Árið 2006 tók Íris Alma Vilbergsdóttir sitt fyrsta námslán. Lánið hækkaði með tímanum og segir Íris Alma að það geti verið erfitt að átta sig á raunverulegu umfangi lánsins mörgum árum síðar.
„Hér höfum við skuldabréfið sem ég tók til þess að fara í þriggja ára BA nám í fjölmiðlafræði. Upphafleg staða á láninu, sem er náttúrlega í rauninni ekki gefið út fyrr en náminu lýkur, upphafstaða 3.172.363 krónur. Ég er búin að vera að greiða af láninu í sautján ár. Á árinu 2024 þá greiddi ég 342.353 krónur og þar af fór 134.911 krónur í höfuðstólinn. Það er ekkert rosalega smart hlutfall og þetta er tekjutengt þannig að eftir því sem þú ert með hærri tekjur því meira borgar þú. Nema að þú þarft ekkert að vera með mjög háar tekjur. Við erum ekki að tala um að þú sért með mörg mörg hundruð þúsund á mánuði eða einhverjar milljónir á ári til þess að þetta sé byrjað að bíta. Þetta bítur alltaf. Og ég hef aldrei verið á mjög góðum launum. Ég hef bara verið á svona ágætis launum núna í örfá ár.“
Íris Alma lætur dreifa greiðslunum mánaðarlega og borgar sömu upphæð í hverjum mánuði, rúmlega 30 þúsund krónur.
„Heildareftirstöðvar á láninu núna eftir sautján ár í greiðslu: 3.956.793 krónur.“
Íris Alma ræðir í hlaðvarpi sínu, Krónusögurnar mínar; sannar sögur úr veskinu, um kosti og galla þess að taka námslán út frá eigin reynslu og hvetur fólk til meðvitaðra ákvarðana.
Íris Alma var 19 ára þegar hún eignaðist dóttur sína og var því orðin einstætt foreldri áður en hún varð í raun fullorðinn. „Fyrir mér þá var móðurhlutverkið fjárhagslega mjög erfitt. Ég var náttúrulega ekki búin að læra neitt, ég var að vinna bara í einhverjum stórmörkuðum og svoleiðis. En ég átti hana þannig að það var það sem skipti mig máli. En ég hef líka þurft að fara í gegnum öll fullorðinsárin, alla þroskasöguna og allar mínar fjármálaákvarðanir með hana í farteskinu, og það hefur oft verið verið svolítið dramatískt.“
Árið 2003 fór Íris Alma, þá 25 ára, í fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist hún árið 2006. Íris Alma starfaði þá sem leiðbeinandi í leikskóla og dóttir hennar var að byrja í skóla.
„Á þessum tíma var það þannig að ef þú varst tuttugu og fimm ára, að þá gastu farið í háskólanám án þess að vera með stúdentspróf, þá var starfsreynsla og slíkt metið á móti. Og það var verið að leggja þetta niður þetta 25 ára kerfi, þetta átti að vera síðasta árið sem það var. Ég átti eftir sirka ár í framhaldsskóla og sá ekki fram á að ég myndi hafa neitt sérstakt efni á því að fara í framhaldsnám,“ segir Íris Alma sem sótti um sálfræðinám enda búið að dreyma lengi um að verða sálfræðingur. Og var samþykkt inn í námið. Íris Alma skipti síðan úr sálfræðinni yfir í fjölmiðlafræði og útskrifaðist árið 2006.
„Ég náttúrulega tek námslán. Og námslán virka á þeim tíma þannig að þú þurftir að vera með ábyrgðarmann og pabbi var ábyrgðarmaðurinn minn. Og ég fékk staðfestingu frá LÍN um að ég væri búin að fá vilyrði fyrir því að fá þetta lán eftir önnina. Ég held þetta hafi verið sirka fimm hundruð þúsund krónur sem ég átti að fá per önn. Þannig að ég fer með það í bankann og þá gefur bankinn mér lán í þessa einu önn sem ég endurgreiði svo þegar LÍN greiðir mér og ég er búin að vera að greiða af láninu síðan 2008.
Það sem þú þarft svona helst að hafa í huga, það er í fyrsta lagi að þú færð ekki lán fyrir skólagjöldum, heldur er þetta framfærsla. Og þessi framfærsla er metin af þeim. Þú færð engu um það ráðið hvaða upphæð þú færð, en það er bætt í ef þú átt barn og og ef það eru einhverjar aðrar aðstæður. Og svo líka ef þú ert í námi erlendis og ef það eru námslán voru allavega að það má ekki vera sambærilegt nám í boði hér á Íslandi. Önnur regla sem að var og er örugglega ennþá er að þú þarft að sýna fram á námsárangur. Þess vegna borga þeir ekki fyrr en eftir á vegna þess að þú færð ekki borgað nema þú standist námið. Og þú þarft að standast alla áfanga til þess að fá allan peninginn. Og þú þarft að standast hlutfallslega mikið til þess að fá yfirhöfuð einhvern pening.“
Rifjar Íris Alma upp að á fyrsta árinu hennar hafi hún verið í aðferðafræði, sem var margra eininga áfangi í tvær annir og erfiður, og ef nemandi féll í þeim eina áfanga fékk hann engin námslán.
