðreyndin sé sú að samkvæmt núgildandi lögum varði það ekki viðurlögum að beita umgengnistálmunum – þó svo að tálmun sé augljóst brot á forsjárskyldum foreldris og rétti barns til að umgangast foreldri sitt.
Einar tekur fram að ákveðin þvingunarúrræði séu fyrir hendi í barnalögum en það sé bitlaust. Unnt sé að leita til sýslumanns og óska eftir að lagðar verði dagsektir á það foreldri sem beitir tálmun.
„Þar fylgir þó böggull skammrifi því ef sýslumaður telur að látið hafi verið af tálmunum þá falla áfallnar dagsektir niður. Þetta þvingunarúrræði er því í raun bitlaust, enda má það foreldri sem tálmun beitir vita að dagsektirnar muni falla niður þegar látið verður af tálmun,“ segir hann.
Einar heldur svo áfram og segir að ef forsjárforeldri haldi áfram að hindra umgengni barns við foreldri sitt þrátt fyrir dagsektir geti dómari, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, úrskurðað að umgengni verði komið á með þeim hætti að barn sé tekið úr umsjá forsjárforeldrisins.
„Gallinn við þessa leið er m.a. sá langi tími sem tekur að fara með málið í gegnum kerfið, fyrst hjá sýslumanni og svo hjá dómstólum. Á meðan þessi tími er að líða, sem stundum er mældur í árum, heldur tálmun áfram án nokkurra afleiðinga fyrir þann sem henni beitir,“ segir Einar og bætir við að þetta sé með öllu ólíðandi.
„Að mínu mati er nauðsynlegt að löggjafinn grípi inn í og geri þvingunarúrræðin að nothæfu verkfæri til að höggva á hnút umgengnistálmana. Þetta mætti t.d. gera með því að mæla svo fyrir að dagsektir falli ekki niður þrátt fyrir að látið sé af tálmunum og lögfesta flýtimeðferð í aðfararmálum. Ef slíkar breytingar yrðu ekki til þess að snúa þróuninni við mætti ganga enn lengra og lögfesta viðurlög við umgengnistálmunum þannig að sá sem þeim beitir geti átt yfir höfði sér sektir eða fangelsi.“