fbpx
Fimmtudagur 29.maí 2025
Fréttir

Snorri vill að foreldrar fái að ráðstafa fæðingarorlofi sínu sjálfir og að ömmur og afar séu minna í útlöndum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. maí 2025 12:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Másson þingmaður Miðflokksins hefur miklar áhyggjur af fæðingartíðni Íslendinga. Við séum ekki að eignast nógu mörg börn til að viðhalda fólksfjölda og því stefni í óefni næstu 100 árin. Snorri hefur vakið athygli á þessu í ræðustól Alþingis og mætti í dag í Brennsluna hjá FM957 þar sem hann segir að stjórnvöld þurfi að bregðast við stöðunni. Meðal annars vill hann að foreldrar fái sjálfir að ráðstafa fæðingarorlofi og skipta því eftir eigin hentisemi, að börn fái fræðslu um frjósemi en ekki bara um getnaðarvarnir og eins kallar hann eftir því að ömmur og afar taki hlutverkum sínum alvarlega frekar en að hanga í útlöndum.

Gamlir pabbar á leikskólum

Snorri segir að nú, í fyrsta sinn í mannkynssögunni, sé fólk að fresta barneignum fram á fertugsaldurinn en átti sig ekki endilega á því að þá getur verið erfiðara að eignast börn vegna minni frjósemi.

„Núna ef þú ferð á leikskólana þá eru pabbarnir margir mjög gamlir þannig að það er breyting sem hefur orðið að þetta hefur færst mun síðar á lífsleiðinni.“

Fólk vill nú klára að mennta sig fyrir barneignir og eins er almennt talið að aldurinn frá 18-26 sé tíminn til að njóta lífsins með jafnöldrum, læra eitthvað nýtt, gera eitthvað skemmtilegt og til að ferðast.

„Þetta hefur meiri afleiðingar en maður kannski hugsar í fyrstu, að taka þessi ár og ætla þeim bara þetta og það komi næstum því ekki til greina að eignast börn fyrir 25 ára.“

Þrátt fyrir þessa breytingu hafi ekki orðið breyting á náttúrulegri frjósemi. Snorri telur að börn fái mikla fræðslu í skólakerfinu um hvernig þau geti beðið með eða komið í veg fyrir barneignir, svo sem með getnaðarvörum, en aftur á móti enga fræðslu um þennan frjósemisglugga. Umræðan sé meira á móti barneignum en með þeim. „Ég held að stóra gæfan og stóra hamingjan í lífi bæði karla og kvenna sé að eignast börn,“ segir Snorri. Umræðan snúist gjarnan um neikvæð áhrif barneigna á tækifæri til menntunar og atvinnuþróunar. Auðvitað fylgi því ákveðið vesen að eignast börn en fólk þurfi bara að líta á það sem hluta af lífinu.

Ömmur og afar þurfi að átta sig á sínu hlutverki

Snorri telur að umræðan um dagvistunarkerfið hafi haft neikvæð áhrif og kallar eftir því að stjórnvöld hætti að vera feimin við að hækka gjöld fyrir dagvistun eða að hleypa einkaframtakinu inn í málaflokkinn. Áður hafi foreldrar þurft að greiða mun hærra hlutfall af dagvistun barna sinna og það séu foreldrar þarna úti sem séu alveg til í að borga meira ef það tryggi börnum þeirra pláss.

„Foreldrar eru að borga miklu minna en eru samt brjálaðir og vilja meiri þjónustu og eru tilbúnir að borga. Það er eitthvað alveg rotið við það hvernig við erum að skipuleggja þessi mál og það er mikil viðkvæmni gagnvart einkaframtakinu og öðru eins. Ég segi að við þurfum bara að virkja alla sem eru tilbúnir til þess að taka þátt í að byggja upp leikskóla.“

Miðflokkurinn sé með þá tillögu að foreldrar fái frjálst val um hvernig þeir ráðstafa fæðingarorlofi sínu, þessum 12 mánuðum. Það sé allur gangur á því hvernig foreldrar kjósa að taka fæðingarorlof. Stundum henti það betur að tekjulægra foreldrið geti tekið lengra orlof og það þurfi ekkert endilega að þýða að karlmenn hætti að taka orlof eða að konur detti varanlega út af vinnumarkaði.

