fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Ákveðið að hefja viðræður um að Sýn verði meira eins og RÚV

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. maí 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur fallist á að hefja viðræður við fjölmiðlafyrirtækið Sýn um að tiltekinn hluti starfsemi þess verði skilgreindur sem almannaþjónusta líkt og gildir um alla starfsemi RÚV og ráðuneytið geri þjónustusamning, sams konar þeim og ráðuneytið hefur gert við RÚV, við fyrirtækið. Telur Sýn nauðsynlegt að gera slíkan samning til að tryggja sem mesta fjölbreytni þegar kemur að ljósvakamiðlum á Íslandi.

Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins um frumvarp til laga um fjölmiðla sem nú er til meðferðar á Alþingi en samkvæmt því á að minnka hámark stuðnings ríkisins við einkarekna fjölmiðla.

Í umsögninni segir meðal annars að fyrirtækið hafi áður lagt til að skilgreindir þættir í starfsemi þess yrðu skilgreindir sem fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir því við ráðuneytið um að gerður verði sérstakur þjónustusamningur við fyrirtækið, rétt eins og gerður hafi verið við RÚV. Slíkur samningur muni jafnframt taka mið af samningi norskra stjórnvalda við einkareknu sjónvarpsstöðina TV2, þar í landi, frá árinu 2018. Hafi ráðuneytið orðið við beiðni um viðræður og sé þar hafin vinna í því skyni að greina umfang og eðli verkefnisins.

Einkarekinn almannaþjónustumiðill

Um þennan samning frá Noregi segir í umsögn Sýnar að TV2, stærsta einkarekna sjónvarpsstöðin í landinu, hafi verið formlega útnefnd sem fjölmiðill í almannaþágu og gerður við hana þjónustusamningur. Sá samningur feli í sér skýrt skilgreindar skyldur TV2 um frétta- og menningarlegt hlutverk auk reglna um bókhaldslegan aðskilnað, en í samræmi við það fái stöðin ríkisstyrk til að mæta kostnaði við það hlutverk. Þessi aðferð hefur verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem lögmæt ríkisaðstoð samkvæmt reglum um þjónustu í almannaþágu.

Það kemur ekki fram í umsögn Sýnar en það er í fleiri Evrópuríkjum en bara Noregi þar sem hluti starfsemi fleiri fjölmiðla en eingöngu hins eiginlega ríkisútvarps er formlega skilgreind sem almannaþjónusta (e. Public service broadcasting) en þar má nefna til dæmis Bretland og Danmörku. Sumir þessara fjölmiðla eru eins og Sýn í einkaeigu.

Verja störf

Í umsögn Sýnar er enn fremur minnt á að nýlega þurfti fyrirtækið að draga úr framleiðslu innanhúss á innlendu dagskrárefni vegna versnandi rekstrarskilyrða. Fyrirtækið segir þjónustusamning við ríkið vera til þess fallinn að verja störf, efla innlenda framleiðslu og tryggja sýnileika íslensks menningarefnis í fjölmiðlum. Engar málefnalegar ástæður standi í vegi fyrir því að gerður verði slíkur samningur við Sýn.

Vill fyrirtækið meina að þess konar samningur styrki fjölmiðlaumhverfið, tryggi fjölbreytni í fréttaþjónustu og dragi úr hættu á að einungis RÚV sinni þessum lýðræðislega mikilvæga þætti á öldum ljósvakans. Sýn reki öfluga frétta- og menningardagskrá sem sé sambærileg þjónustu RÚV að flestu leyti, og telji félagið að það sé bæði sanngjarnt og skynsamlegt að ríkisvaldið styðji við þessa þjónustu. Vill fyrirtækið meina að leggist starfsemi fréttastofu þess í núverandi mynd af, með þeim afleiðingum að aðeins RÚV myndi flytja fréttir í útvarpi og sjónvarpi, væri það afleitt fyrir lýðræðislega umræðu og nauðsynlegt aðhald fjölmiðla.

Hvetur fyrirtækið Alþingi til að breyta lögum þannig að einkareknir fjölmiðlar geti fengið formlega útnefningu sem almannaþjónustumiðlar en aðeins RÚV getur samkvæmt núgildandi löggjöf haft slíka útnefningu. Segir Sýn að það myndi bæta fyrir ósanngjarnt samkeppnisforskot RÚV.

Ekki bara fréttir

Sýn vill ekki að eingöngu fréttaþjónusta fyrirtækisins verði skilgreind sem fjölmiðlun í almannaþágu. Vísar það í umsögn sinni til þess að slík skilgreining ætti einnig að gilda um kaup þess á innlendu gæðaefni til sýninga í sjónvarpi, svo sem leiknu íslensku efni og metnaðarfullu barnaefni, þar á meðal talsetningu á erlendu barnaefni fyrir íslensk börn. Slíkt efni þjóni menningarlegu og uppeldislegu hlutverki í almannaþágu og telur því fyrirtækið eðlilegt að það gæti fallið undir skilgreiningu almannaþjónustu til jafns við fréttastarfsemina. Sýn leggur til að við frekari mótun stuðningskerfa verði því kannað hvort unnt sé að styðja sérstaklega við sýningu á innlendu frétta- og menningarefni í gegnum saminga við ríkið um almannaþjónustu í fjölmiðlun.

Hvort Sýn verði að ósk sinni og ríkið geri samning, líkan þeim sem það hefur gert við RÚV, á hins vegar eftir að koma í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið á Menningarnótt

Svona verður veðrið á Menningarnótt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK