

Skæðar flensur herjar nú á fjölmörg Evrópulönd og hafa Íslendingar ekki farið varhluta af því. Tilfellum hér hefur fjölgað ört undanfarið og eru fleiri en ein tegund af inflúensum í gangi. Til að mynda hefur mikið álag verið á Barnaspítala Hringsins vegna faraldursins og dæmi um að börn undir eins árs aldri hafi þurft að fara í öndunarvél vegna veikinda.
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að svokölluð inflúensa A, af tegundinni H3N2, hafi sérstaklega valdið usla í álfunni á undanförnum vikum. Miðað við fjölda tilfella í Bretlandi er um að ræða skæðasta innflúensu faraldur sögunnar og dæmi eru um að grunnskólar hafi einfaldlega lokað einhverja daga. Þá hefur tilfellum fjölgað hratt í Frakklandi og á Spáni.
Er almenningur víða hvattur til þess að nálgast tímabilið eins og þegar Covid-faraldurinn var og hét. Gæta að handþvotti og ef fólk finni fyrir smávægilegum einkennum er ráðlagt að nota andlitsgrímur til þess að verja aðra frá smiti.