Þegar Elsa Lyng Magnúsdóttir greindist með brjóstakrabbamein 17. maí 2024 tók við krefjandi og óviss vegferð sem reyndi bæði á líkama og sál. Hún þurfti að gangast undir aðgerð þar sem hægra brjóst var fjarlægt og eitlar teknir vegna meinvarpa. Ferlið var átak en Elsa stóð ekki ein, frá fyrstu stundu stóð Ljósið með henni.
„Greiningin var auðvitað áfall. Ég vissi ekkert hvað beið mín og kom reynslulaus inn í þessar aðstæður. En í Ljósinu var mér tekið opnum örmum með hlýju og fagmennsku sem skipti sköpum.“
Í viðtali á vef Ljóssins segir Elsa sögu sína í tilefni samstarfsverkefnis Ljóssins og Nettó. Í öllum verslunum Nettó og í Ljósinu að Langholtsvegi 43 eru nú til sölu slæður og taupokar prýddir verki listamannsins Steingríms Gauta. Allur ágóði rennur óskiptur til starfsemi Ljóssins.
Sjá einnig: Áslaug Arna setur upp slæðu til styrktar góðs málefnis
Elsa fékk ráðleggingu hjá Brjóstamiðstöðinni um að hafa samband við Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem greinist með krabbamein. Þar fékk hún stuðning frá iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum og öðrum sérfræðingum sem hjálpuðu henni að búa sig undir aðgerðina og síðar undir lyfjameðferð. „Þau útskýrðu allt sem ég þurfti að vita og gerðu það þannig að ég fann að ég væri ekki ein í þessu.“
Það var margt sem reyndi á líkamlega, andlega og tilfinningalega. Að missa hárið reyndist erfiðara en Elsa bjóst við. „Ég var ekki undirbúin fyrir hversu óþægilegt það væri bæði líkamlega og andlega. Í Ljósinu fékk ég bæði fræðslu og samkennd. Þar var ekki bara fagfólk heldur líka konur sem höfðu gengið í gegnum það sama.“
Elsa sótti grunnnámskeið fyrir konur á svipuðum aldri þar sem fræðsla og jafningjastuðningur skapaði sterk tengsl. „Þar varð til vinátta við dásamlegar konur sem standa með mér í gegnum þetta allt saman. Slík tengsl eru ómetanlegt.“
Í Ljósinu tók Elsa þátt í fjölbreyttum námskeiðum og þáði einnig markþjálfun. Hún lýsir mikilvægi þess að eiga öruggt og hlýlegt rými þar sem maður fær bæði stuðning við að stíga fram og skilning þegar maður þarf að stíga til baka. „Það eru dagar þar sem vanlíðanin er yfirþyrmandi og þá er svo mikilvægt að vera spurð: „Hvernig líður þér?“ Það skiptir öllu máli.“
„Ljósið hefur verið mín vin í eyðimörkinni, öruggt skjól þegar allt í kring var óvissa og ótti,“ segir Elsa heiðarlega og af þakklæti.
Elsa segist vera þakklát fyrir stuðninginn og vill gjarnan hjálpa við að miðla þeirri reynslu. „Ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag nema með hjálp Ljóssins. Þess vegna vil ég að fleiri heyri af þessu mikilvæga starfi og styrki það með því móti sem það getur.“
„Ég er slæðukona,“ segir Elsa hlæjandi þegar hún er innt eftir því hvort hún myndi heldur velja poka eða slæðu. „Ég ákvað að takast á við þetta með reisn og gleði þegar ég gat. Ég reyndi alltaf að líta vel út þegar ég fór í lyfjameðferð og vinkona mín rakaði meira að segja af sér hárið með mér. Það var ótrúlega fallegt.“
Sjá einnig: Vinátta Brynju og Elsu lætur engan ósnortinn – „Elska þig. Svo er þetta líka trú vinátta“
Ferðalagið hefur ekki verið auðvelt en það hefur verið fullt af kærleika, styrk og hlýju. Í gönguferðum með Kærleiksvinkonunum sem hún kynntist í Ljósinu og í augnablikunum í endurhæfingunni hefur Elsa fundið ljós í myrkrinu og nú hvetur hún okkur hin til styrkja Ljósið.