Veist var að ljósmyndara Morgunblaðsins á mótmælafundi samtakanna Ísland-Palestína fyrir utan Utanríkisráðuneytið á þriðja tímanum í dag. Samkvæmt frásögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings og Morgunblaðsins af atvikinu varð ljósmyndarinn fyrir árásinni fyrir það eitt að starfa fyrir Morgunblaðið.
Stefán segir á Facebook:
„Ömurleg uppákoma átti sér stað á mótmælunum við ráðuneytið. Maður í hópnum gekk á milli ljósmyndara og myndatökumanna og spurði þá fyrir hvaða fjölmiðil þeir störfuðu. Ljósmyndari Morgunblaðsins/Mbl sagði honum það, þá gekk viðkomandi í burtu en sneri svo aftur og sletti rauðri málningu á ljósmyndarann með fúkyrðum.
Þetta er algjörlega glatað og heimskulegt af svo mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að maður á einfaldlega ekki að sletta málningu á fólk. Í öðru lagi vegna þess að nú er viðbúið að þetta verði stóra fréttin af mótmælunum. Í þriðja lagi vegna þess að auðvitað viltu að fjölmiðlar segi frá mótmælunum – líka miðlar sem eru ekki efst á vinsældarlistanum. Og í fjórða lagi vegna þess að svona framferði dregur úr líkum á að fólk mæti á mótmæli yfirhöfuð. Vitleysingur dagsins er í það minnsta fundinn.“
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að ljósmyndari RÚV var spurður sömu spurningar og var ekki veist að honum í kjölfarið.
„Allt í einu finn ég að það kemur málningarsletta á mig. Ég sný mér við og þá stendur hann þarna og slettir á mig og gargar eitthvað varðandi Morgunblaðið. Ég náði því ekki alveg hvað hann sagði,“ segir ljósmyndarinn Eyþór Árnason í viðtali við Morgunblaðið.