„Við eigum ekki að beita stóru tækjum ríkisvaldsins, eins og þessu, til að stjórna lífi fólks í smáatriðum.“

Eins þurfi að líta á barneignir sem samfélagslegt verkefni. Áður hafi ömmur og afar leikið stærra hlutverk í umönnun barna og mögulega hafi þetta haft áhrif á fæðingartíðina, að hafa ekki lengur ömmur og afa til að létta undir með foreldrum.

„Ömmurnar og afarnir, þau eru mjög mikilvæg. Þau þurfa að átta sig á sínu hlutverki,“ segir Snorri. Sumir séu heppnir í þessum efnum, líkt og hann sjálfur með sitt bakland,  en ekki séu allir jafn heppnir. „Kannski gat fólk áður reitt sig meira á ömmur og afa sem voru kannski ekki bara í útlöndum allt árið eða eitthvað svona. Það eru margir þættir í þessu.“

Hvað veldur?

Árið 2024 var frjósemi kvenna búsettra á Íslandi 1,56 og hefur aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2023 var frjósemi 1,59. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 hér á landi síðan árið 2012. Þessi þróun er að eiga sér stað á öðrum Vesturlöndum en fræðasamfélagið hefur ekki náð að greina nákvæmlega hvað veldur. Ýmsar kenningar hafa þó verið lagðar fram sem varða meðal annars þéttbýli, húsnæðisverð, snjallsíma og ýmislegt annað. Áður hafi börn verið búbót og hjálpuðu foreldrum sínum með búskap og annað. Nú séu börn meiri byrði og kröfur til foreldra hafa aukist til muna með tilheyrandi kostnaði. Fólk kjósi nú að hefja barneignir síðar á lífsleiðinni, en lækkun fæðingartíðni í Bandaríkjunum hefur einkum verið rakin til þess að færri unglingar eignist nú börn en nokkru sinni áður og tekjulægri hópar eignist nú síður börn. Eins hefur lækkun fæðingartíðni verið rakin til þess að fólk sem eignast börn kýs nú að eignast færri börn og til þess að fólk sem vill eignast börn frestar því of lengi og eignast þar með færri eða alls engin börn.

Eins er rétt að geta þess að Snorri talar ekki út í tómið þegar hann talar um að ömmur og afar spili almennt minna hlutverk í lífi barna en áður, þó Snorri hafi blessunarlega ekki fengið að kynnast því, en sú umræða hefur átt sér stað víða á Vesturlöndum undanfarin ár. Til dæmis birtist nýlega grein í breska blaðinu HuffingtonPost þar sem sérfræðingar veltu fyrir sér stöðunni og bentu á að ömmur og afar eru í mörgum tilvikum bara of upptekin vegna vinnu. Eins hafa foreldrar vakið athygli á málinu á samfélagsmiðlum. ABC birti frétt árið 2023 þar sem foreldrar af þúsaldarkynslóðini kvörtuðu undan áhugaleysi foreldra sinna á barnabörnunum, en þar sagði að ömmur og afar hefðu takmarkaðan áhuga á því að verja efri árum sínum í umönnun barna.

@brittnievh #family #mycrew #village #parenting #momsoftiktok ♬ original sound – overlays

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Diljá segir skiljanlegt að fólki sé brugðið yfir frjálsræði Rauðagerðismorðingjans og vill að erlendir glæpamenn afpláni erlendis

Diljá segir skiljanlegt að fólki sé brugðið yfir frjálsræði Rauðagerðismorðingjans og vill að erlendir glæpamenn afpláni erlendis
Fréttir
Í gær

Sara lenti í hræðilegu umferðarslysi fyrir sex árum – „Þennan dag misstum við næstum því molann okkar“

Sara lenti í hræðilegu umferðarslysi fyrir sex árum – „Þennan dag misstum við næstum því molann okkar“
Fréttir
Í gær

Þrettán ára stúlka bjargaði sér frá árásarmanni með jiu-jitsu brögðum – Ökklabraut óbermið

Þrettán ára stúlka bjargaði sér frá árásarmanni með jiu-jitsu brögðum – Ökklabraut óbermið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svikakvendi handtekið í Aþenu – Fatlaðir ferðalangar urðu strandaglópar á Íslandi – „Þetta var mjög freistandi“

Svikakvendi handtekið í Aþenu – Fatlaðir ferðalangar urðu strandaglópar á Íslandi – „Þetta var mjög freistandi“