Einstaklingar sem tekið hafa þátt í mótmælum hér á landi til stuðnings Palestínumönnum eru ekki sammála um þá árás sem Eyþór Árnason ljósmyndari Morgunblaðsins varð fyrir þegar hann var að mynda mótmæli félagsins Ísland-Palestína síðastliðinn þriðjudag en þá var rauðri málningu skvett á hann. Sumir mótmælendur gagnrýna athæfið og segja það skaða málstaðinn en aðrir í hópnum segja hana réttlætanlega bæði í ljósi fréttaflutnings Morgunblaðisins af málefnum Palestínu og þess sem sé að eiga sér þar stað. Sá sem fyrir árásinni stóð segir hana ekki hafa beinst persónulega að Eyþóri og ekki hafa falið í sér ofbeldi heldur hafi verið fyrst og fremst um táknræna aðgerð að ræða.
Stjórn félagsins Ísland-Palestína hefur harmað atvikið og Eyþór var þegar í stað beðinn afsökunar af forsvarsmönnum þess. Stefán Pálsson sagnfræðingur hefur tekið virkan þátt í mótmælum til stuðnings Palestínu og gagnrýndi athæfið á samfélagsmiðlum fljótlega eftir að það átti sér stað.
„Ömurleg uppákoma“ segir Stefán um árás á ljósmyndara Morgunblaðsins
Hann ítrekaði síðan gagnrýni sína í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun:
„Vitleysisgangurinn í því. Í fyrsta lagi slettirðu ekki málningu á fólk. Það er grundvallarregla í mannlegum samskiptum. Með því að gera þetta þá er viðkomandi að valda sínum málstað tjóni. Vegna þess að það gerir það að verkum að allar fréttirnar munu fjalla um málningarsletturnar. Þú vilt að fjölmiðlar mæti á svæðið, líka fjölmiðlar sem þér er illa við og það sem skiptir líka máli er það að neikvæðar fréttir í tengslum við mótmæli minnka líkurnar á því að fólk mæti á þau næstu. Það er nefnilega fullt af fólki sem getur haft samúð með málstað sem hugsar síðan þegar það fær svona fréttir: Æ, ég fer nú ekkert að mæta með börnin mín því ég vil ekki að þau sjái einhverjar svona uppákomur.“
Stefán bætti því síðan við að afstaðan til málstaðarins hafi töluvert að segja í svona tilfellum og hafi áhrif á upplifunina af þeim:
„Fólk sem hefur þær skoðanir að það sé algjörlega óþolandi að einhver útlendingur klifri upp í mastur og komi í veg fyrir að hvalbátur geti farið úr höfn það getur haft mikla samúð með því að verslunareigendur í Grindavík loki vegum og komi í veg fyrir að ráðamenn komist þar að vegna þess að þeim finnist einhverjar lokunaraðgerðir lögreglunnar vera ósanngjarnar.“
Hann gagnrýndi hins vegar viðhorf sumra skoðanasystkina sinna í málefnum Palestínu til árásarinnar:
„Mér hefur meira að segja fundist stuðningsfólk … sumir stuðningsaðilar Palestínumótmæla ganga fáránlega langt í að segja: Já, svo getur maður alveg haft samúð með því að einhver fari og sletti málningu. Nei, það virkar bara ekki þannig.“
Stefán bætti síðan við:
„Fyrir sumum þá er það að sletta málningu eða brjóta rúðu einhver persónuleg útrás fyrir einstakling sem upplifir mikið ranglæti eða er mjög reiður yfir einhverju sem er að eiga sér stað. Það er mjög eigingjörn aðgerð. Það er ekkert aðgerð sem að gagnast í rauninni málstaðnum. Það er ekki aðgerð sem hjálpar fólkinu sem er búið að leggja á sig vinnu við að undirbúa einhver mótmæli eða er að hugsa um það hvernig það nær að koma einhverjum boðskap í gegnum fjölmiðla. Þá eru menn bara að hugsa um einhverja persónulega spennu og stresslos.“
Stefán segist eiga von á því að maðurinn sem skvetti málningunni á Eyþór, Naji Asar, skammist sín fyrir hegðun sína en miðað við færslur hans á samfélagsmiðlum þá sér hann ekki eftir neinu en í færslu sem hann setti inn á Instagram fyrr í dag ávarpar hann Eyþór og segir athæfið ekki hafa beinst að honum persónulega og hafi ekki verið ætlað til þess að skaða hann. Honum þyki leitt ef Eyþór hafi móðgast. Verið sé hins vegar að myrða þjóð hans en fjölmiðlar, þar á meðal sá sem Eyþór vinnur fyrir, útmáli Palestínumenn sem hryðjuverkamenn. Athæfi hans hafi ekki falið í sér ofbeldi eða hefnd heldur verið táknrænt fyrir þær blóðsúthellingar sem séu að eiga sér stað á hverjum degi í Palestínu. Þetta hafi einfaldlega verið hróp (e. cry).
Aðrir einstaklingar sem hafa tekið þátt í mótmælum til stuðnings Palestínu hér á landi taka hins vegar ekki undir með Stefáni eins og lesa má í færslum og athugasemdum á samfélagsmiðlum. Eins og DV greindi frá fyrr í dag er tónlistarkonan Margét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína ein af þeim:
Golli svarar athugasemd Margrétar – „Ég skil starf mitt og vel það af ástæðu“
Vildi Magga Stína ekki lýsa athæfinu sem árás:
„Þessi gjörningur er ekki „skelfilegur“.“
Annar einstaklingur segir athæfið ekki stórmál í samanburði við villandi fréttaflutning Morgunblaðsins og þess sem sé að gerast í Palestínu:
„Maður sem horfir á útrýmingu eigin þjóðar í beinni útsendingu skvettir vatnsmálingu á fréttaljósmyndara Morgunblaðsins í mótmælaskyni. Cry me a fucking river.“
Sakar viðkomandi Morgunblaðið um að hafa vísvitandi með villandi tölfræði látið líta út fyrir að Palestínumenn væru meðal efstu þjóða á lista yfir erlenda gæsluvarðhaldsfanga á Íslandi. Viðkomandi vísar þó ekki í viðkomandi frétt:
„Ofbeldið og ógnin sem MBL skapar á Íslandi er raunveruleg. Vatnsmálingu má hins vegar þrífa…með vatni.“
Fleiri tóku undir þetta:
„Það sem er verið að gera við Palestínufólk er þjóðarmorð og árásir. Að fólk sé reiðara yfir málningu sem fór yfir eina manneskju hjá sorpmiðli eins og mbl heldur en öllum lífunum sem hafa týnst er fáránlegt. Auðvitað leiðinlegt, og manneskjan ekki á vegum FÍP (Ísland-Palestína, innsk. DV) sem harmaði atburðinn. Auðvitað getur fólk bugast þegar er búið að drepa og er enn verið að þurrka út fjölskyldu, vini og þjóð. Mbl er þekkt fyrir einhliða umfjöllun um málið.“
„Það er aldeilis hvað þetta fólk getur vælt yfir málningu. Allir hér á landi vita hvaðan sneplarnir frá Mogganum koma. Græt engum tárum yfir þessari málningu á meðan börn eru stráfelld á Gaza og allt í boði hægri afla.“
Sumir mótmælendur gagnrýna fréttaflutning fjölmiðla af árásinni:
„Fjölmiðlar hafa einblínt á athæfið án þess að reyna að skilja samhengið. Svona fréttaflutningur fer ekki aðeins á mis við kjarna málsins heldur ýtir undir með markvissum hætti það vaxandi kynþáttahatur sem við sjáum á Íslandi.“