Nettó hleypti í gær af stað styrktarátaki til stuðnings Ljósinu endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein. Með átaksverkefninu vill Nettó leggja sitt af mörkum til Ljóssins sem nú safnar fyrir nýju og stærra húsnæði.
Kjarninn í verkefninu er sala á taupokum og slæðum, skreyttar verki listamannsins Steingríms Gauta, í verslunum Nettó um land allt og í móttöku Ljóssins. Allur ágóði rennur óskiptur til Ljóssins.
Nokkrir einstaklingar sitja fyrir í átakinu, ein þeirra er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og fyrrum ráðherra. Kristín Steinarsdóttir, móðir Áslaugar Örnu, greindist með brjóstakrabbamein árið 2010 og lést árið 2012, þegar Áslaug Arna var 21 árs.
Hér sýnir Áslaug Arna eina útfærslu á slæðunni.
Myndmál Steingríms fangar kjarnann í verkefninu á áhrifaríkan hátt. Á slæðum og pokum verkefnisins mætast hlýja Ljóssins og sá skuggi sem krabbamein varpar yfir líf fólks — birtingarmynd ljóss í myrkri, eins og segir á vefsíðu Ljóssins.
Steingrímur hefur lengi haft hug á starfsemi Ljóssins. Þegar hann var boðinn þátttaka í verkefninu þáði hann það með einlægum áhuga. „Afi minn fór í endurhæfingu hjá Ljósinu á sínum tíma og leið þar vel,“ segir hann og bætir við að orkan í húsinu hafi verið „jákvæð og falleg – næstum því áþreifanleg“ við fyrstu kynni. Þátttakan varð honum sjálfsögð: „Sem listamaður er maður oft mikið fastur í sjálfum sér, þannig að mér finnst mikilvægt að nýta öll tækifæri sem gefast til að gefa eitthvað til baka.“
Í samstarfi við Ljósið og Nettó var valið eitt af verkum hans, án titils, sem birtist nú á gjafavörunum. Steingrímur er ánægður með niðurstöðuna: „Mér finnst útkoman koma virkilega vel út – eiginlega miklu betur en ég þorði að vona.“ Hann hefur ávallt kosið að gefa verkum sínum ekki heiti og útskýrir það svo: „Verkin mín fjalla í raun ekki um annað en sig sjálf og sjónræn áhrif þeirra á áhorfandann.“
Með sinni djúpu nálgun á fagurfræði og tilvistarmál nær Steingrímur að skapa myndheim sem bæði hrífur og vekur til umhugsunar. Hann lýkur því með hlýjum orðum til samstarfsaðila: „Ég er stoltur að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni og óska öllum sem tengjast Ljósinu innilega alls hins besta.“
„Stuðningur Nettó við Ljósið skiptir sköpum. Ekki bara til að safna í húsnæðissjóð Ljóssins heldur einnig við að vekja athygli á mikilvægi endurhæfingar krabbameinsgreinda sama hvar maður er búsettur og þar koma þau sterk inn enda með verslanir um allt land.“ segir Eva Guðrún Kristjánsdóttir, sérfræðingur í samskiptateymi Ljóssins. „Það gleður okkur að geta stutt við Ljósið með þessu átaki og nýtt verslanir okkar vítt og breitt um landið til að vekja athygli á starfseminni,“ segir Bóas Ragnar Bóasson, rekstrarstjóri Nettó.