
Marko Blazinic, 43 ára maður frá Króatíu, var í gær sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Marko var sakaður um að hafa staðið að innflutningi á hátt í 7 kg af kókaíni, eða 6.756,22 g, með styrkleika upp á 68-70%.
Brotið var framið þann 4. september síðastiðinn. Fíkniefnin flutti Marko frá Svíþjóð til Danmerkur, falin í 11 pakkningum í varahjólbarða og tveimur pakkningum í poka á gólfi undir ökumannssæti bíls af gerðinni Volvo S8. Frá Danmörku flutti hann efnin með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar, en þar fundust þau við leit í bílnum.
Marko játaði sök fyrir dómi en fékk engu að síður þunga refsingu enda um mikið magn fíkniefna að ræða. Var hann dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Dóminn má lesa hér.