

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn Úkraínumanns um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ástæða synjunarinnar vekur athygli þar sem hún byggir á því að Úkraínumenn séu ekki eiginlegir flóttamenn í skilningi laga þar sem þeir hafa hlotið dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna fjöldaflótta.
Úrskurðurinn féll þann 21. október en var birtur í dag.
Úkraínumaðurinn flúði til Íslands í kjölfar innrásar Rússa í heimalandið og kom hingað til lands í janúar árið 2023. Líkt og aðrir í þessari stöðu var honum veitt sameiginleg vernd vegna fjöldaflótta á grundvelli útlendingalaga og í kjölfarið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Hann sótti svo um örorkumat hjá Tryggingastofnun (TR) í júní á þessu ári en umsókninni var synjað síðar í sama mánuði á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa búið á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn var lögð fram í samræmi við skilyrði laga um almannatryggingar.
Úkraínumaðurinn var ósáttur við þessa niðurstöðu og vísaði til þess að í lögum um almannatryggingar sé að finna undanþágu frá búsetutíma þegar um flóttamenn er að ræða. Það liggi fyrir að hann sé á flótta í heimaríki sínu og hafi verið veitt vernd af þeim ástæðum af íslensku ríkisstjórninni. Taldi hann ósanngjarnt að það ætti að mismuna honum þar sem hann hafi fengið vernd á grundvelli fjöldaflótta.
TR vísaði til þess að Úkraínumaðurinn væri með tímabundið dvalarleyfi hér á landi til 3. janúar 2026 á grundvelli fjöldaflótta. Dvalarleyfið sjálft var veitt á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Vernd vegna fjöldaflótta sé tímabundin og veitt án einstaklingsbundinnar efnismeðferðar og tryggi rétt til dvalar og vinnu. Hér sé um sérstakar aðstæður að ræða. Þessi dvalarleyfi séu kölluð ML-dvalarleyfi og einstaklingar sem fá þau útgefin njóti ekki formlegrar viðurkenningar sem flóttamenn samkvæmt Genfarsamningnum. Þessi leyfi séu veitt einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd en uppfylla hvorki skilyrði flóttamanns né viðbótarverndar. Þessir einstaklingar njóti því ekki undanþágu almannatryggingalaga vegna flóttamanna heldur þurfa að byggja rétt sinn til slíkrar aðstoðar á áunninni búsetu líkt og aðrir.
Úrskurðarnefndin tók undir með TR. Úkraínumaðurinn hefði ekki fengið alþjóðlega vernd sem flóttamaður heldur vernd á grundvelli fjöldaflótta og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
„Þar sem kæranda hefur ekki verið veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 til þess að vera tryggður í íslenskum almannatryggingum frá komudegi.“
Einstaklingar sem hafi hlotið sameiginlega vernd séu ekki í sambærilegri stöðu og einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og þar með væri ekki verið að brjóta gegn jafnræðisreglu. Ákvörðun TR um að synja umsókn Úkraínumannsins um örorkulífeyri var því staðfest.