Undirskriftasöfnun hefur verið hrundið af stað til að fá flugvöllinn í Birmingham nefndan eftir rokkstjörnunni Ozzy Osbourne. Ozzy, sem var ein skærasta stjarna borgarinnar, lést á dögunum.
Um 3 þúsund manns hafa skrifað undir listann þegar þetta er skrifað og bætist hratt við. En hann er hýstur á síðunni Change.org.
„Ozzy Osbourne var mikilvægasti tónlistarmaðurinn sem komið hefur frá Birmingham. Hann varð frægur sem söngvarinn í Black Sabbath, sem fundu upp tónlistartegundina þungarokk,“ segir í færslu með undirskriftalistanum.
Nefnt er að flugvellir hafi áður verið nefndir eftir frægum einstaklingum sem komu frá viðkomandi borg. Svo sem John Lennon flugvöllurinn í Liverpool og George Best flugvöllurinn í Belfast. Flugvöllurinn í Birmingham heitir í dag einfaldlega Birmingham flugvöllur.
„Áhrif Ozzy á tónlistina eru óumdeilanleg. Að nefna alþjóðaflugvöllinn okkar eftir honum væri tilvalin virðingarvottur við ótrúlegan feril hans og framlag til listanna,“ segir í færslunni.
Ozzy lést 22. júlí, 76 ára gamall, eftir langvarandi baráttu við Parkinson´s sjúkdóminn og annan heilsubrest. Það var aðeins um tveimur vikum eftir að hann hélt risastóra tónleika á Villa Park í Aston hverfinu í Birmingham þar sem flestar helstu hljómsveitir þungarokksins komu saman til að hylla Ozzy og Black Sabbath.
„Saman getum við fagnað arfleið Ozzy Osbourne og þeim ótrúlegum áhrifum sem hann hafði á borgina okkar og heimssviðið,“ segir að lokum.