fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
Fréttir

Össur urðar yfir Morgunblaðið og Stefán Einar en er sáttur við ritstjórann – „Öfgafull málpípa raunverulegra eigenda“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 12. júlí 2025 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, einn stofnenda Samfylkingarinnar og fyrsti formaður hennar, og fyrrum ráðherra, er allt annað en sáttur við Morgunblaðið og Stefán Einar Stefánsson.

Segist Össur Morgunblaðið í nýjum ham sem „öfgafull málpípa raunverulegra eigenda, ólígarkanna í röðum sægreifanna.“

Hárrétt og óhjákvæmilegt að beita málþófsákvæðinu

Í færslu sinni á Facebook undir yfirskriftinni „Súrt blað – súr flokkur“ segir Össur það hafa verið hárrétt og óhjákvæmileg ákvörðun forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, að beita málþófsákvæði stjórnarskrárinnar til að tryggja að meirihlutavilji í veiðigjaldsmálinu næði fram að ganga.

„Málþófsákvæðið er neyðarhemill, leiddur í lög til að bregðast við stöðu eins og þeirri sem skapaðist á Alþingi, þar sem ábyrgðarlaus minnihluti tók þingið í gíslingu til að þröngva fram sérhagsmunum í andstöðu við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.

Í þessari orrahríð birtist Sjálfstæðisflokkurinn í nýju hlutverki froðufellandi lúsers og varð viðskila við þjóðina, kannski endanlega. Hann kaus að fótumtroða lýðræðið til að verja hagsmuni, sem kannanir sýndu að í hæsta lagi 17% þjóðarinnar studdu. Þetta er hinn nýi Sjálfstæðisflokkur.“

Segir Morgunblaðið í nýjum ham

Össur segir Morgunblaðið hafa birst í nýjum ham hvað málið varðar.

„Hvað sem um Moggann má segja hefur hann yfirleitt verið þokkalegt fréttablað, og sagt hlutlægar fréttir, jafnvel af átakamálum eins og veiðigjaldsmálinu. Í þessari hrinu birtist Mogginn hins vegar sem öfgafull málpípa raunverulegra eigenda, ólígarkanna í röðum sægreifanna.

Eitt af einkennum óligarkaveldis er að þeir ná undir sig fjölmiðlum til að verja hagsmuni sína. Ísfélagið er dæmigerður rísandi óligarki sem lætur sér ekki nægja að nota ofurhagnað af auðlind almennings til að kaupa upp hálft Ísland, heldur „á“ það í reynd Moggann líka. Það leggur í púkkið til að borga himinhátt árlegt tap af rekstri blaðsins og fjármagnar þannig helstu andstöðuna við sitjandi ríkisstjórn. Allir vita líka að ritstjórar verða ekki ráðnir gegn vilja þess.“

Össur lætur ekki þar við sitja heldur segir einnig að ritstjórn blaðsins beri þessa merki.

„„Bestu vinum aðal“ er svo hlaðið í pólitískar toppstöður á ritstjórn með Stefán Einar siðfræðing í broddi fylkingar. Í veiðigjaldsmálinu hafa þeir gefið línuna til þingflokksins í samvinnu við skrifstofur óligarkaveldisins. Hinn tungulipri Stefán og hin skelegga Heiðrún Lind hafa mótað hið taktíska stef í veiðigjaldsmálinu frá degi til dags. Eftir því dansar þingflokkurinn.“

Segir eigendatengsl lita allar fréttir

Segir Össur eigendatengslin lita allar fréttir Moggans af veiðigjaldsmálinu , bæði þær sem eru sagðar og hinar, sem þagað er yfir. Gott dæmi að hans mati er blað Morgunblaðsins í dag.

„Stefán Einar siðfræðingur, sem jafnan skelfur einsog hrísla andspænis Kristrúnu eftir að hún rassskellti hann í frægum þætti Spursmála, hefur gætt þess að Mogginn dragi upp þá mynd að hún sé frek og stjórnsöm og hvorki geti né vilji semja í þinginu. Liður í því er til dæmis að gæta þess vendilega að segja ekki frá verulegum tilslökunum ríkisstjórnarinnar til stjórnarandstöðunnar.

Þær voru tvenns konar á síðustu stigum málsins: Hækkun veiðigjaldsins var skipt niður á ár kjörtímabilsins og auk þess samþykkt að Byggðastofnun myndi meta áhrif nýrra laga í lok þess. Þetta var stórt skref til sátta. Allir fjölmiðlar hafa eðlilega gert þessu góð skil. Allir nema Moggaræfillinn. Þegar þetta er skrifað á glöðum laugardagsmorgni hefur Mogginn ekki greint frá þessu einu orði. Fréttir Moggans eru einfaldlega komnar undir pólitíska ritstjórn.

Í næstu skrifstofu við litlu spámennina situr hins vegar maður með miklu meiri reynslu og glöggskyggni en þeir allir til samans. Það er Davíð Oddsson, ritstjóri. Í dag skrifar hann Reykjavíkurbréf en þau fjalla jafnan um það sem ritstjóra þykja mikilvæg mál. Davíð virðist hins vegar sammála Kristrúnu um að virkjun málþófsákvæðisins hafi verið óhjákvæmileg því hann skrifar hvorki orð gegn henni né hækkun veiðigjalds. Meðan litlu spámennirnir eru í sameiginlegu taugaáfalli yfir festu Kristrúnar og hækkun veiðigjaldsins skrifar reynsluboltinn um mál sem hann telur eðlilega mun meira aðkallandi fyrir Íslendinga, geðheilbrigði Joe Bidens!“

Segir einn pistlahöfund hafa tengsl við þjóðarsálina

Össur segir að staðan sé orðin þannig að pólitískir skríbentar Morgunblaðsins lifa í bergmálshelli súrs flokkskjarna.

„„Blað allra landsmanna“ hefur ekki lengur virkt jarðsamband. Eini pistlahöfundur Moggans sem hefur tengsl við þjóðarsálina í dag er Kolbrún Bergþórsdóttir. Það er sannarlega ný og svolítið skondin staða…“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Elías Már til Kína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vikulega heimsótti Örn konu sem keyrði á hann 5 ára gamlan – „Dróst með bílnum 36 metra“

Vikulega heimsótti Örn konu sem keyrði á hann 5 ára gamlan – „Dróst með bílnum 36 metra“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dr. Gunna brá heldur betur í brún þegar hann kom heim

Dr. Gunna brá heldur betur í brún þegar hann kom heim