Samkvæmt heimildum DV er skýrslutökum yfir sakborningum í Gufunesmálinu lokið og styttist mjög í að lögregla sendi málið frá sér til Héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um ákæru.
Málið varðar andlát Hjörleifs Hauks Guðmundssonar, 65 ára manns frá Þorlákshöfn, sem fannst þungt haldinn í Gufunesi og lést skömmu síðar af völdum misþyrminga sem hann hafði orðið fyrir.
Sjá einnig: Styttist í að rannsókn Gufunessmálsins ljúki
Samkvæmt sömu heimildum má slá því föstu að þeir þrír sakborningar sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins verði ákærðir fyrir hlutdeild í morðinu á Hjörleifi. Einnig er talið mjög líklegt að einhverjir fleiri verði ákærðir, nokkrir aðilar til viðbótar hafa áður setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins, eða verið handteknir og yfirheyrðir, þar á meðal tvær konur.
Sakborningarnir þrír sem sitja inni voru í gær úrskurðaðir í framlengt gæsluvarðhald til 4. júní. Hámarks gæsluvarðhaldstími samkvæmt lögum án þess að sakborningi sé birt ákæra er 12 vikur. Sá tími rennur verður útrunninn þann 4. júní og í ljósi þess er líklegt að ákæra verði birt fyrir þann tíma. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfesti í gær í viðtali við RÚV að hann eigi von á því að ákæra verði lögð fram fyrir 4. júní.
Að minnsta kosti einn gæsluvarðhaldsfanganna þriggja kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn í gær til Landsréttar. Það hefur verið gert áður í þess máli en Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms til þessa.