„Ég rétt slefaði í bæði skiptin. En þetta var gríðarlega mikil streita af því þarna ertu búinn náttúrulega að fá fyrirframgreiðslu frá banka sem þú þarft svo að greiða strax til baka ef þú færð ekki frá LÍN. Forsendurnar af þessu láni eru allt aðrar. Þetta er í rauninni bara fyrirframgreiðsla og það er bara nákvæm dagsetning hvenær þú átt að greiða alla upphæðina til baka. Þetta var bara fallöxi á okkur allt fyrsta ár.
Þú ert í rauninni í vinnu þegar þú ert kominn á námslán og það er nánast alveg sama hvað kemur upp á á leiðinni, þú verður annaðhvort að reiða út þessa peninga sjálf eða þú verður að standast allan áfangann. Og þetta hefur komið fólki oft alveg gríðarlega illa af því að það kemur allt eitthvað upp. Og það er bara engin miskunn. LÍN og nú Menntasjóður námsmanna eru mjög hörð, ósveigjanleg og í rauninni finnst manni að þau gangi svolítið út frá því að maður eigi að vera bara bullandi þakklátur fyrir það að leyfa manni að fara í nám. En burtséð frá því, þá er það alveg á hreinu, ég hefði aldrei getað farið í nám ef það hefði ekki verið fyrir námslán. Það er alveg bara skýrt og ég væri ekki þar sem ég er í dag.“
Íris Alma segist aldrei hafa verið í stöðu til að borga meira inn á lánið, eða geta greitt upp lánið með einni greiðslu. Hún segir að auðvitað eigi að greiða lán til baka. En að þegar námslánin hafi verið kynnt á sínum tíma þá hafi ekki verið svona mikil umræða eins og er í dag og samfélagsmiðlar ekki komnir til sögunnar.
„Okkur voru svolítið seld þessi lán eins og þau væru rosalega hagstæð lán.Við þurftum ekki að borga fyrr en tveimur árum eftir útskrift. Þetta er tekjutengt þannig að ef þú ert á lágum launum, þá borgarðu minna. Og við túlkuðum þetta öll að þetta væri svona pínulítið öðruvísi heldur en að vera að taka skuldabréfalán, að þetta væri á einhvern hátt betra. En núna þegar ég lít til baka þá hreinlega get ég ekki séð það. Það má segja mögulega að þetta sé hagstæðara en mörg önnur lán. En að vera hagstæðara en eitthvað er ekki það sama og að vera hagstætt, Þannig að þetta eru ekki hagstæð lán, þetta eru rándýr lán og þau hanga um hálsinn á þér, stækkandi og stækkandi og stækkandi. Þannig að mín skilaboð hvað það varðar er: Ef þú þarft að taka námslán, þá tekurðu auðvitað námslán. En þetta er það sem þú þarft að díla við það sem eftir er. Ekki blekkja þig, þetta er alvöru og þetta er stórt og þú losnar ekki við þetta mjög auðveldlega. Og þar að auki út af því þú þarft að greiða þetta og greiða svona mikið, að þá náttúrulega þarftu að fá vinnu. Þannig að þú ert að taka námslán fyrir námi, þá er ekki kannski mjög skynsamlegt að fylgja bara draumnum.“
Íris Alma segir að það sé hennar skoðun að ef einstaklingur ætlar í nám og taka námslán fyrir því sem hann þarf síðan að bera með sér í áratugi að þá þurfi viðkomandi í fyrsta lagi að hafa ástríðu fyrir faginu, annars muni hann aldrei standa sig vel í vinnunni og það þurfi líka að vera hægt að vinna við það sem viðkomandi lærir. Íris Alma segist alls ekki sjá eftir að hafa farið í háskólanám, hún hafi síðan bætt stöðugt ofan á það nám.
„Lokaorðin eru þau námslánið kæfir þig. Það er jákvætt að því leyti að það hjálpar þér að komast í gegnum námið til þess að geta lifað því lífi sem þú vilt lifa en það er myllusteinn um hálsinn á þér og það er heldur áfram að stækka ár eftir ár og ef eins og ég þú tókst lán upp á 3.173.363 krónur árið 2006 þá ertu núna stoltur eigandi láns upp á 3.956.793 krónur.“
Hlusta má á fyrsta þáttinn í hlaðvarpi Írisar Ölmu hér:
Íris Alma er eigandi ÍA fjármál og einnig má fylgja henni á Instagram.