

Sigríður Svanborgardóttir, ljósmyndari, nemi í félagsráðgjöf, með bakgrunn í mannréttindum og samfélagsmálum, segir kominn tíma til að hlusta á eldri konur og hjálpa þeim að segja sögu sína. Þessar konur hafi margt að segja og einhverjar þurfi aðstoð að segja sögu sína.
„Við, sem stöndum á milli heima, kynslóðin sem getur bæði skilið fortíðina og notað tæknina, þurfum að verða brúin. Við þurfum að bjóða okkur fram: „Má ég hjálpa þér að setja þetta á blað? Má ég hlusta á þig….. í alvöru“.“
Segir Sigríður í grein sinni að margar þessara kvenna eru bitrar og reiðar. Þær hafi orðið fyrir óréttlæti og yfirgangi, bæði heima og úti í samfélaginu. Konurnar hafi verið sakaðar um hluti sem aldrei gerðust, og enn þann dag í dag finna sumar þeirra fyrir vanvirðingu og illu umtali um fortíð sem var í raun búin til af öðru fólki, fólki með vald í fjölskyldunni, í kerfinu eða í samfélaginu.
„Þegar þú ert máluð sem vandamálið, þegar saga þín er snúin upp í lygi, þá er skiljanlegt að þú verjir þig með beiskju, beittu tungutaki og reiði. Þetta er ekki illgirni „án ástæðu“, þetta er varnarkerfi eftir áratugi af óréttlæti.
Það er til heil kynslóð kvenna sem varð fullorðin áður en #metoo, áður en fræðin fengu orð yfir ofbeldi, gaslýsingu og kerfislegt misrétti. Konur sem lærðu frá fyrstu árum að vera stilltar, þakklátar og ekki gera veður út af hlutunum. Þær sáu heila heimsmynd breytast, en fengu sjaldnast sjálfar sviðið til að segja eigin sögu.“
Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands árið 1980 og segir Sigríður margar þessara kvenna hafa upplifað það þegar Vigdís skráði sig í heimssöguna. Segir hún Vigdísi hafa unnið starf sitt vel og sett konur á kortið um allan heim. Hún hafi þó aldrei verið rödd allra kvenna.
„Hún var rödd kvenna og karla í framlínu og í elítum, þeirra sem þegar höfðu menntun, tengsl og tungumál til að vera tekin alvarlega.
En á meðan héldu ótal konur áfram að lifa lífi sínu alveg utan ramma þessarar myndar, ólaunaðar, ósýnilegar og oft miskildar. Þetta eru konurnar sem voru sendar heim til sín þegar þær urðu óléttar, misstu vinnu þegar þær veiktust, var sagt að þær væru erfiðar ef þær mótmæltu, og tilfinningalega óstöðugar ef þær grétu. Þær vissu að eitthvað var rangt, en tungumálið til að útskýra það var ekki til þá. Þær flestar gerðu það sem þeim var sagt í ósögðum orðum að gera, að þegja og halda áfram.“
Sigríður segir sögu þessara kvenna og reynslu þeirra lítið skráða og sagða.
„Samt sitja þær við eldhúsborð um allan heim með sögur sem ná yfir stríð, kreppur, misnotkun, þvinguð sambönd, drykkju, vanrækslu og óbærilega ábyrgð, að halda fjölskyldunni saman sama hvað.“
Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið sé um að ræða konurnar sem ólu upp kynslóðina sem kallar sig frjálsa, feminíska og vel upplýsta.
„Það voru þeirra líkamar sem báru byrðarnar, þeirra líf sem fór í að lappa upp á það sem þurfti að líta betur út útá við eða að halda andliti fjölskyldunnar. Samt er það oft eins og samfélagið sjái þær fyrst þegar þær verða eldri konur sem þurfa þjónustu, ekki sem heimildir um réttlæti, misrétti og lifað líf.“
Konurnar fái að tala smávegis en ekki taka pláss, þær megi rifja upp sögu sína, en samt ekki or mikið.
„Þær fá að segja frá ævi sinna svo lengi sem það styður fallega sjálfsmynd samfélagsins. En hvað gerist ef við tökum þær alvarlega? Ef við lítum á sögur þeirra sem heimildir ? Þá verður sýn okkar á sögu fjölskyldunnar, velferðarkerfisins og jafnvel þjóðarinnar allt önnur. Þá sjáum við hvernig konur voru notaðar sem ódýrt vinnuafl, ólaunaðir umönnunaraðilar og tilfinningalegar ruslatunnur heilla kynslóða. Og við sjáum líka hvernig vald í fjölskyldum og litlum samfélögum var oft notað til að búa til sögur um þær, fremur en að hlusta á sögur þeirra.
Margir karlmenn urðu „sögupersónurnar“, bankastjórar, stjórnmálamenn, athafnamenn. Konurnar við hlið þeirra urðu oft bara nöfn í ættfræðiritum: eiginkona, móðir, amma. Án lýsingar á því hvað þær gengu í gegnum. Hversu oft þær stigu til hliðar. Hversu oft þær ákváðu að halda munninum lokuðum til að vernda fjölskylduna, halda friðinn eða forðast vandræði.“
Sigríður segir margar þessa kvenna hafa reynt að tala. Þær voru bara ekki teknar alvarlega, eða einfaldlega þaggaðar niður eins og hún segir. „Sumum var gefin „geðveiki stimplun”, öðrum var sagt að þær væru athyglissjúkar, enn aðrar voru bara hunsaðar, oft fyrirlitnar. Sumir fjölskyldumeðlimir og áhrifafólk í litlum samfélögum sáu sér hag í því að semja aðra útgáfu af sögunni: að hún væri vandamálið, hún væri ósannfærandi, hún væri „svona týpa“. Sú saga lifir stundum enn, löngu eftir að fólk hefur gleymt hvað gerðist í raun.“
Segir hún grein sína boð til þessara kvenna, við þurfum að heyra rödd þeirra og sögur:
„Til konunnar sem hélt fjölskyldunni gangandi meðan maðurinn drakk.
Til konunnar sem þurfti að gefa barnið sitt í burtu.
Til konunnar sem var send á stofnun í stað þess að fá hjálp.
Til konunnar sem var kölluð „geðveik“ þegar hún loksins sagði sannleikann.
Til konunnar sem vildi skilja og varð áreitt, útskúfuð og einelt.
Til konunnar sem missti tengslin við börnin sín vegna þess að þau fengu þögul skilaboð um að útskúfa hana.“
Sigríður segir það samfélag sem vill kalla sig sanngjarnt og jafnréttissinnað ekki geta byggt framtíðina á því að sum líf séu of flókin, of erfið eða of óþægileg til að segja frá. Sögur eldri kvenna séu ekki aukaatriði, heldur eru lykillinn að því að skilja hvers vegna óheilbrigð samskiptamynstur halda áfram milli kynslóða.
Kannski er stærsta réttlætismál næstu ára ekki „ný herferð”. Kannski er það einfaldlega að setjast niður með þroskaðri og lífsreyndri konu, slökkva á símanum og spyrja: „Viltu segja mér frá? Og má ég hjálpa þér að skrifa það niður? Þú átt sviðið og við hlustum”.
Lesa má grein Sigríðar í heild sinni hér.