Heimildin birti í síðasta blaði sínu, sem kom út föstudaginn 25. júlí ítarlega úttekt um Ferðamannalandið Ísland. Í blaðinu eru 33 blaðsíður af 72 lagðar undir úttektina og leiðara blaðsins, sem Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri Heimildarinnar kallar hið Nýja Ísland. Forsíða blaðsins: Ferðamannalandið Ísland: Sáu ferðamenn í fyrsta sinn kynnir úttektina ásamt tilvitnun í íbúa í Vík og fjórum öðrum fyrirsögnum greina.
Ingibjörg ræddi í viðtali á Bylgjunni í gær neikvæðar hliðar fjöldaferðamennskunnar, en hún segir ferðamannaþreytu gæta enn meira á Íslandi.
Efnistök Heimildarinnar og viðtalið við Ingibjörgu hafa verið rædd í tveimur Facebook-hópum í dag, Bakland ferðaþjónustunnar sem telur 18600 meðlimi og Hið raunverulega bakland ferðaþjónustunnar sem telur 4000 meðlimi. Margir meðlimir eru þó í báðum hópum sem eins og nöfnin benda til láta sig flest varða sem viðkemur ferðaþjónustunni.
Á meðal þeirra sem tjá sig er Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI og fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá 2018-2024, sem segir Heimildina stunda einhliða og einstaklega rætna herferð gegn ferðaþjónustunni hérlendis. Segir hún miðilinn hafa leitað víða fanga til að byggja undir vafasaman málflutning sinn, og nafngreina einstaklinga tengda ferðaþjónustunni til að gera það tortryggilegt.
„Veftímaritið Heimildin stundar nú stórfurðulega, einhliða og einstaklega rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu og fólkinu sem rekur ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein og maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn, undan hvaða rótum hún er runnin og hvaða gagn hún á að gera. Að stuðla að samfélagslegri sátt er allavega ekki það sem rekur Heimildarfólk áfram – heldur þvert á móti að etja ferðaþjónustunni og þjóðinni saman, ala á óvild og öfund, búa til tortryggni og það á einstaklega ósmekklegan hátt. Heimildin velur í umfjöllun sinni dæmi sem eru líkleg til að hreyfa við tilfinningum fólks og reita það til reiði og fjallar oftast um jaðartilfelli – öfgafull tilfelli sem eiga sjaldnast við.“
Segir Bjarnheiður í færslu sinni á Facebook, sem er á hennar eigin vegg, sem og í Bakland ferðaþjónustunnar, þar sem hún er ein af fimm stjórnendum hópsins, að Vík í Mýrdal hafi orðið hringamiðja herferðar Heimildinnar gegn ferðaþjónustu.
„Þorp sem fyrir örfáum árum var deyjandi byggðarlag, en hefur náð vopnum sínum svo um munar eftir uppgang ferðaþjónustunnar. Skatttekjur Víkur í Mýrdal af ferðaþjónustu á árinu 2024 voru um það bil hálfur milljarður króna. Ég veit fyrir víst að mörg sveitarfélög myndu gjarnan vilja vera í sporum Víkur í Mýrdal. Auðvitað er það ekki nógu safaríkt eða vont fyrir Heimildina, svo það er best að kasta sér á það sem er neikvætt og fá þar á meðal aðfluttan íbúa til að kvarta yfir aðfluttum íbúum. Sem er auðvitað einstaklega pínlegt. Heimildin kallaði sömuleiðis fram hneykslan einhverra þegar hún fjallaði um að ferðamenn hefðu ruðst með látum inn í jarðarför í kirkjunni í Vík í Mýrdal. Það er vissulega ekki hægt að mæla því bót – en auðvitað tiltölulega einfalt að koma í veg fyrir, eins og gert er í kirkjum um allan heim, þegar þær eru lokaðar almennri umferð.
Sama má segja um Hallgrímskirkju. Þar var kirkjuhaldari dreginn upp á dekk og látinn segja frá ferðamönnum, sem ekki fara eftir fyrirmælum og troða sér jafnvel inn í útfarir. Þessi sama kirkja hefur um 300 milljónir í tekjur af ferðamönnum og ætti að vera í lófa lagið að halda fólki í burtu, þegar það á við.“
Bjarnheiður segir enn fremur Heimildina hafa leitað víða fanga til að
„byggja undir vafasaman málflutning sinn.
