Upptökur úr myndavél Teslu-bifreiðar eru hluti af sönnunargögnum í Gufunesmálinu svokallaða. Þar eru þrír ungir menn ákærðir fyrir að hafa orðið Hjörleifi Hauki Guðmundssyni, 65 ára manni frá Þorlákshöfn, að bana með því að misþyrma honum illilega í bíl og skilja hann eftir bjargarlausan á víðavangi í Gufunesi í Reykjavík.
Í Tesla-bíl sem hinir ákærðu óku er sjálfvirkur upptökubúnaður. RÚV greinir frá því að upptökur úr búnaði bílsins varpi ljósi á atburðarás málsins. Sakborningarnir fengu Hjörleif til að yfirgefa heimili sitt og óku víða með hann og beittu hann hrottafengnu ofbeldi í fimm klukkustundir sem leiddi til andláts hans. Hann var að lokum skilinn eftir klæðalítill á göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Þar fannst hann þungt haldinn og lét lífið skömmu eftir að hann hafði verið fluttur á sjúkrahús.
Ennfremur segir í fréttinni að starfsmenn bílaþvottastöðvar hafi fundið tennur í aftursæti bílsins eftir að hann var afhentur til bílaþvottar. Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, staðfestir að sakborningar hafi farið með bílinn í þvott eftir ódæðið.
Samkvæmt frétt RÚV verður aðalmeðferð í málinu í lok ágúst. Samkvæmt heimildum DV verður aðalmeðferð á þeim tíma eða í október. Hefur það ekki verið fastákveðið en fyrirtaka í málinu verður 11. ágúst. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi.