„Ég get því miður ekki talað opinberlega um málefni tiltekinna einstaklinga, en bæði þessi mál eru í vinnslu. Í öllum tilvikum þarf að fylgja ákveðnum lögum og reglum varðandi húsreglnabrot og önnur brot og við erum að fylgja því. En þetta er sannarlega ekki góð staða og erfið, það er bara slæmt,“ segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, í viðtali við DV, um ástandið í fjölbýlishúsi í eigu félagsins við Bríetartún.
DV spurði Sigrúnu út í tvö tengd mál sem hafa verið í fréttum undanfarna daga. Annars vegar er það er það framganga eins leigjandans, síbrotakonu sem heldur nágrönnum sínum í heljargreipum ofbeldis, þjófnaða og skemmdarverka. Hins vegar er það mál Sigurbjargar Jónsdóttur, leigjanda í húsinu, sem borin var út úr íbúð sinni í dag, af hálfu Félagsbústaða, fulltrúa Sýslumanns og lögreglu, vegna vangoldinnar húsaleigu.
Sigurbjörg hætti að borga leigu til að þrýsta á um að hún fengi flutning í annað húsnæði og kæmist burt frá ofbeldiskonunni, sem tók þátt í hrottalegri hópárás og nauðgun á hendur henni fyrir nokkrum misserum. Félagsbústaðir brugðust við með því að bera Sigurbjörgu út á götu.
DV spurði Sigrúnu hvort hún kannist við að meðal leigjenda Félagsbústaða sé fólk sem er hættulegt umhverfi sínu, og ef svo er, hvort ekki sé óheppilegt að slíkir einstaklingar búi í nábýli við friðsamt fólk.
„Ef það eru einstaklingar sem eru hættulegir öðrum þá þurfa að vera þannig aðstæður að hægt sé að tryggja öryggi annarra. En við erum í sambandi við fólkið og erum að vinna þetta eftir bestu getu. Það er kannski ekki alveg nægjanlegt.“
Blaðamaður benti Sigrúnu á að íbúar sem rætt hafa við DV segist eiga mjög erfitt með að ná í Félagsbústaði, stundum sé það nánast ómögulegt. Blaðamenn bæði Vísis og DV hafi líka ekki getað náð í félagið við vinnslu frétta sinna um þessi mál. Á vefsíðu félagsins er eingöngu gefið upp eitt aðalnetfang stofnunarinnar (DV sendi fyrirspurn á það netfang á föstudag en svar hefur ekki borist) og hvorki er t.d. tilgreint nafn eða netfang Sigrúnar sjálfrar né annars aðila sem svari fyrir málefni félagsins.
„Þetta er góð ábending og ég þakka þér fyrir að benda mér á þetta. Við viljum svo sem að þetta fari í gegnum aðalnetfangið en það er engin leynd yfir mínu netfangi,“ sagði Sigrún og hét því að hún myndi skoða þessi upplýsingamál. Gaf hún síðan blaðamanni upp netfang sitt.
„En það er svarað í símann hérna allan daginn,“ bætti hún við og sagði að starfsfólk Félagsbústaða væri í miklu sambandi við leigjendur. Staðreyndin er samt sú að mjög erfitt er að ná sambandi í gegnum síma félagsins og leigjendur segja að svör við fyrirspurnum berist seint eða ekki.