Hún nafgreinir meðal annars fólk sem hefur haslað sér völl í ferðaþjónustu til að gera það tortyggilegt, elur á hugmyndum um gróðastarfsemi sem þekkir engin mörk, launaþjófnaði, illa meðferð á starfsfólki (sérstaklega erlendu auðvitað) og fleiri kunnugleg stef, sem ferðaþjónustan í heild þarf að sitja undir ár eftir ár.
Heimildin telur sig örugglega vera að stunda stórkostlega rannsóknarblaðamennsku þegar akkúrat hið gagnstæða á við. Léleg blaðamennska, byggð á upphrópunum, smellabeitum og að því er virðist hatri á atvinnulífinu.“
Örvar Þór Kristjánsson, stjórnandi hjá Icelandair, tekur í sama streng og segir: „Heimildin er á ansi undarlegri vegferð þessa dagana en það eru nánast ekkert birtar nema neikvæðar fréttir af ferðaþjónustu hér á landi. Afar sérstakt.“
Birtir hann með myndir af forsíðu Heimildarinnar þar sem hann hefur merkt átta af 11 greinum, sem allar fjalla um ferðaþjónustuna og eru út úttekt blaðsins. Þórir Kjartansson, íbúi í Vík, segir: „Þetta er mjög einhliða umfjöllun hjá Heimildinni, sem er auðvitað ekki gott hjá nokkrum fjölmiðli sem vill vera vandur að virðingu sinni.“
Kona svarar Örvari og er ósammála honum og segir umfjöllun Heimildarinnar vegna frábæra, virkilega vel unna og málefnalega. Örvar spyr hvort að megi ekki einnig birta jákvæðar fréttir: „Mætti þá ekki líka birta jákvæðar fréttir líka? Varla er allt neikvætt? En vissulega hafa innviðir hér á landi setið eftir og sú mikla innviðaskuld sem er til staðar skapar ýmis vandamál, það er stóri vandinn i þessari grein. Svarar konan því til að það megi vissulega, en áhersla Heimildarinnar núna sé þessi vinkill: „Áherslan núna er þessi vinkill, eitthvað sem hefur ekki mikið verið fjallað um hingað til og maður er bara stimplaður sem „fúll á móti“ ef maður vekur máls á þessum vanda sem herjar á byggðir þar sem ferðaþjónustan er farin að nálgast þolmörk.“
Sveinbjörn Hjörleifsson deilir viðtali við Ingibjörgu á Bylgjunni og segir vanta skýrara regluverk fyrir ferðaþjónustuiðnaðinn í heild sinni.
„Við megum ekki láta það gerast að Íslendingum fari að líða eins og annars flokks fólki í sínu eigin landi. Reynslumiklir leiðsögumenn og bílstjórar þurfa að leiðbeina þeim sem nýrri eru því ég er hræddur um að fyrirtækin sem þeir vinna fyrir geri það ekki. Við þurfum einnig öll að hafa það bein í nefinu að segja stundum nei, bæði við kúnnana en þó kannski sérstaklega fyrirtækin sem við vinnum fyrir ef þau gera á okkur óraunhæfar kröfur sem geta og munu valda árekstrum við íbúa.
Hafandi sagt það allt saman á ég erfitt með að sjá hvernig staður eins og Vík í Mýrdal geti haldið áfram að vera til ef ekki væri fyrir ferðaþjónustuna. Þetta hefur alltaf verið erfiður staður að byggja vegna bryggjuleysis og náttúruhamfara. Áður fyrr var þetta hálfgerð vin í eyðimörk, stopp til að kaupa bensín og einhvern mat á leiðinni austur eða vestur.
Svo þorpið væri algjörlega verr á sig komið ef ekki væri fyrir ferðamanninn. En við getum ekki gengið þarna yfir á skítugum skónum.“
Áðurnefndur Þórir svarar einnig Sveinbirni og ítrekar skoðun sína að umfjöllunin sé einhliða og illa unnin. „Byggð á einhliða og villandi fréttamennsku. Ég sem heimamaður hér til áratuga, þekki þetta mæta vel og veit að hér væri ekki blómleg byggð ef ekki væri fyrir ferðamennskuna. En fátt er án einhverra ágalla eða áskorana en hér vega kostirnir margfalt á við gallana.“